miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Eiki Rokkar

Djöfull líst mér vel á evróvisjón-lagið hans Eika, ég les úr lófa þínum. Eftir því sem heyri lagið oftar þá fæ ég það meir og meir inn undir húðina. Ég held bara að þetta lag eigi góða möguleika á toppárangri. Kröftugt og dramatíkst lag með mjög grípandi viðlagi, röddin hans Eika nýtur sín einstaklega vel.

Er ekki frá því að það ætti bara að syngja lagið á íslensku í lokakeppninni, það passar svo svaða vel.

Nú er bara og bíða að sjá hvort ekki aðrir evrópubúar séu sama sinnis. Þetta er ekta júrólag og kannski verður evróvisjón í Egilshöll vorið 2008, sama ár og við verðum ÓL meistarar í handbolta.

Kosningavor og kvenfrelsi

Það mun vora vel í íslenskum stjórnmálum fái langnesingurinn Steingrímur Joð einhverju um það ráðið. Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðunni upp á síðkastið og ég held svei mér þá að tími hans sé kominn, gamla blaktröllið meiki það loks. St. joð er án efa einhver mesti stjórnmála- og ræðumaður íslands síðustu 3 áratugina ef frá er talið kannski Jón frænda Baldvin. Hann breytti rétt þegar hann ákvað að ganga ekki til fylgis við samfylkinguna og halda áfram að berjast fyrir betra samélagi á forsendum félagshyggju og mannúðar, trúr sinni sannfæringu.

En hann virðist þó ætla að falla í þá gryfju að setja "kvenfrelsi" efst á stefnuskránna hjá sér, fékk öruggleg 5 % út á það. Ég er ekki sammála þessu tali um kvenfrelsi, kynfrelsi og annaðslíkt. VG ættu að hlusta betur á Katrínu Jakobsdóttur og leggja þungan á að efla stéttabaráttu og fá þannig fram hið raunverulega réttlæti og jafnrétti. Ég get ekki séð að þessi barátta nokkura kerlinga i spakmannsspjörum og með risa-eyrnalokka komi nokkru til skila fyrir fiskverkakonurnar í landinu eða skúringakerlingar. Þessi jafnréttisbarátta eða kvenfrelsi er einungis ætlað að koma konum fyrir í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum. Það er allavegana sá mælikvarði sem hinn dulbúni kvennalisti Samfylkingin notar til að hreykja sér af sínum árangri og markmiðum. Það er að sjálfsögðu gott og vel að þessi hlutur skuli leiðréttur að einhverju leyti, en ég minni á það að það eru einmitt þessar stöður sem gera mestar kröfur til eiginleika persónunnar en ekki til kynfæranna. Þess vegna er þessari baráttu beint á kolrangan vígvöll. Nær væri að nota kraftana til að rétta hag fólksins sem minnst ber úr bítum í öllu brjálæðinu á klakanum. Það gæti tilaðmunda gerst með að stórefla stéttarbaráttu og koma í veg fyrir arðrán.
Einhvern tíma sagði vís kona: "Það fer allt í bál og brand ef kerlingarnar fá að ráða of miklu."

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Lítið eitt um pólitík

Ég er alveg gáttaður á málefnafátækt og vandræðagangi Samfylkingarinnar, sem hreinlega hefur verið öskrað framan í umheiminn. Ingibjörg Sólrún er orðin álíka hrífandi leiðtogi og hver önnur úrill kerling, sem ekkert hefur til málanna að leggja en eitthvert nostalgíubull um kvenfrelsi og hungrið í völdin.

Mér hefur það alltaf þótt það undarlegt þegar fólk leggur upp með sömu taktík í politík og íþróttum. Já, þetta eru keimlíkir heimar á yfirborðinu en eðli þeirra eins ólíkt og hægt er. Menn skiptast í lið, og safnast saman við breiðtjöldin með glas í hönd á einhverja missera fresti og fagna hverri talningu úr hverjum dal eins og mörkum íslendinga í handboltalandsleik. En vísir menn hafa reynt að gera lítið úr þessum sigurmómenti og sagt að það sé og verði einungis upphaf og því beri að ganga hægt um gleðinnar dyr.

En samfylkingin hefur núna upp á síðkastið líst því yfir að markmiðið sé sigur, að þeim hungri í sigur. Sigurinn er orðið objektið í þeirra politík, og meðalið sem notað er allskonar er dægurskraut til að halda í fáu hræðurnar eins og kvenfrelsi, náttúruvernd, annað dautt og hitt stolið.

Já það er hart í ári þegar meira að segja oflátungarnir segja skilið við flokkinn og að hressa liðið í hópnum eru Mörður og Jóhanna.

Já, sjálf hefur forysta Samfylkingar fláð sig sjálfa inn að beini og eftir stendur hríslandi beinagrindin sem samanstendur einungis af þrá um völd.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Weekenden

Um hádegið á föstudag fór ég til fundar við vin minn hann Hall hinn mikla Haukdæling. Erindið var að ræða smá bissness og viðra ýmis plön. Dagurinn tók snemma nokkuð aðra stefnu er Sigurður Arnar og vinur hans Ármann mættu einnig á svæðið. Þeir félagar voru nýkomnir úr flugi yir hafið til þess eins að sletta úr klaufunum hér í Köben um helgina. Aðal ástæða komu þeirra var að sjálfsögðu hið árvissa þorrablót íslendingafélagsins, sem haldið var á laugardagskvöldið. Fljótlega eftir að við höfðum sest við borðið týndi Hallur úr fórum sínum koníaksflösku og íslenskan ópal snafs, og þá var ekki atur snúið. Þegar að líða tók á daginn sneri húsbóndinn atur að vínskápnum og tók að bera á borð allskostar veigar sem skolað var niður af bestu lyst. Seinnipartinn var svo sóttur bjórkassi og þegar ekkert nema dreggjaranr voru eftir var farið á kollegibarinn og haldið áfram. Þar vorum við fram á nótt og þegar yfir stóð höfðum við setið að sumbli í um það bil sextán tíma og fyrstu 10 án þess svo mikið að standa upp frá sætunum nema þá kannski til að kreista eitrið úr kóbraslöngunni.

Eins og fjölskyldefeðra er siður þá reis maður úr rekkju eftir rétt rúmlega 2ja tíma svefn og þótt ótrúlega megi virðast var ég eins og nýsleginn túkall. ...svona fyrstu tímana alllavegana, en að sjálfsögðu kárnaði gamanið og ég játaði mig sigraðan og fór aftur í bælið.

Timburmennirnir voru óvenju vægir þetta skiptið ef mið er tekið af hinum annars hefðbundnu andnauð, skjálfta, sjóndepru, uppköstum og hausverk, sem er hversdagskostur hjá mér eftir hvert rennerí.

Frúin skellti sér á þorrablótið með stórum kvennahóp, og ég sat með börnin þrjú heima í kotinu. Það gekk nú ekki alveg þrautalaust, þar sem þau vöktu hvort annað allt kvöldið og ég hvorki með mjólkandi brjóst né móðurslegt umburðalyndi til að standa í svona löguðu. En allt gekk þó upp að lokum og við náðum að sofna í einni hrúgu.

Sunnudagsmorgunin var svo tekinn ókristilega snemma því Karen átti að spila körfubolta klukkan 9:00 og var mæting klukkan 8:00 í íþróttahúsinu. Karen átti enn einn stjörnuleikinn og var allt í öllu í varnarleiknnum hjá stelpunum. Hún átti líka góðan leik í sókninni og skoraði tvö stig. Stelpurnar töpuðu þó 24 - 16, en eins og áður eru þær að keppa við eldri stelpur og því er árangurinn náttúrulega frábær.

Svo leið sunnudagurinn í faðmi fjölskyldunnar, þar sem mamman þurti óvenju mikla hvíld eftir brölt næturinnar.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Bókalestur

Nýverið lauk ég við að lesa bókina um hana Rögnu Aðalsteinsdóttur á Laugarbóli, Ljósið í djúpinu. Bókina fékk ég lánaða um daginn hjá Halli vini mínum og settist strax við lestur. Bókin greinir frá hinni miklu örlagasögu sem þessi kona hefur gengið í gegnum Hún missti tvö af börnum sínum í sitthvoru snjóflóðinu á vestfjörðum og tvö barnabörn í bílslysum. Sem barn missti hún móður sína og tvær systur og um tvítugt deyr faðir hennar. Svona heldur sagan áfram og segir frá þessari erfiðu lífsbaráttu í hinni deyjandi byggð innst í djúpinu. Ragna virðist samt sem áður komast í gegnum þessar ótrúlegu raunir af hörku og dugnaði þó að hún sé við það að bugast við áföllin sem ríða reglulega yfir.

Ég man alltaf eftir að það var mikið talað um þessa konu á heimilinu, pabbi þekkir hana nokkuð vel og Raggi bróðir var um tíma vinnumaður hjá henni sem og svo margir aðrir sem gekk illa að fóta sig í lífinu.

Reynir Traustason kemst nokkuð vel frá þessu verki þó svo að það vanti stundum þunga í textagerðina, sérstaklega þegar greint er frá þeim myrku örlögum er urðu sífellt á vegi Rögnu. Bókin ber þess merki að höfundur er blaðamaður og er oft eins og bókin sé eitt langt viðtal úr tímaritinu Mannlífi. En þar sem örlög Rögnu er það mögnuð kemur það ekki mikið að sök.

Góð bók þarna á ferðinni sem skilur mann hugsi eftir.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Vetur konungur

Vetur konungur hefur heldur betur búið vel um sig hér í Danmörku þessa dagana. Danir sem undirbúa sig ekkert sérstaklega undir svona veður sætta sig sæmilega við það að samgöngur lamast nánast algerlega og eina trygga faratækið sé hinar tvær jafnfljótu stangir. Reiðhjólafólkið með stóra hjartað æðir samt sem áður af stað í hálkunni, en hjálmlaust af sjálfsögðu.

Ökutæki eru yfirhöfuð afskaplega illa búin fyrir svona færð og er bílarnir fastir um allar trissur á jafnsléttunni þar sem ekki er nema 5 cm jafnfallinn snjór. Hér í morgunsárið hjálpaði ég nokkrum nágrönum við að ýta bílum þeirra eftir að hafa fylgt Karen í skólann og verður bara að segjast að danir kunna þetta alls ekki. Tæknin sem þeir nota við að losa sig er bara að gefa í svo hvín í öllu og vona það besta. Ég hrópaði "láta bílinn rugga!", ja, ja jeg prøver! kölluðu ökumennirnir á móti án þess að nokkuð gerðist.

Ég eins og flestallir frónbúar kunna þessa tækni nokkuð vel, það var ekki svo sjaldan að maður var fengin að föstum bíl í sköflunum heima í víkinni. Ég man til dæmis að í fyrsta ökutímanum hjá Gunnari Halls í mars 1990 þá festum við bílinn tvisvar í ófærðinni. Þetta var ísavorið mikla þegar djúpið lokaðist. Já maður man þessi ósköp.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Baugsmálið

Það er kostulegt að lesa fréttalutning af baugsmálinu í fjölmiðlum þessa dagana. Núna opinberast sá tittlingaskítur sem þarna um ræðir og það stefnir í eitthvert stærsta hneyksli í íslenskri réttarfarssögu. Mál sem verður viðfangsefni sagnfræðinga út alla þessa öld og jafnvel lengur.

Eftir því sem þeytivindan snýst hjá ákæruvaldinu og kjarninn skilst frá gumsinu kemur betur og betur í ljós að það er verið að eltast við hluti sem mætti gera út um yfir kafibolla á næstu bensínstöð.

Að íslenska ríkið sé búið að eyða upphæðum sem gætu brauðfætt meðalstórt Afríkuríki í að reyna sakfella menn fyrir að kaupa sér gólfsett og túr í rússibana fyrir fé fyrirtækis sem maður á og stjórnar. Höfuðið er svo rifið skömminni með því að draga fyllerísgreddu Jóns Ásgeirs inn í málið og gera saknæmt.

Það hefur kannski verið sagt áður en sjaldan er góð og sönn vísa of oft kveðin, þetta er helvítis sjálstæðislokkurinn sem þessu veldur sem svo mörgu ;-)

Veður skipast

Ég hafði varla sleppt orðinu í gærkvöldi yfir því hvað væri nú mikil blíða þegar "snjóstormurinn" brast á. En einmuna veðurblíða með vor í lofti heur leikið um okkur hér í Köben undanfarna vikuna. En í gærkvöldi byrjaði að snóa með tilheyrandi kulda og trekki. Þeir kalla þetta snjóstorm danirnir, nokkuð sem maður tengir við ofsaveðrin heima á vestfjörðunum í denn. En eftir næturlanga snjókomu er aðeins farið að grána á gangstéttunum. Ekki að ég sé að gera lítið úr þessu veðri því að kuldinn sem þessu fylgir er nístandi. Heimamenn halda samgöngum gangandi með því að bera óheyrilegt magn af salti á nánast allt yfirborð borgarinnar. Einhversstaðar las ég að þeir notuðu langmest af salti til hálkuvarnar í allri Evrópu, þrátt fyrir að margar náttúruvænni lausnir séu til staðar. Þetta hefur oft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir gróðurinn og ekki síst sementið í gangstéttunum.

En að öðru. Nú er allt fastelavns dæmið yfirstaðið, krakkarnir búnir að belgja sig út af bollum og kreista pening og gotterí úr varnarlausum gamalmennum hverfisins. Óliver Breki náði þeim merka áfanga að verða tunnukóngur á vöggustofunni sinni og kom heim á mánudaginn með forláta kórónu sem hann fékk í verðlaun. Ætli æfingin sem hann fékk daginn áður í afmæli Karenar hafi ekki skipt sköpum.

Ég man vel eftir þessum tímabilum í minni æsku þegar maður fór út að maska. Þá gekk maður í hús að kvöldi bolludags yfirleitt klæddur sem einhver bófi og heimtaði einhver sætindi. þá voru nú ekki þessir verksmiðjuframleiddu búniingar til eða algengir, heldur safnaði maður saman einhverjum lörfum af foreldrum sínum og nuddaði einhverju sóti framan í sig. Ég man líka vel að eitt af þessum þremur kvöldum (mig minnir sprengidags) þá máttu stóru fantarnir hrekkja okkur sem minni voru. Á þessum tíma óttaðist maður ekkert meira heldur en Bogga Antons, Dóra heitinn Sigurlaugar, Þorlaug og Jonna. Fyrir þá hefur þetta eflaust verið skemmtilegasta kvöld ársins, þar sem þeir biðu með frysta snjóbolta á bak við snjóskafl tilbúnir að veita manni góðan marblett á lærið, og allt saman leyfilegt.

Síðast þegar ég maskaði var á menntaskólaárunum á skaganum. Þá fóru ég og Kalli Hallgrímss saman eftir kirkjubrautinni og gengum í nokkrar verslanir og veitingahús og sungum nokkur ættjarðarlög fyrir starsfólkið. Þá vorum við nú ekkert sérstaklega dulbúnir en án efa eðlislega hallærislegir, bæði til fara og í hátterni. Ég man eftir að það var nokkuð vel tekið í framtakið hjá okkur og bárum við til dæmis einn stóran skammt af frönskum úr bítum á veitingastaðnum Barbró.

Ég var að muna eftir því rétt í þessu að það var að sjálfsögðu sprengidagur í gær og ekkert saltkjöt til á heimilinu, hvur fjárinn, þar sofnaði maður á verðinum. Þetta hefur aldrei klikkað hingað til. Nú verður maður að fara á stúfana.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Afmælisveislan

Karen hélt upp á 9 ára afmælið sitt í gær í blíðskaparveðri. Í gær var líka hinn opinberi Fastelavns dagur þar sem krakkar á öllum aldri klæða sig í búninga og lemja köttinn úr tunnunni. Afmælisveislan var þess vegna haldinn í anda dagsins, þar sem gestirnir komu í grímubúningum. Og að sjálsögðu var tunnan á staðnum full af gotteríi.



Stelpurnar voru í miklu stuði og geðu sért margt til gamans. Okkkur foreldrunum finnst þetta nú oft nokkuð stressandi, að hlaupa á eftir liðinu og sætta hinar mörgu hendur. En allt gekk nú vel og skipulagið hélst bara nokkuð vel. Reyndar voru gestirnir ekki nema 7 talsins sem gerði þetta allt viðráðanlegra. Einu sinni buðum við 17 gestum og þá fór allt úr böndunum og við reittum hár okkar heilan sunnudag.


Óliver var líka í feiknastuði í gervi pókemon-hetjunnar Pikatchu. Hann barði tunnuna með miklum tilþrifum og vildi helst ekki hleypa neinum öðrum að. En hann var bara nokkuð sáttur með nammipokann í lokinn. Óliver finnst fátt skemmtilegra en að elta stelpurnar sem koma í heimsókn til Karenar. Hann verður ástfanginn upp fyrir haus og líkar ekkert betra en að vera miðpunktur athygli stelpnanna. Það er einhvert strandamanneðli í honum piltinum.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Fastelavns riddarar

Hér á hinni marflötu Amager er siður að ríða fastelavn, leifar af hinni hollensku arfleið samfélagsins. Skrautlega búnir knapar ríða um göturnar á ekkert síður skrautlegum hestum og þiggja púns og snafsa af ákveðnum aðilum. Viðkomustaðirnir eru iðulega rótgróin fyrirtæki hér í nágreninu eða heimili einhverja leiðandi persónuleika. Lúðrasveitin ekur á undan í hestavagni og á viðkomustöðunum er lagið tekið. Yfirlett eru sungnir dönsk þjóðlög, ættjarðar og drykkjuvísur, að endingu hrópar fánaberinn ferfalt húrra fyrir gestgjafa og fjölskyldu hans

Við Óliver rákumst á hersinguna í gærmorgun er við vorum á leiðinni að sækja morgunbrauðið. Óliver gaulaði "gobbi, gobbi" og rauk í átt til hestana. Hann fékk að sjálsögðu að klappa hestunum og það ískraði í honum þegar þessir tröllvöxnu hestar tóku að narta í úlpuna hans.
Óliver var vel sáttur en þótti erfitt að horfa á eftir þessum nýju vinum sínum, þegar heim var haldið.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Ófrýnilegir fylgdarmenn litla bangsans

Þeir voru heldur óátlitlegir fylgdarmenn litla sæta bangsans sem bönkuðu upp á hjá okkur fyrr í dag. Erindagjörðin var þó ekki hættuleg, einungis farið fram á sætindi eða peninga, helst bæði sögðu þær allar í einu. Fyrst sungu þær þó eitt lag fyrir okkur, og þegar sá söngur er búin er engrar undakomu auðið, góssið skal látið af hendi.

Við höfum ekki vanið okkur á að bjóða svona verum innfyrir þröskuldinn og heldur ekki á hverjum degi sem það stendur til boða. En í þetta sinn vorum við óhrædd því þarna voru Karen og vinkonur hennar, systurnar Nína og Jasmína, á ferðinni. Þær voru að "rasla", ganga í hús og heimta pening og gotterí. Þrátt fyrir að Fastelavn sé ekki fyrr en á sunnudag þá er best að vera sem fyrst á ferðinni segja þær, best að draga trollið þegar torfan er þéttust og algerlega óveitt úr henni, það veit á góða veiði.

Margt er gert til að hafa sem mest upp úr krafsinu, til dæmis hafði ein þeirra sett sokk í baukinn svo ekki heyrðist glingrið í myntinni, þannig áttu hún samúð auðskilna hjá íbúum hverfisins.

Við buðum að sjálfsögðu upp á smá aur og gotterí og héðan fóru þær reifar á vit ævintýrana. Stefnan var tekin á ríka hverfið handan götunnar, nú skildu þeir ríku blæða. En ekki er víst að gjamildin sé mikil allstaðar.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Glókollurinn

Óliver fékk nokkra nýja bíla og bílahús með frá mömmu sinni og pabba í gær. Þó hann eigi yfirdrifið af dóti kallinn þá er takmarkað hvað hann leikur sér með. Honum finnst nú yfirleitt skemmtilegast að sópa öllu út á gólf og hlusta á hið yndislega hljóð sem því fylgir, svo er yfirleitt gamanið búið.

En á vöggustofunni hefur hann tekið algeru ástóstri við litlu bílana og bílahúsin. Þar dundar hann sér tímunum saman við þá iðju að keyra bílunum upp og niður brautirnar.


Ég og mamma hans ákváðum að það væri komin tími til þess að við fengjum að njóta þess hér heima að hann sitji og dundi sér og ekki síst hann sjálfur. Svo dótið var aldeilis kærkomið.

Ölæði

Það hefur runnið ölæði á danskinn. Þó ekki þannig að menn gangi umgöturnar með steytta hnefa og gólandi, heldur er æðið af öðrum og siðmenntaðari toga. Hinu ölþyrstu danir hafa snúið baki við fjöldaframleyddum Tuborg og Carslberg og láta sinn velstand í ljós með að kaupa bjóra sem bragð er af. Ég hefi kannski eingan velstand til að láta í ljós en hef hoppað með á ölduna samt sem áður. Ég geri það kannski vegna þess að það er sjaldan sem maður fær sér bjór og þá er skemmtilegra að bjórinn veitir manni dýpri upplifun en bara hlandspreng.

Þau eru kölluð micro bryggeri. Lítil brugghús þar sem handverk bruggarans er í aðalhlutverki og bjórinn yfirleitt ramleiddur eftir gamalli aðferð og í litlu magni. Fyrirbærið er orðið svo vinsælt að stóru fyrirtækin hafa stofnað sín eigin micro bryggeri um allar trissur og láta líta út fyrir að framleiðsaln fari fram í einhverjum bakgarði undir handleðislu gamals bruggmeistara og allt bruggað á eikartunnur. En hvað um það. Svo er algert hit að vera með bjórkynningar á mannamótum, þetta kostar sama og ekkert hérna þetta helv.!

Í gær keyptum við okkur nýjar tegundir frá brugghúsinu Jacobsen, (sem er stofnandi Carlsberg). Við keptum einn dökkan ale, einn hveitibjör og gamlan danskann. Og það verður að segjast að bjórinn var alveg prýðilegur, mátulega mikið bragð af honum.

Bjórinn sem var keyptur:

Bramley Wit: Hveiti bjóri, var bestur, ljós, mjög ferskur og með gott ávaxtarkennt eftirbragð.

Brown Ale: Mjög dökkur, með þykkum malt keim. Ekki fyrir dömur.!

Camomille Dubbel: Svolítið ramur og þungur í sér en prýðilegur í munni.

Bjórinn hefur fengið góðar viðtökur hér og þrátt fyrir að risinn Carlsberg standi á bak við framleiðsluna er honum vel tekið. Við getum vel mælt með þessari framleiðslu og er ekki að efa að ÁTVR taki við að selja afurðina fyrir svona vikulaun pólverja flaskann.!

Skál.


miðvikudagur, febrúar 14, 2007

og nafnið er...

...Nei, við ætlum ekki að uppljóstra það strax.

Það eru nokkrir aðilar í fjölskyldum okkar sem eru fljótir til og fluggáfaðir og á mettíma farnir að koma með allslags uppástungur. Ég efa heldur ekki að frænkurnar í firðinum leysi þrautina eða móðursystirin, ef ekki af hugviti þá af hinni margrómuðu færeysku þrjósku.!

En við viljum biðja þá sem leysa þrautina að halda því fyrir sig í smá tíma og allavega ekki pósta lausnina í "comments".

Ef þið finnið aðerðina við að leysa dulmálið þá blasir nafnið við. Höfundurinn að Da Vinci lyklinum hefur gert grein fyrir þessu dulmáli bæði í bókinni og annars staðar og er því um að gera að leggjast í smá rannsóknarvinnu.

Þið getið skrifað okkur póst á arngrimsson@hotmail.com ef þið hafið spurningar.

Litla daman komin með nafn.

Loksins hefur litla daman fengið nafn. Fæðingin á nafninu hefur tekið á ekkert síður en hin raunverulega fæðing. Það var eitt nafn sem við vorum sammála um að yrði fyrra nafn hennar nánast sama dag og hún kom í heiminn. Nafnið var eitthvað lýsandi fyrir hana og við vorum og erum sannfærð um að hún beri það vel um ævina. Seinna nafnið kom svo nú á dögunum og skiluðum við pappírunum í dag til kirkjunnar.

Það var nú ekki svo að við vorum að stressa okkur mikið á þessu, nema kannski helst síðustu vikuna.

Við ætlum ekki að opinbera nafnið alveg strax en komum þó með litla getraun og sá sem getur leyst hana kemst að leyndardómnum.

Getraunin er í anda Da Vinci lykilsins og þeir sem hafa lesið bókina og kynnt sér aðeins þær stafaþrautir sem þar eru kynntar ættu að geta leyst þrautina.

En þrautin er þannig að eftirfarandi stafaruna inniheldur alla stafi nafnsins hennar, en þeim þarf bara að raða rétt upp. Það þarf að beita ákveðinni aðferð við að leysa þrautina, en hver er hún.?

ÍL#UÓS#GNTAÓUDTBSÐSIEKMDR

PS. táknið # er fyrir bil á milli nafna en skal í lausninni vera ígildi bókstafs.

Góðar stundir.

Fulli ökumaðurinn í Kastljósinu

Tærnar mínar krepptust af óþægindum þegar ég horfði á Kastljósið í gærkvöldi. Það að fá til sín unglingspilt til að drekka sig ölavaðan og reynja sig í bílhermi, strax eftir að hafa rætt um Breiðavíkurmálið var stílbrot af óvenjulegu tagi. Kannski eins og að blanda saman heitu tei og appelsínudjús, blanda sem dæmd er til að bragðast illa. Þáttur eins og Kastljós er dægurmálaþáttur sem hefur yfirleitt verið með góð efnistök og umjöllun. En það er eins og Kastljósið sé eini þátturinn á RÚV sem getur rýmt umfjöllun um efni sem ekki á heima í spaugstofunni eða kvöldfréttum. Slæm þróun finnst mér, sem kristallast líka í þessu tilraunakjaftæði sem á heima í barnatímum á sunnudagsmorgnum, hefði verið góður þáttur fyrir Gústaf allstaðar.

Það var vandræðalegt fyrir alla viðstadda að horfa á piltinn, ölvaðan sem byrjaði að þvæla ensku og óskiljanlegt slangur og láta hann svo reyna ökuherminn. Mér fannst þetta jaðra við misnotkun á trausti viðkomandi að hafa hann að fífli fyrir framan alþjóð. Svo var höfuðið slegið af skömminni með taka við hann viðtal með fulltrúa Sjóvá þar sem hann svipti sig endanlega allri uppreisn. Ég kreppti tærnar og klæjaði í skinnið yfir þessu og það er langt síðan mér hefur virkilega langað til að slökkva á einhverju sem ég sit og horfi á en þarna gerðist það. ...jú reyndar slökkti ég á myndinni Acopalypto eftir Mel Gibson um daginn þegar hún var tæplega hálfnuð, en þá var nóg komið af barnaslátri og gori fyrir minn smekk.

Ég vona bara að þátturinn verði svona blanda af rannsóknarblaðamennsku og þjóðlífsþætti, með blöndu af menningu og pólitík, en ekki svona blanda af barnaþætti, jackass og freyðibaðinu íslandi í dag.

Góðar stundir.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Hrafnarnir flykkjast á mölina

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá því að krummar í stórum hópum hafi gert sig heimakæra í höfuðborginni við Faxaflóann. Talið er að jafnvel sé um og yfir eitt þúsund hrafnar sem á þessum kalda vetri hafi leitað þar skjóls og matar, nema að þeir séu að bralla eitthvað annað þessar gáfuðu skepnur.

Þetta er sami fjöldi og úrtakið úr hinni umtöluðu skoðanakönnun Fréttablaðsins á dögunum þar sem afhroð Framsóknarflokksins var naglfest á síðu hinnar sökkvandi þjóðarskútu. Það gæti sum sé verið að Framsóknarflokknum sé að berast þarna liðsauki sem eigi að taka þátt í næstu skoðanakönnun og lyfta fylgi flokksins. Kannski að Jón Sigurðson hafi lofað hröfnunum iðrin úr fátæklingum landsins, sem gera hvort eð er ekkert annað en að vera með sífellt væl og úthrópa flokkinn.

Kannski er uppreisn í uppsiglingu.! Hver man ekki eftir myndinni Birds eftir meistara Hitckock, þar sem fuglarnir réðust á mannfólkið með klóm sínum og göggum, og olli undirrituðum ótal svefnlausum nætum á yngri árum.

En eitt er víst að þessir fallegu nafnar mínir leggja ekki lag sitt við Framsóknarflokkin nema að bera eitthvað bitastætt úr bítum, kannski að síðustu hrútshöfuðin í sveitum landsins standi þeim til boða af dyggum stuðningsmönnum flokksins.

Nei, það er ólíklegt að krumminn sé svo heimskur að gerast falur fyrir þetta verð, en neyðin getur samt verið slík, þar sem varla er ræktaður sauður á stórum landssvæðum og ekki kemur sporður úr sjó nema að vera frystur á sama augnabliki einhversstaðar langt fjarri ströndum landsins.

Dýrðin í borginni heillar jú margann, og kannski er það hið besta mál að dýraríkið komi okkur mannfólkinu til bjargar og hjálpi til við að halda hinu tröllvöxnu ruslahaugum neyslusamfélagsins í skefjum.

Krummi krunkar úti.

Stelpurnar í Falcon heimsóttar

Á sunnudaginn heimsóttu stelpurnar í BK Amager, stelpurnar í Falcon í Frederiksberg. Leikurinn var á mjög svo ókristilegum tíma en hann var spilaður klukkan 9:00 og þurftum við að vera mætt á staðinn rétt upp úr átta. Stelpurnar voru í góðum gír og ákveðnar að gera sitt besta. Flestir foreldrarnir voru mættir á staðinn til að hvetja sínar stúlkur og sama gilti um heimaliðið.

Stelpurnar börðust með kjafti og klóm allan leikinn og vörðust eins og hetjur. Þær voru reyndar ekki langt frá sigri því að leikurinn tapaðist aðeins með fjórum stigum, endaði 26 - 22 Falcon í vil. Stelpurnar voru alltaf í hælunum á heimaliðinu en það lið er skipað stelpum sem eru allar einu ári eldri en stelpurnar í BK Amager. Í seinni hluta leiksins voru þær oft við það að draga þær uppi en svo fór að lokum að heimastelpurnar náðu að halda forskotinu og þar gerði hæðarmunurinn útslagið. Nokkrar stelpurnar í Falcon erum hausnum hærri en stelpurnar okkar í BKA og það hefur mikið að segja þegar barist er um boltann undir körfunni og nánast öll stig skoruð þar og nánast eingin utan af gólfi.
Framförin hefur verið og er mjög mikil hjá okkar stelpum sem sést best á úrslitum leiksins. Snemma í haust heimsóttu þær Falcon og töpuðu þá 46 - 4 eða með 42 stiga mun.

Karen stóð sig með prýði í leiknum og spilað góða vörn. Hún er hæsta stelpan í liðinu og þess vegna ríður mikið á henni í vörninni og undir körfunni þar sem hún berst með kjafti og klóm. Þegar Karen var inn á skoruðu stelpurnar í Falcon ekki nema örfá stig. En stelpurnar skiptast bróðurlega leikhlutunum á milli sín svo að allir spili jafn mikið.

Núna er svo vetrarfrí og þess vegna aðeins ein æfing í vikunni og nú er Karen á fullu að æfa skottæknina svo að hún geti skorað fleiri stig í komandi leikjum.




Let´s go Amager

laugardagur, febrúar 10, 2007

Kobbi Svarti

...gæti hann heitið á íslensku, en á enskunni ylhýru heitir hann Jack Black. Hann er 37 ára Ameríkani og hefur leikið í yfir 70 myndum síðan 1991. Oftar en ekki hafa hlutverkin verið smærri aukahlutverk þar sem hann er svona léttgeggjaður vinur eða félagi. En eftir að hann lék aðalhlutverkið í hinni stórskemmtilegu mynd Shallow Al með Gwyneth Paltrow hefur frægðarsól skinið nokkuð skært. Maðurinn er líka afbragðs músikant og söngvari og er einn helmingurinn af hinum geggjaða dúett Tenacious D. Til er einn geisladiskur með tvíeykinu hérna á hemilinu, diskur sem okkur var gefið af einum næturgesti. Diskurinn er svona blanda af stand-up og rokki, bara nokkuð góður.


Núna um helgina hefur Jack verið hemilisgestur, ekki í orðsins fyllstu merkingu en allt að því. Við fjölskyldan komum okkur nefnilega vel fyrir í sófanum bæði föstudag og laugardag og hörfðum á myndir með honum. Fyrst sáum við nýju myndina Nacho Libre þar sem hann leikur einlægan mexíkóskan munk sem gerist fjölbragðaglímukappi til að safna peningum fyrir munaðarlausu börnin í þorpinu. Nokkuð sprellin og góð mynd þar á erðinni. Á laugardeginum horfðum við svo á School of Rock, þar sem hann leikur vonlausan og atvinnulausan rokkara sem óskar þess heitast að vinna rokkkepnina the battle of bands. Jack fær vinnu sem kennari í skóla nokkrum þar sem hann kennir annars mjög svo siðprúðum nemendum leyndardóma rokksins. Asskoti skemmtileg mynd þar sem Jack nýtur sín mjög vel.

Við þökkum samfylgdina.

Kalda Köben

Hér er kalt, ...mjög kalt.

Þessa dagana ganga Kaupmannahafnarbúar kappklæddir og álútir um seltubornar göturnar. Heit gufan læðist úr vitum þeirra eins og úr hrútum í hrímköldu fjárhúsi.

Mikið er skrifað og rætt um meinta samvinnu skipaélagsins Mærsk og íslenska auðhringsins Baugs í sambandi við ritun sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborg Íslands. Baugur er sagt vafasamur aðili og ekki ýkja góður félagsskapur fyrir hinn aldna, perudanska Mærsk Mckinney Møller burðarstólpa danska efnhagsins. Svo er samsýningu á verkum Ólafs Elíassonar og Jóhannesar Kjarvals gerð góð skil í fjölmiðlum og virðist sem svo að loks hafi tekist að koma dönum í skilning um þjóðerni þeirra beggja. Einstaka fjölmiðlar halda samt fast í þá tálsýn að Ólafur Elíasson sé danskur og eigi bara íslenska foreldra. Kannski er nú eitthvað sannleikskorn í því. Tveir af helstu listamönnum danskrar menningarsögu eru íslendingar, Bertel Thorvaldsen og Ólafur. Þetta svíður dönum óneitanlega og harðneita þeir til að mynda að Bertel sé íslenskur. Ég spurði einu sinni forstöðumann Thorvaldsens safnsins hvort Bertel hafi ekki verið íslenskur og sagðist hún adrei hafa heyrt það. Eina framlag dana til hámenningar heimsins eru ritverk sérvitringsins H.C. Andersens. Meðalmennskan er í hávegum höfð og er jarðvegurinn í landi "jante" laganna fullkomin fyrir þá iðju.

En annars er undirbúniingur fyrir afmælið hennar Karenar í fullum gangi og mun það eflaust verða veglegt sem fyrr. Nú er vetrarfríið hafið og mun eitt og annað verða á döfinni hjá fjölskyldunni þann tíma. Á dagskránni er ferð í dýragarðinn þar sem Óliver mun heimsækja hin ljónin, ferð til Randers og Árósa, bíó og sitthvað fleira. En að mestu mun fjölskyldan bara hafa það gott saman í vetrakuldanum, hygge er orðið.

Jæja við ætlum að kíkja á Silfur Egils, það var víst rosa góður þáttur í dag.

Bless í bili.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Körfuboltaliðið

Það er mikið að gera í körfuboltanum hjá Karen þessa dagana. Nýbúið að vera stórt mót þar sem þær kepptu við nokkur lið héðan af höfuðborgarsvæðinu, þar sem allar stelpurnar vorum um einu ári eldri. Þær stóðu sig með sóma og lítur framtíðin björt út.

Núna á sunnudaginn er svo leikur við Fálkana frá Frederiksberg og ekki von á öðru en að stelpurnar sýni hörkuform.
let´s go Amager

...og þá kom vetur konungur

Hryssingskuldi og snjókoma er þessa dagana ríkjandi í höfuðborginni við sundið. Eftir hreinlega einmunatíð er eins og uppsafnaður heimskautavetur hafa verið hellt úr tunnu yfir borgina í gær og nótt. En lífið gengur sinn vanagang og var ekki að sjá að danir létu þetta á sig fá hér í morgunsárið. Eitthvað voru færri hjólreiðamennirnir á götunum enda flughált og strætóarnir þess vegna yfirfullir af kappklæddum körlum og konum sem yljuðu sér með sinn "gratisavis" á leið sinni til anna dagsins.

Karen fékk að fara með fullan poka a negrakossum (kókosbollum) í skólann vegna yfirvofandi afmælis í lok næstu viku. Allir skólar landsins fara í vetrarfrí frá og með deginum í dag og vildi Karen gefa krökkunum eitthvað sætt í tönnina og jafnvel láta syngja fyrir sig í leiðinni. Daman var í sínu fínasta pússi með veglega eyrnalokka og með bangsan sinn Sille, sem einnig var í sínu fínasta. Í gærkvöldi etir körfuboltaæfingu sátum við svo og skrifuðum 11 boðskort til vinkvenna hennar í bekknum. Afmælið verður haldið sem búninga og grímuveisla í anda öskudagsins. Og er eftirvæntingin mikil.

Hér á eftir förum við hjónin svo með þau tvö yngstu til læknis, þar sem Jón læknir bíður með miður skemmtilegar sprautur, en þau vita ekkert um það greyið börnin. En þau harka það sér elskurnar.
...það er kalt úti..

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Silfur Egils, fullar handboltastjörnur og fáranlegt verðlag.

Í gær byrjaði ég daginn á að horfa á Silfur Egils. Þátturinn er að jöfnu fróðlegur og skemmtilegur og er Egill hæfilega fróður og stefnulaus "raunsæismaður" til að stjórna svona þætti. Hann er þó að réttu oft talinn oflátungur, hugmyndheimur hans er mótaður af hinum þrönga veruleika 101 Reykjavík og kaffihúsaspekingana sem þar láta ljós sitt skína. Hann er duglegur að "namedroppa" hina ýmsu hagfræðinga, heimsspekinga og stjórnmálamenn máli sínu til fulltingis. Hann er greinilega vel lesinn og vitnar ótt og títt í hin ýmsu rit, sem oftar en ekki eru skrifuð af fólki sem vilja profilera sig innan síns fags, fólk sem ienungis hefur á stefnuskránni að koma með nýjan vinkil á málefnin.

Í gær voru komnir í þáttinn nokkrir góðir gestir, þar á meðal hinn alræmdi Jón Magnússon sem mér fannst nú komast vel frá sínu máli og virtist hafa mikið til síns máls. Öðru máli gegndi um Jóhönnu Sigurðar sem ekkert hafði til málanna að leggja nema að ergja sig á hinu og þessu. Hún er reyndar heiðarlegur og góður stjórnmálamaður og ein af fáum sem treystandi væru til þess að rétta hag hinna bágstöddu, en henni vantar sýn og kannski eru öfl innan samfylkingarinnar sem eru svo hægri sinnuð að hennar málstaður mun aldrei komast á oddinn. Svo er alltaf talað um jafnréti kynjanna þegar samfylkingin hrósar sér fyrir sín stefnumál.Gott og vel, en þau málefni eru ekki þau einu sem eru aðkallandi í samfélaginu. Frekar ætti að endurmeta gildi hvers starfs fyrir sig og meta launin útfrá því og því ætti að stýra með ríkisvaldinu. Jónína Ben, er eihversskonar örlaganorn, sem fer mikinn án þess að eiga innistæðu fyrir því. Hún er orðin þýðingamikill leikmaður á taflborði umræðunnar vegna þess að hún býr yfir vitneskju um hitt og þetta og lætur svo gamminn geisa reglulega til að minna á sig.

Ég beið svo eftir viðtalinu við heimspeki prófessorinn Stéfan Snævarr. Ég bjóst við að hann myndi kasta nýju ljósi á dægurmálinn en maðurinn gerði lítið annað en að drekka vatnið sitt og draga í land með það sem hann kynni að hafa sagt einhvern tímann áður. Reyndar var eitt sem ég hjó eftir hjá honum og það var að hann kallaði íslenska samfélagið hið fyrsta og eina póstmóderníska samfélag í veröldinni. Kapítalisminn og auðhyggjan er búin að gera okkur að andlitslausum neytendum.

Pistillin hjá Agli um bensínsstöðvarnar var þó mjög góður og get ég ekki annað en verið honum sammála. Bensínstöðvarnar eru farnar að þjóna sama tilgangi og kirkjurnar í landslagi borgarinnar, eru áberandi staðareinkenni upplýst í myrkrinu. Hvarvetna sem þeim er poatð niður liggur við að það kallist geti skipulagsslys. Reyndar eru skipulagssmál Reykjavíkurborgar ekkert annað en viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar og verður þeim örugglega skemmt yfir allri vitleysunni.

Forsíða Ekstrablaðsins í gær var með myndum af bronsverðalaunaliðinu frá HM í handbolta. Þeir voru ekki á vellinum með verðlaunin heldur stóður þeir við barborðið með hendurnar utan um kaldan bjór. Það fylgdi fyrirsögninni að nú gætu þeir skemmt sér og komist í langþráðan bjórinn. Ég sæi fyrir mér samskonar umfjöllun um íslenska liðið, Óli Stef með kaldan jagermeister og Sigfús með tvöfaldan brennsa á forsíðu moggans og yfir myndinni stæði, Loksins mótið búið. Nei íþrótahetjur dana drekka brennivín og ekkert sjálfsagðara en að láta alla vita af því, frekar að sýna þá með áfengið heldur en verðalunin.

Ég hef mikið velt verðlaginu á Íslandi fyrir mér upp á síðkastið, sérstaklega vegna þess að nú flytjum við væntanlega heim með haustinu. Ég þykist vita að menningarsjokkið verði mjög stórt. Ég hef miklar áhyggjuar af aðlögunarhæfni okkar að íslensku samfélagi. Þar á ég við vinnutíma, frístundir, bæjarlíf, samgöngur, verðlag, gildismat og margt annað. Ég hef reynt að setja dæmið upp og reiknað í krónum og aurum. Hér í Danmörku erum við að greiða um 170.000 iskr. á mánuði í fastar greiðslur á mánuði og matarkostnaðurinn fyrir okkur 5 er um 50.000. samanlagt 220.000 iskr. Það dæmi sem ég hef sett upp í sambandi við tilveruna heima er sláandi. Ég geri ráð fyrir því að við reynum að viðhalda sama lifi "standard" sem við gerum sem námsmenn hér en aukum ekkert við okkur. Það er sama hversu ég reikna og reikna þá get ég ekki séð að mánaðarlegur kostnaður við rekstur fjölskyldunnar fari undir 350.000, það er 60% kostnaðaraukning. Nú er svo komið að ég reyni að telja mér í trú um að gæði tilverunnar heima á fróni sé svo mikil að það réttlæti þetta en það reynist mér bísna erfitt.

Látum þetta gott heita í bili.

mánudagur, febrúar 05, 2007

E.T phone home


Í gærkvöldi voru endurnýjuð yfir 20 áragömul kynni mín af litla sæta viðundrinu honum E.T. Samtímis voru börnin að upplifa þetta klassíska ævintýri í fyrsta skipti. Við sátum í einni hrúgu yfir sjónvarpinu og var ekki laust við að nostalgían næði fastatökum á mér. Það verður að segjast eins og er að þessi mynd er einstaklega vel heppnuð og hefur staðist tímans tönn með eindæmum.


Auðvitað var þetta dramatiserað að Amerískum hætti, en engin slepja samt þó að uppskriftin að tári á hvömm væri sannarlega fyrir hendi. Svo hafa tæknibrellurnar einnig lifað hina ótrúlegu byltingu í þeim efnum af sér. Það sýnir hvað meistari Spileberg var frammi í skónum og á undan sinni samtíð.


Óliver lifði sig af fullu inn í ævintýrið og og sat dolfallin yfir þessu. Hann pikkaði að sjálfsögðu upp frasan frægi. Hann benti ótt og títt úti loftið og rumdi út sér með snudduna upp í sér E.T. ...E.T.


Í gærdag fékk Karen heimsókn af einni stelpu úr körfuboltaliðinu. Stelpan sú var nokkuð sér á báti og fannst Karen hún bara hundleiðinleg eins og sagði sjálf. Hún hlýddi engu greyið og átti í sífelltum útistöðum við Karen. Svo þegar pabbi hennar sótti hana dró hún hann inn í íbúð og inn í svefnherbergi okkar þar sem Sonja lá í makindum sínum við brjóstagjöf. Svo varð henni tíðrætt um nöfnin okkar og sagði að pabbi sinn hefði hlegið mikið af þessum asnalegu nöfnum fyrr um morgunin. Pabbinn sótroðnaði og mældi skóna sína í gríð og erg, karlgreyið.


Já það þarf að vanda orðavalið í kringum þessa grislinga. En E.T. sýndi okkur gott ordæmi fyrir trúnaðinn bæði við vini sýna og fjölskyldu.


Góða daga


sunnudagur, febrúar 04, 2007

Enn aftur

Jæja...

Hér í Köben hefur tíðin verið með algerum eindæmum síðustu vikur, hitinn á milli 5 og 10 gráður og mild veður. Runnar eru farnir að blómstra og laukplöntur gægjast uppúr jarðveginum. Það er bara að vona að þetta haldist svona milt það sem eftir er vetrar, sem er þó harla líklegt.

Núna er haustönninnni í arkitektaskólanum lokið og við tekur nokkurra mánað sjálfsnám og verkefnavinna. Samtímis hefst undirbúningur fyrir lokaverkefnið sem ég áætla að byrja á með haustinu.Ég hef svo skráð mig í sumarnámskeið sem er fram í Svíþjóð í sumar. Námskeiðið er samvinnuverkefni nokkurra háskóla á norðurlöndum og fjallar um skipulags og greiningu landslags í óbyggðum. Með þessu öllu er ég við að ná þeim einingum í hús sem þarf til við að ljúka náminu.

Karen spilaði einn leik hérna í morgunsárið og vannst glæsilegur sigur yfir liði frá Hørsholm 39 - 8. Karen skoraði 9 stig í leiknum og þar af eitt úr víti. Hún stal um 20 boltum og fjölmargar stoðsendingar. Þetta var klárlega einn af betri leikjum hennar og fékk hún mikið hrós fyrir.

Í gær var íslenski skólinn á dagskránni eins og venjulega. En í gær var skemmtileg nýjung fyrir okkur foreldra þar sem boðið var uppá fyrirlestrafund með íslensku skólastjóra sem ræddi um íslensku kennslu barna í útlöndum og flutning heim til Íslands og aðlögun þeirra þar. Þetta var skemmtilegt framtak sem skólahaldarans í Jónshúsi og var mál manna að þetta verði kannski reglulegur viðburður. Forledrarnir sitja hvort eð er og bíða eftir börnunum á meða kennslu stendur.

Mikið er rætt um hugsanslega heimflutning okkar á haustdögum og erum að leita að hentugum stað og húseign til að flytja til. En meira um það síðar.

Sæl að sinni