mánudagur, ágúst 27, 2007

...til sjávar

Jeg hefi hugsað mér að hefja blogg leikin að nýju með einhverju sniði.

Það hefur eitt og annað á dagana drifið síðasta mánuðinn eða svo.

Ef ég stikla á því stærsta þá mundi listinn líta svona út.

- Akkorðsvinna í garðyrkju og hellulögnum með Johan félaga mínum.
- Ýmsar lagfæringar á íbúðinni við Lombardigötuna.
- Baðherbergið klárað.
- Flutningur undirbúin.
- Keypt verulega inn af ýmsum heimilismunum.
- Búslóðinni pakkað saman.
- Öllu komið í gám.
- Gengið frá íbúðarkaupum og starfssamningi.
- Hverfið og samferðamenn hvaddir.

...Nú erum við komin heim á hina ástkæru fósturfold og munum hefja hér búskap að nýju.

laugardagur, júní 30, 2007

Júnífærslan.!

Það hefur verið rólegt yfir síðunni undanfarin mánuð. Eftir góða ferð á heimahagana um sjómannadaginn tók veruleikinn við hér í sjóðheitri Kaupmannahöfn. Tengdaorldrarnir koum hingað til okkar í vikutíma og eins og endranær var tekið til við lagfæringar og endurnýjun á lagnakerfum íbúðarinnar, með stórpíparann í framsætinu. Baðhebergið var rifið í agnir og er nú á leið með að verða mönnum sæmandi með nýjum flísmu í hólf og gólf ásamt innréttingum. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig og gerir enn, en allt saman færist verkið löturlega fram á við.

Skipulagsverkefnið sem ég að vinna að með frænda sat sem fastast á hakanum, þó svo að undirritaður klóraði af fremsta megni í bakkan og las hin miklu fræði á milli tarna. Verkefnið er nú á fullri ferð þó svo að við máttum játa okkur sigraða ganvart tímamörkum keppninnar í Noregi. Síðasta vika hefur verið mjög annasöm og verkefninu miðað geysivel, en tíminn var of naumur og ekki bætti úr skák að skilin voru einum degi fyrr en við höfðum talið.

Um miðjan mánuðin fórum við fjölskyldan í sumarbústað með Halli, Hönnu og börnum. Bústaðurinn er staðsettur við litlabeltið, litlu sunnan við Kolding. Dvölin var yndisleg en samviskan var þó að angra undirritaðan ótt og títt. Við stunduðum sjósundið með miklum móð vopnuð kafaragleraugum, blöðkum og munnstút. Undan ströndinni eru mikil krabbamið og dunduðum við okkur við að veiða þessar skepnur sem reyndist hin besta skemmtun.

Í lok dvalarinnar sem innihélt ferð í Legoland og safaripark keyrðum við yfir til Þýskalands og heimsóttum Flensburg. Borgin er virkilega falleg eins og flestar þessara gömlu evrópsku hafnarborga sem sveipaðar eru söguslóðum frá fjöruborði að kirkjuturnum. Einnig litum við í landamæraverslanirnar og keyptum sitt lítið af hverju, aðallega leikföng fyrir ungana. Verðlagið þar er mjög hagstætt og þá sérstkalega á guðveigunum. Rafmagnstæki og annað glingur er einnig á góðu verði og ekki myndi mig undra það að við gerðum okkur eina ferð þarna suðureftir til að versla í gáminn.

Þessi helgi sem og síðusta daga hefur verið tileinkuð verkefnavinnu, þar sem endnaleg skil eiga að vera á mánudag og próf á fimmtudag. Nú er að duga eða drepast.

mánudagur, maí 28, 2007

Hnittin tilsvör. - maður er það sem maður étur.!

Ég hef alltaf haft gaman af hnittnum tilsvörum. Held svei mér þá að það séu gáfumerki að geta svarað fyrir sig á þann hátt að staði og stund sé lyft á hærra plan. Margir samferðamenn mínir eru einstaklega góðir í slíkum tilsvörum og þá ekki síst frændur mínir í föðurlegg.

Frændi minn mætti í skólann á mánudagsmorgni fyrir stuttu og var heldur framlár eftir ævintýri helgarinnar. Að sögn var hann með kærustuna í heimsókn alla helgina. Ég tók skilningsríkur undir og bætti úr með að segja að hann væri nú svolítið tussulegur að sjá. Frændi snéri sér við og sagði ..."nú, maður er það sem maður étur!"

góður.!

Sunnudagur með gráan himinn.

Í gær lá svo leiðin á hið árvissa karneval í fælledparken. Þar var margt um mannin og mikið að sjá og gera. Ekkert varð úr boðuðu regni og meira segja léku einn og eins sólargeisli um andlit manns. Óliver var glaður með uppátækið og vildi ólmur fylgjast með léttklæddum meyjum dansa brjálaðan samba við dúndrandi bumbuslátt, hann byrjaði meira að segja að dilla sér.

Karen reyndi hvað hún gat til þess að ná góðum myndum á gemsan sinn og tróðst og tróðst í mannþvögunni, árangurinn varð því miður heldur magur.

Óliver fékk helíum blöðru í hests-líki. Pabbinn á erfitt með að standast biðjandi auga barnana þrátt fyrir góðan ásetning og "nei" svör fyrstu 18 skiptin sem spurt er. Það stóð 20 kr með stórum stöfum á skiltinu og ég lét til til leiðast og pantaði blöðruna. Afgreiðslumaðurinn sem seldi blöðrurnar úr skottinu á mözdu druslu rukkaði mig um 50 krónur. Ég rak upp stór augu og benti á skiltið. "Jez, jezz" sagði hann "it is fra twenty crowns" og benti á orðið fra sem var útmáð og skrifað með míkróletri í einu horninu á skiltinu.

Á svæðinu voru að sjálfsögðu Inkarnir í ægilegum múnderingum og spiluðu á panflautur við undirspil af dramatísku trumbuspili. Karen fannst þessi músik flott og hlustaði af einlægni. Ég bauðst til að kaupa disk af indíanaklæddum dananum sem gekk um og reyndi að selja diska sem hann sagði spilaða af sjálfu bandinu. Ég keypti einn á 120 kr og þóttist nokkuð ánægður þar sem sölumaðurinn sagði diskinn vera algera næringu fyrir sálina. Hann benti meira að segja aftan á diskinn og sagði "þetta lag eru þeir að spila núna "ohna na" ...og þá var ég seldur!

Þegar heim var komið var diskurinn settur í tækið og hvílík vonbrigði. Meira og minna allt spilað á syntheseizer og meira að segja sungið á ensku á nokkrum lögum. Eftir að hafa skoðað hann nánar komst ég að því að þetta er fjöldaframleitt í póllandi og ekkert orginalt við þetta. Ég sem hafði haldið mig vera væri að kaupa eitt lítið stykki Inka kúltur sat nú svikin í stofunni með pólskt tölvupopp klætt í indíánafjaðrir.

Disknum hlotnaðist strax þann vafasama heiður að verða einn lélegasti og mesty korní diskurinn í safninu og er þá af ýmsu að taka, til dæmis, Celin Dion on pan pipes, the latin album og celtic spirits.

Fasteignasalar á ferð.

Undanfarnar vikur höfum við tekið á móti góðum slatta af fasteignasölum sem komnir eru að gera okkur tilboð. Þetta fólk með hið tvísýna orðspor hefur nú komið að öllu leyti vel fyrir og gert og góð tilboð. Tíminn til fasteignaviðskipta er ekki sérlega góður nú um stundir, með tilliti til þeirra sem eru að selja þar sem verðið hefur hríðlækkað og margar eignir á sölu. Við erum þó ekki af baki dottinn og köstum okkur útí þetta ferli.

Fasteignasalarnir hafa allir sett upp álíka verð fyrir fasteignina og þess vegna er nokkuð ljóst hvað mun koma í okkar hlut. Við getum ekki annað en verið ánægð þar sem íbúðin hefur hækkað mjög síðan að festum kaup á henni. En manni verður oft hugsað til þess ef við hefðum selt fyrir ca. 20 mánuðum, þá ætti maður aukalega fyrir lexusjeppanum, tjaldvagni og snjósleða. En svona er þessi markaður, já og lífið sjálft, ekki möguleiki fyrir okkur hina sauðheimsku leikmenn að átta sig á neinu eða sjá hlutina fyrir.

En til að gera íbúðina enn söluvænlegri en hún er, þá verður lappað uppá eldhús og bað. En sjaldan hefur íbúðin verið svo hrein og fín í svo langan tíma í einu þar sem þessir matsmenn koma og fara með nokurra daga millibili. Íbúðin er alltaf eins og klippt úr "húsi og hýbíli" og fyrir algera tilviljun er alltaf mjúkur jazz í græjunum og fersk blóm á borðstofuborðinu.

En þessa dagana er frúin á klakanum og leita að húsnæði til að hýsa okkur næstu 1 - 2 vetur, á meðan við reynum að kaupa lóð og byggja. Ætlunin er að freista þess að fá lóð í Úlfarsfellinu og byggja gott einbýli, en við sjáum hvað setur, byrjum á sæmilegri íbúð einhversstaðar í úthverfunum.

sunnudagur, maí 27, 2007

Lónlí laugardagskvöld

Þessa dagana er ég í hlutverki grasekkils með tvö elstu börnin. Frúin skellti sér til Íslands á þriðjudaginn til þess að athuga með húsnæði og skólavist. Svo var náttúrulega kærkomið tækifærið að fara með Ísabel litlu til ömmu og afa.

En þetta hefur allt saman gengið bærilega síðan að Sonja fór, börnin hafa mætt á réttum tíma í skóla og leikskóla, fengið að borða, föt til skiptana, sofnað fyrir miðnætti, og eru bara nokkuð hrein og stríluð. Er ekki hissa á að manni verði bara meira úr verki þegar ábyrgðin hvílir öll á manni sjálfum.

Á fimmtudaginn kom svo Tryggvi og börnin í mat til okkar. Við elduðum grænmetislasagne að hætti bóndans, en þessi réttur hefur skapað mér guðdómlegan status meðal vina og ættingja.

Í gær fór Karen í afmæli til Stellu vinkonu sinnar. Stella þessi á mjög svo flippaða foreldra sem reka vinsælasta kaffihúsið hér í suðurenda Kaupmannahafnar. Þau hafa inrréttað íbúðina sem eitt stórt leiksvæði fyrir dæturnar þar sem litagleðin er í allgleymi. Og skiljanlega finnst Karen æðislegt að koma til hennar, svo hafa þau öll einstaklega þægilega nærveru.

Embla dóttir Tryggva bauð okkur svo í tólf ára amæli sitt í morgun. Þar var á boðstólnum brauð og bollur að dönskum sið, en enginn gammel dansk.! Ætlunin var að kíkja á karnevalið sem er haldið þessa dagana í Fælledparken en vegna þreytu og yfirvofandi sudda og rigningu var því frestað til morguns. Þá verður smurt nesti og arkað af stað. Færeyingarnir sóttu fast að mér í byrjun vikunnar að ég kæmi með Íslenska sveit í róðrakeppni sem haldin var í dag hér í norðurenda borgarinnar. Því miður tókst það ekki vegna lítils fyrirvara, en norðurlandakeppnin þann 9. júní verður dagurinn þar sem þjóðfáni okkar verður dreginn hátt að húni á Ishøj Regatta.!

Þessa stundina er ég að vinna að verkefni okkar Jóns Rafnars og gengur bara þokkalega. Á morgun verður svo reynt að klára Ósvaraverkefnið. Á borðstofuborðinu er kaldur Carlsberg innan um skólabækurnar og Thomas Helmig hljómar í bakgrunninum með "nu hvor du har brændt mig af".


Lónlí laugardagskvöld með léttu sniði

fimmtudagur, maí 17, 2007

Europan 9

Um þessar mundir er ég að fást við hanna bæjarskipulag fyrir bæ í vestur-Noregi. Verkefnið er unnið inna skólans og erum við tveir saman um að vinna það, ég og frændi minn Jón Rafnar Benjamínsson. Verkefnið verður svo sent inn í stóra evrópska hönnunarkeppni Europan 9. Verkefnið er gríðarlega skemmtilegt og margir spennandi þættir í því, mörg úrlausnarefni.

Bærinn heitir Odda og er innst inni í Hardangerfjorden, sem er þriðji lengsti fjörður í veröldinni. Odda er gamall iðnaðarbær, en var áður einhver mest sótti ferðamannastaður í skandinavíu og var sérstaklega vinsæll meðal evrópska kóngafólksins. Þarna bjó svo Arndís systir mín með börn og buru í ein átta ár.

Ég man vel þegar við hjónin keyrðum þangað með Karen Emblu jólin 2001 og hversu mikilfengelg sú upplifun var að sjá þetta landslag.

En verkefnið gengur í stuttu máli út á að endurgera og skipulaggja miðbæjarstæðið og hafnarsvæðið. Samhliða þeim verkenum vinnum við frændurnir að ritgerð um Landscape urbanism og leysum ákveðin teorísk úrlausnarefni.

Svo bíður lokaverkefnið handan við hornið......

þriðjudagur, maí 08, 2007

Fermingarafmælið og árið 1987

Á sjómannadaginn verður haldið 20 ára fermingarafmæli ´73 árgangsins frá Bolungarvík. Það virðist ætla verða góð mæting samkvæmt nýjustu meldingum og ekki annað að ætla en að þetta verði gott geim og skemmtilegir endurfundir.

Ég er sjálfur búin að tryggja mér flugmiða til landsins og vestur, og er bara farið að hlakka mikið til.

Það var nú reyndar nett sjokk að uppgötva að það væru 20 ár liðin frá fermingu. "Tíminn líður hratt á gervihnattaöld", söng Pálmi Gunn í Bergen 1986 og hefur reynst sannspár með ólíkindum.

Ég man ótrúlega vel eftir fermingarárinu 1987. Þá fór ég fyrst til útlanda, fékk vasadiskó og ný skíði, lærði að beita, varð íslandsmeistari og valinn í nemendaráð grunnskólans, saumaði mér leðurstuttbuxur, og greiddi mér eins og Billy Idol.

Tónlistin sem ég man eftir og minna mig á þetta ár er til dæmis, (sérstaklega æfinga og keppnisferðina til Þýskalands).
Cest´la vie með Robbie Neville.
Don´t dream its over með Crowded house.
Lean On Me með Club Nouveau.
Lady In Red með Chris De Burgh.
Died In Your Arms með Cutting Crew
Mony, Mony með Billy Idol.
...sem sagt, hafði ég mjög þroskaðan tónlistasmekk!

Síðan hefur margt vatn runnið til sjávar og gaman verður að hitta gömlu bekkjarfélagana við ósinn á ný.

Með eilífa standpínu

Ónefndur breskur sölumaður hefur haft holdris samfleytt í meira en sjö ár, samkvæmt frétt BT. Karlgreyið hefur gengist undir margar aðgerðir til að draga úr risinu en ekkert gengið. Nú er víst svo komið að hann getur ekki sinnt starfi sínu sem skildi, þar sem spjótið rekst utan í allt og alla, flestum til ama.

Þetta eru mikil vandræði, en undarlegt að þetta skuli rata í heimsfréttirnar. Það er kannski vegna þess að maðurinn er komin af unglingsárunum. Veit ekki betur en að álíka ástand hafi verið á flestum mínum bekkjarfélugum árum saman og ekki þótt merkilegt, heldur voru menn stoltir og metuðust um fegurð, stærð og yfirbragð.

Í minni sveit höfðu menn ráð við svona pínum, eða öllu heldur ráð við að ná hröðu "ris-sigi". Bændurnir í Ávíkunum sögðu kunna besta ráðið til að veita mönnum ráðningu sem gerst höfðu ágengir við húsfreyjurnar og jafnvel náð fram sínum vilja. Þeir vildu binda viðkomandi við eldhúskoll og láta húsfreyjuna nudda ærlega lífi í vininn. Þegar risið yrði sem hæst, þá tækju bændurnir lítin lurk, hels með litlum nöglum og lemdu í reðinn þar til hjónadjöfullinn grátbæði sér vægðar. Bændurnir sögðu þetta ráð algerlega óbrigðult, en verst hve limurinn misti risið hratt. Ekki fylgdi sögunni hvort þetta hafi í raun verið reynt, en ekki skildi mig þó undra það.

sunnudagur, maí 06, 2007

Myndir frá körfuboltamótinu í Rungsted.

Ég er búin að setja nokkrar svipmyndir af Karen inná myndasíðuna mína. Myndirnar eru allar teknar á körfuboltamótinu í Rungsted, laugardaginn 6. maí.




Nei nei ég var bara að skíta.

Það var nokkuð skopleg frétt sem birtist á BT vefnum í dag. Maður einn var á tali við vinkonu sína snemma sunnudagsmorgun. Í miðju símtalinu heyrði konan undarleg hljóð á hinum enda línunnar og í sömu andrá slitnaði símtalið. Konan sem óttaðist hins versta um afdrif vinar síns hringdi í ofboði á lögreglu og sjúkrabíl. Þegar hersingin öll mætti á staðinn, komu þau að manngreyinu á dollunni með pípandi ræpu. Hann baðst að sjálfsögðu sér forláts en sagðist hafa skellt á vinkonuna þegar ræpan skall á honum algerlega fyrirvaralaust.

Ég man eftir einum sketch hjá tvíhöfða þar sem Sigurjón Kjartansson er að tala í síma við einhverja dömu leikna af Jóni Gnarr. Í miðju símtalinu fara að berast mikil óhljóð frá Sigurjóni í gegnum síman, daman bregst hin ókvæða við og spyr, "hvað ertu að gera, ertu að runka þér.?". "Nei, nei" svarar Sigurjón, "ég er bara að skíta".

Við getum öll lært eitthvað af þessu og sérstaklega norðmaðurinn, að að vera heiðarleg og ekki vera feimin við að tala í síman með maður er að skíta. Einn góður föðurbróðir minn hefur sagt mér að varla sé hægt að nýta tíman betur á kamrinum en í spjalli við gamla vini og ætmenni. Það væri jafnvel hægt að ljúka bankaerindum þrútin, með andnauð og skerandi sársaukan við að fæða afkvæmi chilikássu gærkvöldsins.

Karen gerir garðinn frægan.

Í gær tóku stelpurnar frá BK Amager þátt í nokkuð stóru körfuboltamóti norður í Rungsted. Ég og Karen fórum á fætur klukkan 06:00 og tóku lestina, ferð sem tók allt í allt um 1 og 1/2 klst. Mótið byrjaði kl. 08:00 og var síðasti leikur leikinn um sexleytið. Stelpuranr léku sjö leiki í allt og stóðu sig með stakri prýði. Þær unnu alla leikina nema einn, en það var á móti stelpunum frá Hróarskeldu. Leikurinn tapaðist 13 - 21, en stelpurnar frá hróarskeldu voru allar ári eða tveimur eldri. Karen stóð sig vel á mótinu, en þreytan var að sjálfsögðu farin að segja til sín í lokin.

Stelpurnar komust í úrslit og urðu þá að mæta stóru stelpunum frá Hróarskeldu aftur sem unnu höfðu alla leikina sína. Karen sem aldrei áður hafði átt möguleika á að eignast gullverðlaun varð frekar stressuð og taugaóstyrk af spennunni. Ég hughreysti hana og bað hana að nýta orkuna inni á vellinum og gefa allt sem hún ætti, hún fengi aðeins einn séns, og það var núna.


Þegar leikurinn byrjaði voru bæði liðin mjög ákveðin og leikurinn strax í járnum. Okkar stelpur vörðust eins og ljón og stóru stelpurnar fengu aldrei frið til að spila sitt spil. Eftir 1. fjóðrung var staðan 5 - 6 fyrir hróarskeldu. Karen hvíldi 2. fjórðung, en hvorugt liðið náði þá að skora og leikurinn gríðarlega jafn. Í 3. fjórðung kom Karen aftur inná, með glampa í augum og gríðarlega einbeitt.

3. fjórðungur byrjaði með látum og Karen sýndi strax góða takta í vörninni. Hún stal öllum boltum sem komu inní teiginn og átti 2 glæsileg hraðaupphlaup í röð sem enduðu með skori. Hún fékk vítaskot í kjölfarið á öðru og skoraði úr því. Í einni sókninni reif hún sig lausa frá 3 andstæðingum, snéri sér við og lét vaða á körfuna, og beint ofan í. Karen sem hlaut mikið lof fyrir frammistöðuna skoraði 9 stig af 21 stigi liðsins. En BK Amager vann leikinn að sjálfsögðu, þar sem Hróarskeldu stelpurnar skoruðu ekki nema 2 stig, síðustu 3 leikhlutunum.


Það var því þreytt og stolt dama sem kom heim með verðlauanpening um hálsinn og viðukenningaskjal og magnaða frásögn í farteskinu.

Mér líst vel á...

Það sem mér líst vel á þessa dagana og sem lyftir sinninu nokkrar tommur er:

...Addi kitta Gau í kosningabaráttunni.
...Veðrið í Danmörku.
...Mugison.
...Nýja klippingin hjá Sonju.
...Tilvonandi bekkjarmót.
...Nýji mp4 spilarinn okkar.
...Matreiðslubækur Jamie Oliver.
...Námslokin í augnsýn.
...Góðar atvinnuhorfur.

föstudagur, apríl 27, 2007

Jóhann Jóhannsson

Ég keypti mér nýverið geisladisk sem ber nafnið ibm 14c1, a users manual, sem inniheldur tónverk í 5 hlutum eftir Jóhann Jóhannson. Þessi diskur fékk alveg frábæra dóma hér í Danmörku, sem varð til þess að síðustu krónurnar voru hífðar upp úr slitnum gallabuxunum og réttar Þórhalli í 12 tónum.

Tónlistinn á disknum leggur einfaldlega línurnar fyrir nútímavæðingu klassískar tónlistar. Tónlistin er dramatísk, ljóðræn og poppuð í senn sem fær hárin til að rísa í hrifningu.

Ein bestu tónlistarkaup það sem af er ári.

mánudagur, apríl 23, 2007

pínlegar kóngasleikjur

Það fór hrollur um mig um daginn þegar ég sá krónprinsinn segja frá fæðingu dóttur sinnar fyrir framan stóran skara af blaðmönnum og ljósmyndurum. Honu þótti þetta augljóslega óþægilegt og skammaðist sín fyrir athyglina sem þessir þörfustu þjónar samfélagsins sýndu fæðingunni. Það krepptust tærnar á mér yfir þessari slepju og upphefð á venjulegu mennsku fólki sem eignast börn eins flestir aðrir.

Svo klikktu blöðin út með að helga 15-20 síðum undir fæðinguna. Langar greinar voru skrifaðar um hugsanlegt nafn, hverjir höfðu fæðst sama dag, hvernig yrði að vera litla systir, hvernig yrði fyrir bróðirinn að vera stóri bróðir, og álíka innantóm umfjöllun og spekulasjónir um ekki neitt. Merkilegast er þó að fagfólk úr hinum ýmsu fögum stendur í röðum til að ræða þetta við pressuna, eins og um stóra samfélagslega krössgötu sé að ræða.

Mér hefur alltaf fundist það bera vott um lélega þjóðernisvitund, sjálfsmat og síðast en ekki síst hundslega hlýðni að aðhyllast konungsríkjum. Það er ótrúlegt að þróuðustu samfélög heimsins skuli aðhyllast svona ævagamla stofnun sem ekki snýst um annað en lífstíl og lúxus, borið á baki hryllilegrar og blóði drifinnar sögu.

Niður með konungsdæmin.

Greene gerir hosur sínar grænar

Karlinn hann Charles Greene er ekki af baki dottin með að útvega mér 8 milljónir punda. Hann sendi mér langt bréf um það hvernig við ættum að aðhafast gagnvart bankanum til að ná út þessum miklu fjármunum. Ég á að þykjast vera ættingi hins látna og gera kröfu í reikningana í hans nafni. Þetta er með öllu áhættulaust að hans sögn en verður að fara hljóðlega. Ég á víst að senda honum vegabréfið mitt og aðrar upplýsingar. - fyrir 8 mio. pund getur hann líka fengið sundskírteinið mitt ef því er að skipta.

Kannski að ég biðji um það sama, sjáum hvað setur.!

sunnudagur, apríl 15, 2007

sól og hiti, Óliver á hlaupum og ein æskuminning.!

Í dag líkt og síðustu daga hefur veðrið verið með eindæmum gott. Hitinn hefur slagað upp í 25 stig, himininn heiður og blár og blíður andvarinn bært nýútsprungnum laufblöðum trjánna. Danir sem elska sumarið meira en nokkurt annað, umbreytast úr fölu og kappklæddu vetrarhyski í kosmópólitískt, léttklædd happycrowd með roða í kinnum.

Eftir körfuboltaleikinn hjá Karen Emblu á hinni stríðshrjáðu Norðurbrú röltum við fjölskyldan öll niður í miðbæ. Við slentruðum aðeins um og ákváðum að kaupa og skyndibitamnat og koma okkur fyrir í Kongens Have og leyfa krökkunum að tæta á grasvíðáttunum sem þar eru. Og við vorum víst ekki þau einu sem voru í þeim hugleiðingum. Í garðinum sátu trendís og minna trendís í hundraða eða þúsundatali líkt og keisaramörgæsirnar á suðurskautslandinu og kastaði frisbíum, sparkaði um með sandsekkjum, drakk hvítvín, las bækur, át samlokur, spilaði betanque og síðast en ekki síst bara var á staðnum með sitt lúkk.

Við komum okkur fyrir við stórt kirsuberjatré í fullum blóma og lögðum undir okkur síðasta lausa bletinn, snæddum ítalska böku og drukkum djús með.

Óliver fékk stórkostlegt víðáttubrjálæði og ætti um grundir og haga á leifturhraða. Hann hljóp bara í eina átt, í burtu! -og án þess að líta við. Flagsandi og gyllta faxið hvarf hvað eftir annað innan um trén og mannfjöldann og ég fann hvernig magasárið byrjaði að kræla á sér á hröðum eltingarleiknum. Kappin leit aldrei um öxl, heldur einsetti sér að hrella allar þær dúfur og smádýr sem urðu á vegi hans og að koma sér sem lengst í burtu. Hann hrasaði, meiddi sig, missti öll sín prik og spítur en ekkert virtist stöðva hann. Eitt auganblik leit hann þó við, en sá mig ekki og hélt samt áfram. Ég náði kappanum þegar hann var að fara útúr garðinum, og þá varð hann nokkuð smeykur og setti á sig smá skeifu, það var eins og hann vissi að hann var einn og týndur. En virtist þó borubrattur, með prik í öllum vösum og sár á olnbogunum.

Hann hefur þetta víst úr föðurættini. Ég var víst bundinn við snúrustaurinn á sama aldri þegar ég bjó á grundunum í víkinni, var víst alltaf æðandi um allt. Foreldrarnir mínir voru víst smeykir um að ég dytti ofan í eina loðnuþrónna í síldarverksmiðjunni, en við bjuggum víst ekki nema um 5 metra frá þeim. Ég man alltaf eftir hvað bærinn handan árinnar heillaði, ég slapp einhvern tíman úr prísundinni og komst alla leið út að skíli. Ég hafði aldrei séð aðra eins dýrð, hvítt sjúkraskílið var umlukið dýrðlegum ljóma þar sem ég stóð við pósthúsið eða EG. Ein af mínum allra fyrstu æskuminningum.

Charles Greene býður mér 30% af 25 miljónum punda

Ég fékk fyrir nokkrum dögum sent bréf á mailið mitt frá manni sem kallar sig Charles Greene. Hann segist í bréfinu vera einhversskonar fulltrúi (Senior Audit Oficer) hjá bresku bankasamstæðunni National Westminster bank. Karlinn hann Charles segist vera í smá vandræðum með 25 milljón pund sem hann býður mér nærri þriðjung af, gegn minniháttar greiða. Peningarnir eru sjóðir manns sem lenti í flugslysi ásamt allri fjölskyldu sinni fyrir tæpum átta árum og verða eign breska ríkisins ef enginn gerir kröfu til þeirra innan átta ára. Já, þetta eru mikil vandræði hjá karlgreyinu, og að sjálfsögðu ekkert annað gera en að senda úrræðagóðum íslensku námsmanni beiðni um aðstoð.

Ég ætla að senda mr. Greene bréf til baka og sjá hvert þetta leiðir.

föstudagur, apríl 13, 2007

fyrstu flutningskassarnir

Þá eru fyrstu flutningskassarnir komnir í hús. Þetta eru nokkur tímamót, þótt þau hafi gengið hljóðlega fyrir sig með næstum hversdagslegum blæ. Með kaupunum á þessum kössum markast upphafið að endalokum 6 ára dvalar okkar hér í kaupmannahöfn. Ætlunin er að reyna selja íbúðina í sumar og vera flutt heim fyrir haustið, áður en skólarnir byrja. Það er umfangsmikið verkefni og ærið að flytja allt hafurtaskið yfir hafið, að ekki sé talað um að pakka öllu niður og koma fyrir í gám. Íbúðina þarf líka að snurfusa og ýmislegt að lagfæra áður en hún verður sett á sölu og falsett fyrir hæstbjóðenda. Reyndar er fasteignamarkaðurinn í smá lægð í augnablikinnu og ekki séð fyrir um endanlega verðsetningu og hagnað af sölunni.

Í dag birtust fréttir í Börsen að fólk væri farið að bjóða hinn ýmsa varning í kaupbæti til að lokka til sín kaupendur og það er aldrei að vita að maður verði að fara þá leið. Það er þó ekki þannig að ekki sé hægt að losna við eignirnar, heldur er verðsetningin há og menn tregir til lækkunar og þá eru önnur meðul notuð eins og áðurnefnd gylliboð.

En við erum samt í óða önn að skanna hverfi höfuðborgarsvæðisins í leit að heppilegu húsnæði til næstu ára og það er ýmislegt í sigtinu. Hugmyndin er svo að athuga með möguleika á að byggja eftir svona 1-2 ár, ef það verður einhver glóra lóðarverðinu.

Það verður þó með nokkrum trega sem ég kveð þessa gömlu herraþjóð og lendur þeirra. Hér er gott að vera og að mörgu leyti manneskjuvænt samfélag þar sem frítími og samvera er í öndvegi. Það er vonandi að maður flytji eitthvað af þeirri stemningu með sér.!

Á réttri leið

Fyrir rúmum mánuði byrjuðum við hjónin í líkamsrækt, svona rétt til að tjúna blöndunginn og hrista af sér slenið. Það var ekki að spyrja að undir-rituðum, keppnisskapið leyndist eins og eldfjall undir þykkum skrápnum og braust út við fyrstu skref á hlaupabrettinu.

Þó skrefin hafi verið þung, og gamli íþróttagallinn þröngur gafst maður ekki upp. Nú hef ég sett markið hátt og kílóin rasla af, eru þau orðin 7 talsins sem lent hafa sem saltur sviti í klæðum.


Nú er róðratímabilið að hefjast hér í Danmörku og ekki seinna að vænna en að koma sér í horf fyrir tímabilið ætli maður sér að vera með. Ég hef verið duglegur í róðrarvélunum síðustu 6 vikurnar og bætt mig um 20 sek. á 2000 metrunum í hvert skipti sem ég tek tímann. Í gær réri ég svo 2000 mtr. á 07:22:8 mín, sem er bara ansi góður tími. 07:13:5 hefði nægt í 3. sætið á DM í fyrra í flokki 30 - 39 ára. En stefnan er sett á að komast undir 7 mín fyrir 1. maí.


Einhversstaðar á vegg í gömlum æfingarsal stendur "pain is only temporary, pride is forever"

Af börnunum

Veikindin sem herja á heimilisfólkið gera það ekki endasleppt. Í gær tókum við eftir nokkrum dílum sem Óliver var komin með á bakið og brjóstið. Dílunum tók að fjölga hratt og urðu stærri, jú kappin er komin með hlaupabóluna. En hann er ferskur og hress, brosir jafn breitt og áður, eilítið lystarlaus en annars bara góður. Þessari törn fer vonandi að ljúka, vorið hefur gert innreið sína og um að gera að "da familí" verði klár til útivistar hið fyrsta.

Á sunnudaginn á Karen Embla að spila körfuboltaleik uppi á Nörrebro. Daman er að taka miklum framförum og er farin að hitta á körfuna lengst utan af velli, svo er hún komin með nokkkur góð trikk sem hún hefur æft upp sjálf hérna úti í garði. Hún segist sjálf stefna að því að spila í Íslenska landsliðinu og verða heimsmeistari. Um að gera setja markið hátt.!

Fyrsta tönnin


Litla daman hún Ísabel Ósk er komin með fyrstu tönnina. Það var að sjálfsögðu skýring á öllum kláðanum í gómnum og slefið. Nú fer að koma mynd á brosið.
En annars er daman óðum að jafna sig eftir hlaupabóluna og hlakkar til að komast út í sólina.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Vandræði með I-tunes.

Ég sótti I tunes forritið af netinu um daginn, fullur væntingar um að loksins geta notið allrar tónlistarinnar í tölvunni með betra móti. Ég hef komið mér upp dágóðu safni af tónlist, bæði tónlist sótt af netinu og af diskum úr hillunni. Ég hafði komið þessu fyrir í snilldarfyrirkomulagi í windows möppukerfinu, eitthvað sem útheimti töluverða vinnu og ég var stoltur af. En eftir að ég hlóð þessu inn á I tunes og gerði hann að standard spilara, þá riðlaðist þetta allt. Forritið fór inn í möppustrúkturinn og gjörbreytti fyrirkomulaginu, fjölgaði möppunum ú 300 í 710 og breytti nöfnum á öllu klabbinu og svona lagað er ekki gott fyrir svona þverhaus eins og mig.

Það er skemmst frá því að segja að ég varð frekar súr, langaði helst að kveikja í tölvuhræinu. En tónlistin er þarna enn og það er fyrir öllu. En nú verð ég að undirleggja mig möguleikum forritsins, sem eru ekki ýkja margir í ókeypis útgáfunni og sætta mig við það. Og þessi vegferð okkar tveggja byrjar ekki par vel, hatursamband af minni hálfu.

Ég kalla eftir betri spilara...! ...hann má ekki kosta.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Þegar botninum er náð

Sunnudagurinn leið með sínu sniði eins og á flestum íslenskum heimilum á páskadag. Við fengum send páskaegg frá tengdarforeldrunum í funafoldinni og var þeim komið haganlega fyrir á sínum felustöðum snemma þennan morgun. Eftir góða súkkulaðiveislu féll ró yfir mannskapinn, en heimilisfaðirinn fékk holskeflu af samviksubiti yfir sig og dreif sig í ræktina. Ég get þó ekki mælt með því við nokkurn mann, það fer ekki vel saman að hlaupa 5 km á hlaupabretti með garnirnar fullar af súkkulaði sem óðast vill út, í hvaða formi sem er.

Ég hafði þetta af og komst meira að segja í róðrarvélarnar og setti nýtt persónulegt met í 3 x 2000 mtr.

Seinna um daginn tók ég til við botninn á egginu sem að venju er það síðasta sem maður étur. Þessir botnar eru ekki orðnir að neinu. Ég man í æsku þegar botninn á þessum eggjum var hálfönnur tomma á þykkt og súkkulaðið svo massívt að erfitt var að í tönn að festa. Þá átti maður eggið langt fram eftir vikunni í ísskápnum og dró þannig páskahátíðina á eftir sér fram undir helgina. En nú vigta þeir nói og síríus allt gúmmulaðið gaumgæfilega ofan í forminn og pakka innvolsinu inn í plast. Meira segja er búið að nútímavæða málshættina, horfnir eru "allt er hey í harðindum" og "fjarlægðin gerir fjöllin blá" og inn eru komnir málshættir sem eiga að vera svona fortune cookie spádómsbull. Hvar enda þessi ósköp.?

laugardagur, apríl 07, 2007

Þemavika

Um það leyti þegar veikindin helltust yfir okkur fjölskylduna voru þemadagar í skólanum hennar Karen. Í eina viku voru krakkarnir látnir vinna eins og gjaldgengir samfélagsþegnar í ákveðnum störfum innan skólans. Starfið þurfti að sækja um og börnin þurftu að fara í viðtal við vinnuveitandann, sem í flestum tilvikum voru kennararnir. Krakkarnir fengu svo greidd laun fyrir framlag sitt og urðu að mæta á réttum tíma til vinnu ella vera hýrudreginn.


Karen tók þetta allt mjög alvarlega eins og henni er einni lagið. Hún heimtaði að fá að fara á fætur klukkan 06:00, fara í sturtu og gera sig klára. Skvísan fékk starf á kaffihúsi skólans og var alla vikuna að baka og gera klárt fyrir lokadaginn sem var á laugardeginum. Þann dag var öllum foreldrum og ættingjum boðið á einn allsherjar markað.



Fjölskyldan mætti öll á svæðið í blíðskaparveðri og naut dagsins. Á markaðnum var allt milli himins og jarðar á boðstólnum, vörur sem nemendurnir höfðu búið til.

Óliver var að jafna í góðum gír eins og ávallt í fjölmenni og fann sér ýmsar glæfrakúnstir sér til dundurs og foreldrum til ama.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Landafræðikennslan

Á minni brösóttu göngu í gegnum skólaskylduna þá þótti mér alltaf gaman að landafræði og öðrum líkum fögum þar sem maður lagði á minnið allrahanda staðreyndir. Þetta voru oftast örnefni, fjöldi manna og dýra, staðarhættir, og hæð og lengd náttúrufyrirbrigða. Landafræði Íslands kunni ég uppá "10", gat talið upp alla stærri firði og víkur strandlengjunnar utanbókar í réttri röð, og ekki vafðist heldur fyrir manni árnar, fossarnir og fjöllinn.

En samt sem áður stóð ég á gati fyrr í kvöld þegar ég las fréttina um slasaða vélsleðamanninn sem slasaðist við Stokköldu. Blaðamaður moggans gat sér réttilega um að ekki mundu allir kannast við Stokköldu og nefndi þess vegna að það væri gegnd Rauðkoll, til að hjálpa lesendum við að staðsetja atburðina. En hvorugar upplýsingar færðu mig feti nær því að átta mig á hvar slysið varð.

Ég er þó nokkuð viss um að þetta sé á hálendinu, en ég er einn af þeim sem ekki hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ætt þar um grundir. Ég gerði þó eina tilfinningaþrungna tilraun við að komast í landmannalaugar á agnarsmáum pegout í tilhugalífinu með konunni, hér um árið. Við komumst lengra en flestir trúðu, þó ekki alla leið, en það kom ekki að sök því sumarnóttin var ægifögur þar sem við áðum við drullugan snjóskafl og gengum á fjöll.

Það var örugglega ekki við Rauðkollótta Skottu.

Á réttum kili

Loksins er útlit fyrir að heilsa fjölskyldumeðlimana sé að komast á réttan kjöl. Þetta hefur verið nokkuð strembið og við ekki getað verið mikið úti fyrir eða sinnt hinum ýmsu skildverkum. Veðrið heur verið með eindæmum gott og við höfum að mestu leyti notið þess með að góna út um gluggann.

En nú erum við hjónin komin í ræktina aftur, krakkarnir hættir með hóstaköstin og hlaupabólan að hjaðna. Sem sagt allt á réttri leið.

mánudagur, mars 26, 2007

Veikindi að hrjá heimilisfólkið

Það er ekki hátt risið á fjölskyldumeðlimunum hér í Lombardigötu 17 2.th þessa dagana. Heil holskefla ýmissa kvilla hefur hér riðið yfir okkur og við varnarlaus með öllu þrátt fyrir skildubundna lýsisinntöku allan veturinn.

Fjölskyldufaðirinn reið á vaðið með kverkaskít, slappleika og margslungna beinverki á föstudaginn. Smitleiðin hefur að öllum líkindum verið símleiðis eftir fjölmörg símtöl við sjúklinginn á Sólbakkanum, hann Hall Kristmundsson.

Litla prinsessan hún Ísabel fékk svo snert af þessari pest sömu pest á laugardaginn. Karen fékk svo einhverja hrikalega magakveisu á sunnudaginn, var síkvartandi en hélt verkina vera afleiðingar eftir körfuboltaleikinn um morguninn. Daman sú arna svaf svo lítið sem ekkert núna aðfaranótt mánudagsins. Óliver hefur líka fengið þennan kverkaskít og hóstar núna í öðru hverju skrefi.

Og svo rúsínan í pylsuendanum, þá fékk Ísabel hlaupabóluna og steyptist út í útbrotum hérna fyrripartinn og með háan hita í kjölfarið.

Þess vegna liggja allir í bælinu þennan daginn, sem annars er fallegasti dagur sem liðið er af ári.

Mamman bar þó fram vöfflur með ís og rjóma til að lina þjáningarnar okkar sjúklingana.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Silfraðir lokkar

Í gær þar sem ég sat stjarfur yfir tölvunni og hamaðist við að teikna gerði heimilsfrúin skelfilega uppgötvun, að henni fannst. Þar sem hún stóð fyrir aftan mig og dáðist að listrænum hæfileikum bóndans varð henni litið ofan í lítið eitt útþynntan hvirfilinn. Með skelfingu kom hún með þessi hræðilegu tíðindi, "Gummi, þú ert orðin gráhærður!"

Jæja þá kom að því.! Ég var nýbúin að eygja þá von að hárlosið væri hætt þegar frúin gerðist boðberi vátíðinda og slengdi þessu framan í mig. Hún heimtaði að á klippa hárin úr til að sýna mér, og eftir sem hún rýndi ofan í sviðnan svörðin sá hún fleiri og fleiri silfraða lokka.

Ekki að ég hræðist það að verða grár í vöngum, það eru margir af mínum félögum sem hafa verið gráir í talsverðan tíma og ekkert verri menn fyrir það. Eitt er þó víst að ég mun ekki reyna að berjast á móti gangi tímans og náttúrunnar í þessu tilviki. En það eru víst til meðul við þessu en flestu sem hrjáir miðaldra karlmenn, ekkert er víst verra en að tapa kynþokkanum og getunni til að nýta sér hann.

Mér finnst alltaf hálfaumkunarvert að sjá fullorðna karlmenn með skol í hárinu, svona eins og Árni Johnsen sem reglulega líkist kastaníubrúnum stóðhesti en þess á milli, gráum og grútugum veiðihundi.

Komi þau semkoma vilja, veri þau sem vera vilja.!

Fiðurfénaðnum gefið

Í gær var veðrið fallegt hér í Kaupmannahöfn, bjartur himinn og svalur vindur. Þetta var hálfgert gluggaveður en ekkert mál að klæða næðingin af sér. Um eftirmiðdaginn röltum við hjónin með þau tvö yngri niður að Kristjaníu og gáfum andfuglunum brauð. Óliver ætlaði hreinlega að hlaupa útí vatnið kallin, svo æstur var hann í að mata þessi garghænsn. Svo til að toppa upplifelsið þá komu nokkrar snátur ríðandi á póníhestum og áðu skamma stund við tjarnarbakkann.

Eftir alla paranojuna í kringum fuglaflensuna sem frúin kom af stað hérna á heimilinu hefur maður verið ein taugahrúga þegar maður nálgast þessi grey. En eftir síðasta vetur þegar heimsendaspárnar gengu fjöllunum hærra og ekkert af því gekk eftir, varð manni lítið eitt rórra í sinni.

Þar sem smitleiðirnar eru helst í gegnum snertingu við saur og endaþarm þessar dýra er manni nokkuð óhætt, í bili að minnsta kosti.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Skellinöðru prófið

Ég vissi ekki að ég hafði á sínum tíma lokið prófi á skellinöðru fyrr en ég rakst á þetta skírteini í skúffunum á dögunum. Ég átti að sjálfsögðu aldrei mótorhjól, en lánaði oft hjólin hjá Ella Kristjáns og Bjarka.

Ég var og hef aldrei verið sá vélagúru sem maður þurfti að vera til að geta átt svoleiðis grip. Ég horfði yfirleitt með lotningu á hina strákana sem með olíusmurðum fingrum rifu hjólin sín í sundur, tjúnuðu, boruðu út og tengdu framhjá og um loftið þutu hugtök eins og stimplar, tímareim, hedd og heddpakning. Fyrir mér var þetta tóm hebreska en nógu karlalegt til að maður þráaðist við.
Ég átti samt snjósleða, (eða ætlaði að kaupa hann) í einn vetur, Kawasaki 440 drifter. Ég ætlaði að kaupa sleðann af Jóa á Hanhóli og var með hann á "kaupleigu" veturinn 1988 -9 að mig minnir, þegar ég var að vinna í bræðslunni. En eftir að ég velti honum á ísnum inni í syðridal þá var gripnum skilað.
Ævintýrin á þessum vetvangi urðu ekki stór.!

Líka minn líkami

á að verða stæltur og glæstur, ef úr öllum plönum rætist.

Ég vaknaði við slæman draum fyrir stuttu er ég var með yngstu dóttur minni hjá lækninum og eins og gengur og gerist þá þurfti að vigta krílið. Læknirinn bað mig um að stíga á vigtina svo hægt væri að núllstilla hana og taka svo stelpuna í fangið. Ég þráaðist við, ég vissi að niðurstaðan yrði óþægileg þ.e.a.s. fyrir mig. Ég hef ekki vigtað mig síðan um eða eftir jól og síðan þá sporðrennt meiri mat og óhollari en manni í minni stöðu er hollt að gera.


Í fyrsta skipti á mínum tæpum 34 árum rauf ég hinn skelfilega 100 kílóa múr. Ég hef hingað til með áræðni heimskautafarans náð að halda mér undir þessu 3ja stafa skrímsli, en nú svaf ég á verðinum.

Brjóstvöðvarnir sem áður voru eins þrýstnir eins og nýbökuð hamborgarabrauð líkjast nú deigklessum sem hafa lekið undir handarkrikann, maginn framstæður og lætur baráttulaust undan þyngdaraflinu. Naflinn er orðin aflagaður með óljósa geometríu og það er líka tákn um óþægilegan vöxt líkamans þegar maður týnir heilu sokkunum þar inni og er tímunum saman tilfinningalaus í fótunum eftir þröngan buxnastrenginn.

Það var þess vegna fyrsta verk mitt eftir áðurnefnda heimsókn til læknisins að tryggja mér kort í líkamsræktinni og að sverja mig við Atkinsons mataræðið. Einhverntímann var ég ekki nema 77 kíló, minnir að það hafi verið þegar ég var 17 - 18 ára og æfði sund með ÍA. Síðan hef ég ekkert stækkað, nema til hliðar og niður.

Samkvæmt einhverjum fitustuðli á ég við offituvandamál að stríða, örugglega lotugræðgi nema að átlotan er samfelld í mínu tilviki.

Nú skal sverft til stáls og sjálfsaginn endurheimtur, stefnan er sett á 88 kíló fyrir sumarið.

sunnudagur, mars 18, 2007

Kaffi og beigla með

Hér í morgunsárið gæddum við okkur öll á nýbökuðum beiglum og kjarnmiklu brauði frá henni Karen Emblu. Daman naut að sjálfsögðu fulltyngis okkar eldri en útkoman sem var prýðileg verður að skrifast á dömuna.

Óliver finnst ekki dónalegt að fá svona nýbakað yfir sunnudagsteiknimyndinni eins og sjá má.


Á eftir verður svo farið að sulla úti í rigningunni.

Lítil blaðran.

Það var sagt frá því á mbl.is að einhver strákpúki sem var ferðalangur í rútu yfir hellisheiðina hafi gert sér lítið fyrir og migið á gólfið í rútunni. Það er tvennt í þessu finnst mér, í fyrsta lagi er rútubílstjórinn alger þverhaus eins og rútubílstjórum er einum lagið (ef frá eru taldir geiri keila og gummi hafsi) og annað er að það er óskiljanlegt að ekki séu salerni í þessum faratækjum. Þar sem þeim er ætlað að keyra milli kaupstaða. Það myndi nægja að hafa einhverja aðstöðu fyrir gjörning af 1. gráðu.

En annars er ekki mikið partý yfir blöðru piltsins, kannski verið búin að belgja sig út af gosdrykkjum og nammi. Ég þekki einn góðan pilt að vestan sem aldrei gat skitið annars staðar en heima hjá sér. Og þá skipti engu þótt um vikulangt ferðalag með sundfélaginu var að ræða, það kallar maður sjálfsaga.!

Ég kæmist persónulega ekki í gegnum daginn ef ekki nyti við þeirrar helgu stundar þegar nr. 1 og 2 sameinast í fallegri simfoníu í snjóhvítri porselínhvelfingunni og lestur fríblaðsins getur hafist. Ég kemst aldrei nær almættinu en einmitt þá.

föstudagur, mars 16, 2007

Góð bók

Í gærkvöldi lauk ég við að lesa alveg magnaða sögu um hrakfarir á norðurheimskautinu. Bókin heitir Ísherran, hin afdrifaríka sjóferð Karluks. Mér hefur ekki orðið mikið ágegngt með verkefni vikunnar eftir að ég hóf lestur þessa 430 blaðsíðna verks á mánudagskvöldið. Þetta er saga um hrikalega lífsbaráttu áhafnarinnar á Karluk, þar sem þeir voru fastir í ísnum norður af Alaska í 7 mánuði veturinn 1913 - 1914. Þeir komust við illan leik yfir ísinn til Wrangel eyju sem er einhver afskekktasta eyland í veröldinni og þar eyddu þeir 6 mánuðum í kulda og vosbúð í hrikalegri baráttu fyrir lífi sínu.


Þessi frásögn inniheldur líka beitta ádeilu á leiðangurstjórann Vilhjálm Stefánsson, sem lét sig hverfa frá borði stuttu eftir að skipið festist og hélt áfram að sínu markmiði og skeitti að virðist engum um afdrif áhafnarinnar.



Bókin er meistaralega skrifuð af Jennifer Niven og íslensk þýðing Rúnars Vignissonar er virkilega góð.


Mæli með þessari lesningu.!

þriðjudagur, mars 13, 2007

lim-lestar í Noregi.

Þessi frétt birtist áðan á fréttavefnum BT. Mér fannst tilvalið að deila henni með þeim sem eiga leið hér um. En fréttin segir frá nokkuð vafasömu hátterni norskra ungmenna á lestarteinum landsins. Bt endar umfjöllunina á að hugtakið "koma á réttum tíma" fái nokkuð viðeigandi þýðingu í þessu samhengi.

Þeir eru orðnir of graðir þessri norsarar, örugglega lent í innrækt eftir að rjómi þjóðarinnar flúði á 9. öld.

Meira um lystisemdir holdsins: á mbl. vefnum segir frá bandarískum ungling sem á von á 6 börnum með sex konum og þykir þetta með eindæmum fréttnæmt. Í minni sveit reyndu menn að þaga yfir svona löguðu, og þótti svona heldur ekki sérlega fréttnæmt.

Mér hefði þótt meiri frétt ef hann hefði átt von á sex börnum með sjö konum, eins einhver komst að orði er fjölskylduhögum eins frænda míns var líst.