þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Silfur Egils, fullar handboltastjörnur og fáranlegt verðlag.

Í gær byrjaði ég daginn á að horfa á Silfur Egils. Þátturinn er að jöfnu fróðlegur og skemmtilegur og er Egill hæfilega fróður og stefnulaus "raunsæismaður" til að stjórna svona þætti. Hann er þó að réttu oft talinn oflátungur, hugmyndheimur hans er mótaður af hinum þrönga veruleika 101 Reykjavík og kaffihúsaspekingana sem þar láta ljós sitt skína. Hann er duglegur að "namedroppa" hina ýmsu hagfræðinga, heimsspekinga og stjórnmálamenn máli sínu til fulltingis. Hann er greinilega vel lesinn og vitnar ótt og títt í hin ýmsu rit, sem oftar en ekki eru skrifuð af fólki sem vilja profilera sig innan síns fags, fólk sem ienungis hefur á stefnuskránni að koma með nýjan vinkil á málefnin.

Í gær voru komnir í þáttinn nokkrir góðir gestir, þar á meðal hinn alræmdi Jón Magnússon sem mér fannst nú komast vel frá sínu máli og virtist hafa mikið til síns máls. Öðru máli gegndi um Jóhönnu Sigurðar sem ekkert hafði til málanna að leggja nema að ergja sig á hinu og þessu. Hún er reyndar heiðarlegur og góður stjórnmálamaður og ein af fáum sem treystandi væru til þess að rétta hag hinna bágstöddu, en henni vantar sýn og kannski eru öfl innan samfylkingarinnar sem eru svo hægri sinnuð að hennar málstaður mun aldrei komast á oddinn. Svo er alltaf talað um jafnréti kynjanna þegar samfylkingin hrósar sér fyrir sín stefnumál.Gott og vel, en þau málefni eru ekki þau einu sem eru aðkallandi í samfélaginu. Frekar ætti að endurmeta gildi hvers starfs fyrir sig og meta launin útfrá því og því ætti að stýra með ríkisvaldinu. Jónína Ben, er eihversskonar örlaganorn, sem fer mikinn án þess að eiga innistæðu fyrir því. Hún er orðin þýðingamikill leikmaður á taflborði umræðunnar vegna þess að hún býr yfir vitneskju um hitt og þetta og lætur svo gamminn geisa reglulega til að minna á sig.

Ég beið svo eftir viðtalinu við heimspeki prófessorinn Stéfan Snævarr. Ég bjóst við að hann myndi kasta nýju ljósi á dægurmálinn en maðurinn gerði lítið annað en að drekka vatnið sitt og draga í land með það sem hann kynni að hafa sagt einhvern tímann áður. Reyndar var eitt sem ég hjó eftir hjá honum og það var að hann kallaði íslenska samfélagið hið fyrsta og eina póstmóderníska samfélag í veröldinni. Kapítalisminn og auðhyggjan er búin að gera okkur að andlitslausum neytendum.

Pistillin hjá Agli um bensínsstöðvarnar var þó mjög góður og get ég ekki annað en verið honum sammála. Bensínstöðvarnar eru farnar að þjóna sama tilgangi og kirkjurnar í landslagi borgarinnar, eru áberandi staðareinkenni upplýst í myrkrinu. Hvarvetna sem þeim er poatð niður liggur við að það kallist geti skipulagsslys. Reyndar eru skipulagssmál Reykjavíkurborgar ekkert annað en viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar og verður þeim örugglega skemmt yfir allri vitleysunni.

Forsíða Ekstrablaðsins í gær var með myndum af bronsverðalaunaliðinu frá HM í handbolta. Þeir voru ekki á vellinum með verðlaunin heldur stóður þeir við barborðið með hendurnar utan um kaldan bjór. Það fylgdi fyrirsögninni að nú gætu þeir skemmt sér og komist í langþráðan bjórinn. Ég sæi fyrir mér samskonar umfjöllun um íslenska liðið, Óli Stef með kaldan jagermeister og Sigfús með tvöfaldan brennsa á forsíðu moggans og yfir myndinni stæði, Loksins mótið búið. Nei íþrótahetjur dana drekka brennivín og ekkert sjálfsagðara en að láta alla vita af því, frekar að sýna þá með áfengið heldur en verðalunin.

Ég hef mikið velt verðlaginu á Íslandi fyrir mér upp á síðkastið, sérstaklega vegna þess að nú flytjum við væntanlega heim með haustinu. Ég þykist vita að menningarsjokkið verði mjög stórt. Ég hef miklar áhyggjuar af aðlögunarhæfni okkar að íslensku samfélagi. Þar á ég við vinnutíma, frístundir, bæjarlíf, samgöngur, verðlag, gildismat og margt annað. Ég hef reynt að setja dæmið upp og reiknað í krónum og aurum. Hér í Danmörku erum við að greiða um 170.000 iskr. á mánuði í fastar greiðslur á mánuði og matarkostnaðurinn fyrir okkur 5 er um 50.000. samanlagt 220.000 iskr. Það dæmi sem ég hef sett upp í sambandi við tilveruna heima er sláandi. Ég geri ráð fyrir því að við reynum að viðhalda sama lifi "standard" sem við gerum sem námsmenn hér en aukum ekkert við okkur. Það er sama hversu ég reikna og reikna þá get ég ekki séð að mánaðarlegur kostnaður við rekstur fjölskyldunnar fari undir 350.000, það er 60% kostnaðaraukning. Nú er svo komið að ég reyni að telja mér í trú um að gæði tilverunnar heima á fróni sé svo mikil að það réttlæti þetta en það reynist mér bísna erfitt.

Látum þetta gott heita í bili.

Engin ummæli: