fimmtudagur, júní 29, 2006

fréttir segir Broddi Broddason, ...í fréttum er þetta helst

...Ísraelsmenn hafa handtekið 60 meðlimi Hamas samtakanna í Palestínu, þar á meðal 8 ráðherra og 20 þingmenn heimastjórnarinnar.

...142 % verðmunur á toffee pop kexpakka á höfuðborgarsvæðinu.


...svo eru einhverjir dauðir í flóðum í bandaríkjunum, ...nei ekki nógu spennandi...kannski í kvöldfréttunum.! Litlar stúlkur drápust eftir að hafa stigið á jarðsprengju í Afghanistan...hmm, ..nei sleppi því. ...350.000 að drepast úr hungri í Darfur héraði í Súdan...það nennir eingin að hlusta á svoleiðis yfir matartímanum...út með þá frétt.!.
Einhver vandræði með kjarnorkuvopn og stríð í Írak, ...búið að koma svo oft.!

...restin af heimsfréttunum er svo álíka smálegt að ekki verður í það orðum eytt.




...en toffee pop kexið...uuhaa. Kostar 110 kr í bónus, en 245 krónur í hlíðarkjöri. Og svoleiðis viðbjóð komast þeir ekki upp með hinu grimmu hverfiskaupmenn. Þeir skulu hengdir út sem óþverar og glæpamenn og RÚV, siðferðisspegill þjóðarinnar gengur þar fram fyrir skjöldu.

Hvar er fréttastjórnin á þessum miðli. Er góðærið og hamingjan svo mikil á Íslandi að samkenndinni er bara kastað fyrir róða og sagðar bara innhverfar ekki-fréttir til að trufla ekki matarlyst og aðra efnishyggjugeðveiki.

...íhaldið maður! ...íhaldið

miðvikudagur, júní 28, 2006

Gummi báta(s)passi

Ég er orðin bátapassi fyrir hann Ágúst Østerby félaga minn. Gústi sem festi kaup stórglæsilegu fleyi fyrir stuttu verður heima á Íslandi næstu 3 vikurnar og mun ég fylgjast með að báturinn verði ekki fyrir neinu óþægilegu.

Báturinn sem gústi keypti var rúmlega 40 feta eikar-kútter frá 1930 sem er nánast í pottþéttu ástandi, einungis þarf að skipta um nokkra planka og koma vélinni fyrir.

Báturinn getur hæglega tekið 10 manns í koju og er með myndarlega aðstöðu neðan dekks. Báturinn útbúinn með stórum seglum og langri stefnis- bómu. Báturinn er frekar breiður og ristir frekar grunnt miðað við íslenska eikarbáta og er dekkið því breitt og gott.

Ég þarf að fylgjast með því að dælurnar virki sem skildi og passa upp á að væta timbrið í mesta hitanum, tæma rakatækið og sitthvað smálegt. Þetta geri ég allt með glöðu geði og fæ meira að segja afnot af bíl Ágústar á meðan hann er heim á fróni.

Að sjálfsögðu er það svo stefnan hjá mér að eignast svona skip. ...það mælti mín móðir, að mér skildi eignast, fley og fagrar árar, fara á brott með víkingum, standa uppi í stafni, stýra dýrum knerri, halda svo til hafnar og höggva m.... ...nei sleppi þessu seinasta.

En draumurinn er að sjálfsögðu að eignast svona fley og sigla svo í kringum landið allt að hætti leiðangra fyrri alda.

um aldir alda.

Prófunum lokið!

Nú er prófunum lokið, eftir annasaman undirbúning. Undirbúningstíminn byrjaði kringum miðjan maí og síðan hefur verið keyrt nótt sem nýtan dag. Ég var þó aðeins í einum áfanga sem gaf reyndar 30 einingar og reiknaðist sem fullt nám. Áfanginn heitir Tema: landskabsplanlægning og er einn stærsti og mikilvægasti áfanginn í náminu. Hann fjallar að mestu leyti um kenningar og aðferðafræði í landslagsarkitektur og inniheldur fjölmörg ritgerðarskrif og verkefnaskil.

Öll vinna fór fram í hópum sem var skipt upp í fjórgang og síðasta skiptið varaði hópvinnan í 3 mánuði. Hópurinn sem ég var í var óvenju skemmtilegur og gekk samvinnan mjög vel. Hópfélagarnir sýndu öll skilning á aðstæðum mínum þegar Karen Embla veiktist og Sonja varð að vera rúmliggjandi, sem var mér mikils virði.

Síðasta verkefnið var að koma með tillögu að endurskipulagningu á almenningsgarði í Óðinsvéum. Garðurinn heitir Kongens Have og liggur miðsvæðis í borginni og er garður með yfir 600 ára sögu, fyrst sem klausturgarður og seinna sem hallargarður. Garðurinn liggur í dag milli miðbæjarins og aðalbrautastöðvarinnar og er þekktur fyrir að vera staður fyrir hina misjöfnu og einnig sem aðalæð gangandi vegfarenda til og frá brautarstöðinni. Garðurinn liggur í elsta hluta bæjarins og var það mat okkar möguleikranir væru miklir og að hann gæti orðið snúningsás menningar og mannlífs í þessum fæðingarbæ HC. Andersens.

Hönnunarvinnan gekk vel og var óvenju hugmyndarík. Við vorum sátt um að gera höllinni gömlu hátt undir höfði, skipuleggja rýmið á einfaldan og áhrifaríkan hátt og skapa svæði til útiveru. Við vorum einnig ákveðin í að garðurinn þrátt fyrir hið sögulega umhverfi ætti að bera merki um að vera skapaður í 2006, þ.e.a.s. með nútímalegu yfirbrgaði sem hæfði umhverfinu.


Á myndinni sést tillagan sem framkallaði einkun upp á 9 frá kennurum og prófdómurum. Þeim fannst þetta allt saman gott og blessað, og fannst þetta mjög raunhæf tillaga. En verkefnið var einfalt, þó úthugsað sem dró lítið eitt niður í einkunnagjöf. Við vorum þó öll sátt við niðurstöðuna og að vera búin að ljúka þessum stóra áfanga.

Prófdómarinn hér Søren Robert Lund og er nokkuð þekktur arkitekt hér í Danmörku. Hann var frekar aggresívur í spurningum sínum og krafðist skýringa á hinu og þessu. Hann benti á okkur eitt og eitt þar sem við stóðum eins og hjörð á leið til aftöku uppi á sviði fyrir framan fullan salinn og lét okkur svara fyrir hina ýmsu hluti í tillögunni. Við sluppum öll ómeidd frá því, þrátt fyrir að hjartslátturinn hafi aukist um nokkur hundruð snúninga þegar feitur visifingur hans benti á mann og tryllingsleg augun ætluðu að brenna sig í gegnum hnausþykk gleraugun. Eftir prófið buðu nokkrir samnemendur uppá kampavín og gúmmulaði. Seinna sama dag var farið út að borða með hinum hópnum sem kláraði sama dag og drukkið nokkuð magn af bjór.

Nú er sumarið og allt tilheyrandi formlega byrjað, og önnur verkefni litu dagsins ljós.

Aaarrhhhggghh.!!!

Hvenær koma ömmurnar mínar í heimsókn til mín..??


























hlakka til að komast í sumarfrí.!

Kveðja, Óliver Breki

María íslenskukennari kvödd

Á dögunum voru skólaslit í íslenska skólanum í Jónshúsi, síðasti kennsluadgurinn var þó ekki með hefðbundnu sniði, heldur hafði María kennari skipulagt útiveru með krökkunum í nálægum almenningsgarði og var foreldrum boðið að vera með. Þetta var einnig síðasti kennsludagur hennar eftir tveggja ára starf. María er einstaklega ljúf og skemmtileg og voru bæði nemendur og foreldrar ánægðir með hana. En María er á leiðinni heim til Íslands þar sem maðurinn hennar hann Einar er búin í læknasérfræðinámi sínu. Ég veit að Karen Embla og hin börnin eiga eftir að sakna hennar og það eiga forledrarnir eftir að gera líka.

En þennan dag mættu nemendur og foreldrar, vel nestuð í blíðskaparveðri í almennings- garðinn Østre anlæg sem liggur við konunglega listasafnið og steinsnar frá Jónshúsi. Þarna var margt sér til gamans gert. María hafði undirbúið nokkra leiki fyrir börnin og foreldrana og dró fram keppnisskapið fram í nokkrum. Ein þrautin gekk út á að búa til eins orð og hægt er úr stöfunum sem mynda orðið Þingvellir. Ég og gústi Østerby lögðum krafta okkar saman og fundum 50 orð sem hægt er að mynda, og vorum að sjálfsögðu langt efstir.

Annars var setið og skrafað, og blíðunnar notið til hins ýtrasta. Allir voru ánægðir með framtakið og ekki síst börnin sem fengu svo að leika sér í leiktækjunum og spretta úr spori.

Karen tók að sjálfsögðu nýja "build a bear" bangsann sinn með, sem hún keypti fyrir hluta af sparifénu sínu. Hún er nefnilega nokkuð nösk við að safna pening daman.

Nú er svo leitað að nýjum kennara fyrir íslenska skólann í Jónshúsi og verður spennandi að sjá hver mætir til starfa til að kenna ungum hérbúandi íslendingum um allt sem íslenskt er.

gætum við fengið að heyra eitthvað íslenskt....eitthvað gamalt og gott

föstudagur, júní 23, 2006

Jón farinn á vit Vestfirskra ævintýra

Eftir tæplega 3ja vikna dvöl sem au-pair hér hjá okkur í Köben er Jón Hallur bróðir farinn heim til Íslands. Hann er búinn að bjarga okkur alveg með heimilið og börnin, og svo hefur líka verið gaman að hafa hann í heimsókn. Karen Emblu fannst æðislegt að hafa stóra frænda nálægt til að ergja. Hún hafði einstakt lag á að finnast Jón pirrandi og gat kennt honum um allt. En það var alls ekki illa meint, sagði Karen sjálf þegar kom að því að kveðja.

Jón Keypti sér helling af fötum hér í Köben, fór í bíó, á djammið og mældi svo göturnar í miðbænum sér til skemmtunar. Stóri bróðir tók hann í smá “meikóver” þannig að hann verði dömuklár við komuna til Íslands aftur.

Síðasta daginn sem Hann var hérna í DK skelltum við bræðurnir okkur í Tivoli og létum adrenalínið þjóta um æðarnar. Við skelltum okkur 3 sinnum í fallturninn, rússíbana og þeytivindur. Jóni sem er meinilla við allt sem er hærra en hann sjálfur var með lorrann í brókunum meira og minna alla daginn. Í fallturninum stundaði hann le mage öndunaræfingarnar af miklum móð með lokuð augun. En þetta fannst honum þó ansi skemmtilegt á endanum þegar hann var viss um að vera ekki dáinn.

Við leystum Jón út með smá gjöfum sem hann var ansi ánægður með strákurinn.

Nú stundar hann slægingarnar af miklum móð hjá Simma Þorkels. Vonandi getur Jón leyst Simma af svo að hann geti fengið sér smá blund, hann sefur víst ekkert á sumrin karlinn, -að eigin sögn. Óskar systursonur minn er líka kominn í slæginguna hjá Simma, þannig að Jón ætti að geta kennt honum handtökin.

Takk fyrir hjálpina Jón, kveðjur frá okkur.

mánudagur, júní 19, 2006

Hæ, hó jibbí jei og jibbí jei, ...það er kominn

...17 júní. Það var eins og gerst hafði í gær, ég vakna í rúminu mínu í Traðar-landinu og heyri í Ragga bróðir vera að fá sér seríós. Ég sprett fram úr og fram í ledhús svo hann klári ekki allt.! Mamma minnir mig á víðavangshlaupið sem á að byrja klukkan 11:00 og bendir á fötin sem liggja á stólbakinu. Pabbi kemur fram á nærbrókunum, sest niður og fær sér pípu, hann klórar sér eitthvað í krullunum á meðan mamma kroppar bólu á bakinu á honum. Hann fær sér kaffi uppá gamla mátann og er annars hugsi. Mamma fer fram og kveikir á útvarpinu, og eftir stutta stund hljómar hinn frábæri þjóðhátíðarslagari með Dúmbó og Steina. 17 júní var byrjaður.!

Þessi 33. þjóðhátíðardagur sem ég hef lifað var nokkuð hefðbundinn hér í Danmörku. Veðrið var gott með einni stakri hellidembu um miðjan daginn, svona til að minna á hverfulleika náttúruaflanna. Dagurinn bauð svo uppá samveru með hundruðum landsmanna og góðra vina á Ströndinni okkar hér á Amager. Þarna var margt sér til dundurs gert og mikið rætt og skrafað. Krakkarnir voru í skýjunum, yfir því að geta hlaupið um allt og leikið sér, þarna voru loftkatsalar, tónlist og sölubásar, að ógleymdri sjálfri ströndinni sem krakkarnir kepptust við að nota.

Við nestuðum okkur vel upp og sátum fram á kvöld í grasinu og létum okkur líða vel. Þarna var seld íslensk tónlist af skagamanninum Þórhalli Jónssyni. Hann er búin að opna verslunina 12 tónar á Fiolstræde, hérna í miðborginni og er með mikið magn af íslenskri tónlist. Það verður gaman að skella sér í kaffi til hans, spjalla og hlusta á ættjarðatóna.

Ekkert áfengi var haft við hönd af fjölskyldumeðlimum þennan daginn og ferska loftið notið til hins ýtrasta.

...vantaði bara SS pulsurnar.

Eitthvað gáfulegt um HM.

Mér dettur ekki margt í hug, hef þó setið þaulur upp fyrir eyru fyrir framan tölvuna og beðið eftir innblæstri. Ég hef staðið í þeirri trú að ekkert blogg með vott af sjálfsvirðingu, láti það fara hjá sér að nefna HM í fótbolta á síðum sínum. Ekki það að ég hafi ekki áhuga eða álit, neibb hef bara ekki neinn sérstakan vinkil á efnið sem mér finnst geta orðið að sæmandi bloggi. Ég hefi svo ekki getað fylgst með að neinu ráði vegna mikilla anna undnfarið. Ég næ yfirleitt síðasta leiknum hérna á kvöldin, þegar klukkan er að ganga 10 og dagurinn getur varla orðið lengri. Þá er maður geispandi og gapandi frameftir öllu, svo allt í einu verður allt svart og maður vaknar í einhverri snúinni stellingu með, með hálsríg og þurran kjaftinn eftir að hafa útúrslefað allan sófann.

Frá því að ég hef verið smá púki hef ég alltaf haft sérstakt dálæti á HM. Ég man að ég fékk sögu HM í jólagjöf 1982, árið sem ítalir urðu heimsmeistarar. Þá var Paualo Rossi aðalhetjan og minnir mig að mynd af honum hafi verið á forsíðu bókarinnar. Ég átti líka heilan bunka af svona litlum myndum (einskonar leikaramyndir) af hetjunum frá HM, man sérstaklega eftir einni mynd af Bryan Robson umkringdur 8 leikmönnum skoska landsliðsins (eða írska landsliðið) við hornspark. Þá voru bæði skotar og írar með lið í kepninni. Man líka að Belgía var með gott lið á þessum tíma.

Það er einhver ákveðinn ljómi yfir HM, grasið á vellinum er grænna, skemmtilegri áhorfendur á leikvanginum, spennandi dómarar og margt fleira sem gerir þetta að einni allsherjar skemmtun. Á öðrum dögum en HM dögum fengist maður varla til að horfa á leik Alsír og saudi-Arabíu eða lönd eins og Ghana, Fílabeinsströndina, Íran og Ecuador.

Á mótum eins og HM getur allt gerst. Oft eru stóru þjóðirnar of öruggar um sig og eiga í erfiðleikum með einbeitinguna á meðan að leikgleðin og metnaðurinn brennur í augum hinna minni þjóða. Það er ekkert lögmál að litlar þjóðir eiga að tapa fyrir stærri þjóðum. Eins og Guðjón Þórðar sagði einu sinni sem oftar: “það eru 11 leikmenn í hvoru liði og leikurinn byrjar 0-0” og svo er bara að hafa trú á sjálfum sér. Ég held meira að segja að flestir séu með jafnmargar fætur og spili með sama bolta í sama veðrinu. Töluverð einföldun á annars flóknum og ófyrirsjánalegum leik, en sannleikskorn samt sem áður!

Ég sá til dæmis leik Ghana og Tékklands í fyrradag og held svei mér þá bara að Ghana eigi eftir að ná helvíti langt. Þeir spiluðu boltanum hratt og örugglega og tékkarnir komust aldrei inn í leikinn, gerðu ekkert nema að elta hina dökku búskmenn. Markvörður tékka var í hreinni akkorðsvinnu við að verja boltann eftir hina eitursnöggu sóknarmenn Ghana. Það yrði skemmtilegur úrslitaleikur ef Brassarnir og mættu Ghönunum. Ég yrði ekki hissa á að sá leikur yrði í járnum.

Núna á miðvikudaginn er ég svo búin í prófunum og þá gefst mér tími til að fylgjast betur með keppninni. Reyndar er sjónvarpið eitthvað að hrekkja okkur með lélegum myndgæðum og “snjó” sem gerir áhorfið hálf dapurt. Ég þarf orðið að hlusta eftir fagnaðarlátum nágranans til að vera viss um að mark hafi verið skorað. En kannski er þetta lán í óláni og Sonja fæst kannski til að leyfa kaup á svona eitt stk. Flatskjá, fyrir 16 liða úrslitin. Þrusu tilboð í augnablikinu, sem erfitt er að hafna, og þá myndi maður nú kippa einum DVD spilara með.

... ekkert vit í öðru.!

föstudagur, júní 16, 2006

Þeir voru ansi tussulegir

...þessir fræknu kappar sem eftir ævintýri næturinnar lögðust til hvílu á tröppum brauta-stöðvarinnar síðastliðinn sunnudags-morgun. Veðrið var eins og best var á kosið, steikjandi hiti og brakandi sólin. Það var því heppilegt fyrir þá að þeir höfðu látið undan bakkusi í skugganum og það nánast í fanginu á hverjum öðrum.

Er ég gekk framhjá snemma þennan sunnnudag á leiðinni í skólann gat ég ekki annað en brosað útí annað. Þeir voru smá krúttlegir greyin, svona eilífðar-eighties kallar á fertugsaldri. Ég ímyndaði mér atburðarás næturinnar hjá þessum alvöru djömmurum, þar sem veigarnar hefðu flotið í stríðum straumi innan um hlátrarsköll og dónatal. Þeir hafa svo ætlað að taka strætó heim, sest niður, kannski með jónu og bjór og beðið. Svo hefur sólin komið upp og einn þeirra byrjað geispa, sötrað síðast sopann og lokað augunum. Svo koll af kolli hafa þeir lognast útaf inn í draumalandið, þar sem þeir vinna í lottó, segja upp lyftaradjobbinu, eru kvennaljómar og íþróttastjörnur.

...En sunnudagurinn veitir enga náð, sama hversu sólin skín. Veruleikinn vekur með hrjúfum hrammi og vasinn á gallabuxunum er tómur, sama hversu vel er leitað.

12 dagar.

Það eru liðnir 14 dagar frá síðustu færslu. Getur verið að loftið sé að fara úr þessu bloggdæmi.? Eða er kofinn galtómur hjá hinum þykka íslendingi.?

Nei, ástæðan eru annir og aftur annir. Annir og appelsínur eins og maðurinn sagði.!

Mikið að gera í vinnunni og enn meira að gera í skólanum, svo er síðustu kröftunum eytt heimafyrir. En nú fer maður að sólar aftur, prófin bráðum búin og mesta pressan farin af í vinnunni, og síðast en ekki síst er heimilisfólkið orðið sæmilega heilsuhraust.

...það var einmitt það.

sunnudagur, júní 04, 2006

tónar frá Stavanger í Noregi

Það er ekki oft sem maður verður fyrir trúarlegri upplifun, upplifun sem snertir alla strengi líkamans og lyftir manni á æðri stig. Það gerðist þó á föstudaginn síðastliðinn, að ég varð fyrir einni slíkri. Ég var að vinna að hönnunarverkefni með hópnum mínum heima hjá einum nemendanum þegar ég rak augu diskasfnið "the october trilogy" með hinum 25 ára gamla norðmanni Thomas Dybdahl. Ég hafði lesið mér til um Thomas og heyrt nokkur lög í útvarpinu en ekki hrifist sérstaklega með. Ég bað um að fá að setja diskana á fóninn, sem ég fékk. Og þvílík upplifun!, fyrsta lagið "one day you´ll dance for me New York city" af samnefndri plötu, hreif mig upp í hæstu hæðir. Ég man ekki eftir að hafa upplifað neitt í líkingu við þetta síðan ég heyrði "ágætis byrjun" með Sigurrós á rúntinum með Óla golla fyrir 7 árum.

Plöturnar í þessu safni eru 3 og hafa allar verið gefnar út í október mánuði. Lögin eru róleg og einföld, fyllt einhverri ljúfsætri angurværð og byggð upp á dramatískan hátt. Thomas er "singer & songwriter" og spilar sjálfur á gítar. Ljúfir og langdregnir hammondhljómar, ásamt tæru gítarspilinu, er oftar en ekki uppistaðan í lögunum, ásamt píanói og bassa. Rödd Tómasar er svo virkilega ljúf og dramatísk. Oft eru lögin eilítið jössuð, með trompetleik eða með áhrifum frá Neil young, Jeff Buckley og hinni amerísku singer/songwriter arfleið. Thomas hefur svo sjálfur til dæmis sagt að lögin á plötunni "stray dogs" eigi að endurspegla eitthvert eirðarleysi sögupersónunnar Cecilie.

Ekki er hægt að segja annað en um sé að ræða hreinastu snilld hjá frændum okkar í Norvegi. Þeir hafa meistrað þessa tegund hinna melankólísku tóna betur en flestir aðrir.

Eftir að hafa heyrt þessar 3 plötur komst einungis eitt að hjá mér: ég varð að eignast safnið. Á leiðinni heim kom ég við í næstu plötubúð, og viti menn safnið var á tilboði og 2 eintök eftir. Að sjálfsögðu tryggði ég mér það.

Diskarnir hafa svo allir verið í tækinu um helgina og hefur fjölskyldan hrifist með. Jón bróðir situr tímunum saman með heyrnatólin, hlustar dreyminn á svip. Meira að segja Óliver setur upp værukæran svip og snýr sér hægt í hringi þegar tónarnir fylla íbúðina.

...3 lógía í október, ...3 is the magic number

Bjarki er 34 ára

Í dag heldur æskufélagi minn hann Bjarki Friðbergsson uppá afmælisdag sinn númer 34. Bjarki er alltaf jafn ungur í anda, þó fari sé að grána aðeins í hinum dökka feldi.

Bjarki er fjölhæfur mjög og birtist það í hinum ýsmustu myndum. Hann spilar á gítar eins og engill, kann betur en flestir á hinn flókna heim tölvunnar og svo berst hann við öldur ægis langt norður í dumbungshafi að hætti forfeðranna.

Í gamla daga var Bjarki aðal Break-dansarinn í víkinni og sýndi líka góða takta í sunlauginni. Hann var svo alltaf mesti mótorhjólatöffarinn á vestfjörðum. Fyrst á 50 cc choppernum og svo á 1100 cc kawa ninja.

Við hérna á ritstjórninni óskum Bjarka til hamingju með daginn.

laugardagur, júní 03, 2006

The wackie paperboy

Hann heitir Jura og er þrítugur Brasilíu-maður. Hann kynntist víst einhverri danskri snót þarna suður í rómönsku Ameríku og elti svo á sér litla mannin hingað til Danmerkur fyrir tveimur og hálfi ári síðan. Nú sér hann um að dreifa Metro-Express blaðinu á ráðhústorginu hér í Köben, og það með miklum tilþrifum.

Ég á leið framhjá honum á hverjum morgni þar sem hann stendur á Horni H.C. Andersens Boulevard og Vesterbrogade og skemmtir vegfarendum. Hann öskrar og gólir, hleypur á eftir fólki, syngur og kemur blaðinu til skila með mikilli akróbatík. Sætar stelpur eru í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Hann á það til að hlaupa að þeim, faðma þær og leika ástsjúkan Rómeó. Margar stelpur faðma á móti og njóta athyglinnar. Virðulegir herrar, fínar frúr, skólakrakkar og buisnessfólk fær svo allt saman skemmtilega meðferð, er það á leið hjá. Hann gerir sér far um að fá brosið fram á varir fólks og tekst iðulega vel til.

Jura er að verða að lifandi goðsögn og stór þáttur í hversdags mannlífi borgarbúa. Nú er svo komið að fólk situr þétt á bekkjunum álengdar til að horfa á þessa stórkostlegu sýningu. Rigning, súld eða snjór er engin hindrun, vegfarendurnir fá sitt blað. Hann hleypur jafnvel á eftir bílunum og kastar blaðinu inn. Fastagestirnir eru margir og fólk heilsar upp á hann í röðum.

Sjálfum finnst mér alltaf jafn gaman að hjóla framhjá honum, einhvern veginn gleymir maður áhyggjum dagsins augnablik og þá er takmarkinu náð, að hans sögn.!

Múslibollur

50 gr blautger
½ ltr volgt vatn
3 mtsk olía
500 gr hveiti
300 gr haframjöl
200 gr sólkjarnafræ
150 gr rúsínur
50 gr hakkaðar heslihnetur
1 mtsk salt

ger og vatn hrært saman. olíu, hveiti og haframjöli bætt útí og blandað vel. að síðustu er er sólkjarnafræum, rúsínum og heslihnetum hnoðað saman við og búnar til 20 bollur. bollurnar eru settar á plötu og látnar hefast á volgum stað í ca 1 klst. Bakist við 250 gráður í 20 mín, hitinn lækkaður í 200 gráður eftir 5 mín. Kælist á rist.

Njótist volgar með smjöri og brómberjasultu og rjúkandi kaffibolla.