sunnudagur, september 03, 2006

Vikan sem leið

Vikan sem leið var að mestu hefðbundin, nema hvað skólinn var settur á föstudagsmorguninn og róðraræfing númer tvö á fimmtudeginum útheimti enn fleiri blöðrur í lófa.

Karen er að sjálfsögðu byrjuð aftur í körfunni og nú er æft tvisvar í viku, annarsvegar á þriðjudögum klukkan 16:30 - 18:00 og á fimmtudögum kl. 15:30 - 17:00. Við feðginin hjólum á þessar æfingar sem tekur um 20 mínútur og er daman þá orðin nokkuð heit og klár fyrir hasarinn. Óliver fær oft að koma með og förum við feðgarnir þá á einhvern leikvöll á meðan æfingunni stendur. Nú fara að byrja leikir um helgar og þá er bara að duga eða drepast.

Litla daman dafnar sem aldrei fyrr og er alltaf jafn róleg þessi elska. Mamman reynir að hvíla sig og safna kröftum eins og kostur er. Þó að litla daman sé róleg og hvers manns hugljúfi þá er það fullt starf að sinna kröfum hennar um mat, þrif og athygli.

Óliver er farin að venjast henni og finnst hún bara vera svolítið fydin þegar hún geiplar sig og gefur frá sér einhver hljóð. Kappin fór svo í klippingu á föstudaginn og voru hinir síðu ljósu lokkar klipptir í stutta drengjalega klippingu. Hann breittist töluvert við þetta strákurinn og er ég bara á því að þetta fari honum betur. Hann er alltaf sami grallarinn pilturinn og ein klipping breytir engu til eða frá.

Nú þegar flestar mínar ferðir eru farnar á nýja hjólhestinum ákvað ég að standsetja hjól frúarinnar. Ég réðst í það verkefni í gær og mun reyna að klára það á komandi dögum. Þegar verkefninu er lokið þá verður gripurinn hinn glæsilegasti og frúin þess vegna fær um að hjóla til sinna erinda.

Nú er sjálfur heimilisföðurinn svo byrjaður á Atkins fæðinu svokallaða, þar sem neytt er kolvetnislauss fæðis. Að sjálfsögðu er nokkur fyrirhöfn fyrir þessu, en árangurinn lætur ekki á sér standa, kílóin rasla af. Ég borða mikið kjöt, osta, egg, fisk, grænt grænmeti, tómata og af þessu verður maðu óhemju þyrstur og mettur. Ég veit að þetta er ekki hollasta fæði sem til er og er þess vegna ekki ráðlagt að vera lengi á þessu mataræði. Ég prufaði þetta fyrir rúmu ári og missti þá ófá kílóin á nokkrum mánuðum. Nú þegar róðrastemningin er á fullu hjá manni og maður er farin að hreyfa sig verður maður að fara koma sér í gott form sem fyrst.

Kallin hann pabbi útskrifaðsit frá Háskólanum í hjaltadal á dögunum með glæsibrag. Hann er búin að vera vinna sem safnvörður í Ósvör síðastliðið sumar við mikin og góðan orðstýr. Það birtust myndir af honum á www.bolungarvik.is á dögunum og þar má sjá hversu glæsilegur karlinn er í múnderingu sjómanna fyrri alda.

Mamma er sjálf tekin við starfi bókasafnsvarðar hjá menntaskólanum á ísafirði og er búin að vera á námskeiðum í Reykjavík undanfarið. Það er aldeilis hlutir að gerast hjá gamla settinu og ekki laust við að maður sé að rifna úr monti. Það er skrítið að vera horfa á fylgjast með þróun og framvindu mála foreldrum sínum jafnt og sínum eigin börnum. En veröldin hlýtir ekki alltaf einhverjum fyrirframgefnum lögmálum og um að gera að grípa þau tækifæri sem gefast. Dagarnir eru hvorki lengri eða styttri en þeir voru áður fyrr og ekkert annað að njóta allra þeirra sem maður fær í þessari jarðvist.

En nú blása haustvindarnir hér í hinni flötu Danmörku og vætutíðin er að sjatna, nú er sunnudagsmorgun og við feðgarnir á leiðinni í hinn fasta hjólreiðartúr og Karen að fara leika úti í garði.

Kærar kveðjur