föstudagur, febrúar 23, 2007

Bókalestur

Nýverið lauk ég við að lesa bókina um hana Rögnu Aðalsteinsdóttur á Laugarbóli, Ljósið í djúpinu. Bókina fékk ég lánaða um daginn hjá Halli vini mínum og settist strax við lestur. Bókin greinir frá hinni miklu örlagasögu sem þessi kona hefur gengið í gegnum Hún missti tvö af börnum sínum í sitthvoru snjóflóðinu á vestfjörðum og tvö barnabörn í bílslysum. Sem barn missti hún móður sína og tvær systur og um tvítugt deyr faðir hennar. Svona heldur sagan áfram og segir frá þessari erfiðu lífsbaráttu í hinni deyjandi byggð innst í djúpinu. Ragna virðist samt sem áður komast í gegnum þessar ótrúlegu raunir af hörku og dugnaði þó að hún sé við það að bugast við áföllin sem ríða reglulega yfir.

Ég man alltaf eftir að það var mikið talað um þessa konu á heimilinu, pabbi þekkir hana nokkuð vel og Raggi bróðir var um tíma vinnumaður hjá henni sem og svo margir aðrir sem gekk illa að fóta sig í lífinu.

Reynir Traustason kemst nokkuð vel frá þessu verki þó svo að það vanti stundum þunga í textagerðina, sérstaklega þegar greint er frá þeim myrku örlögum er urðu sífellt á vegi Rögnu. Bókin ber þess merki að höfundur er blaðamaður og er oft eins og bókin sé eitt langt viðtal úr tímaritinu Mannlífi. En þar sem örlög Rögnu er það mögnuð kemur það ekki mikið að sök.

Góð bók þarna á ferðinni sem skilur mann hugsi eftir.

Engin ummæli: