miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Veður skipast

Ég hafði varla sleppt orðinu í gærkvöldi yfir því hvað væri nú mikil blíða þegar "snjóstormurinn" brast á. En einmuna veðurblíða með vor í lofti heur leikið um okkur hér í Köben undanfarna vikuna. En í gærkvöldi byrjaði að snóa með tilheyrandi kulda og trekki. Þeir kalla þetta snjóstorm danirnir, nokkuð sem maður tengir við ofsaveðrin heima á vestfjörðunum í denn. En eftir næturlanga snjókomu er aðeins farið að grána á gangstéttunum. Ekki að ég sé að gera lítið úr þessu veðri því að kuldinn sem þessu fylgir er nístandi. Heimamenn halda samgöngum gangandi með því að bera óheyrilegt magn af salti á nánast allt yfirborð borgarinnar. Einhversstaðar las ég að þeir notuðu langmest af salti til hálkuvarnar í allri Evrópu, þrátt fyrir að margar náttúruvænni lausnir séu til staðar. Þetta hefur oft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir gróðurinn og ekki síst sementið í gangstéttunum.

En að öðru. Nú er allt fastelavns dæmið yfirstaðið, krakkarnir búnir að belgja sig út af bollum og kreista pening og gotterí úr varnarlausum gamalmennum hverfisins. Óliver Breki náði þeim merka áfanga að verða tunnukóngur á vöggustofunni sinni og kom heim á mánudaginn með forláta kórónu sem hann fékk í verðlaun. Ætli æfingin sem hann fékk daginn áður í afmæli Karenar hafi ekki skipt sköpum.

Ég man vel eftir þessum tímabilum í minni æsku þegar maður fór út að maska. Þá gekk maður í hús að kvöldi bolludags yfirleitt klæddur sem einhver bófi og heimtaði einhver sætindi. þá voru nú ekki þessir verksmiðjuframleiddu búniingar til eða algengir, heldur safnaði maður saman einhverjum lörfum af foreldrum sínum og nuddaði einhverju sóti framan í sig. Ég man líka vel að eitt af þessum þremur kvöldum (mig minnir sprengidags) þá máttu stóru fantarnir hrekkja okkur sem minni voru. Á þessum tíma óttaðist maður ekkert meira heldur en Bogga Antons, Dóra heitinn Sigurlaugar, Þorlaug og Jonna. Fyrir þá hefur þetta eflaust verið skemmtilegasta kvöld ársins, þar sem þeir biðu með frysta snjóbolta á bak við snjóskafl tilbúnir að veita manni góðan marblett á lærið, og allt saman leyfilegt.

Síðast þegar ég maskaði var á menntaskólaárunum á skaganum. Þá fóru ég og Kalli Hallgrímss saman eftir kirkjubrautinni og gengum í nokkrar verslanir og veitingahús og sungum nokkur ættjarðarlög fyrir starsfólkið. Þá vorum við nú ekkert sérstaklega dulbúnir en án efa eðlislega hallærislegir, bæði til fara og í hátterni. Ég man eftir að það var nokkuð vel tekið í framtakið hjá okkur og bárum við til dæmis einn stóran skammt af frönskum úr bítum á veitingastaðnum Barbró.

Ég var að muna eftir því rétt í þessu að það var að sjálfsögðu sprengidagur í gær og ekkert saltkjöt til á heimilinu, hvur fjárinn, þar sofnaði maður á verðinum. Þetta hefur aldrei klikkað hingað til. Nú verður maður að fara á stúfana.

Engin ummæli: