sunnudagur, júní 04, 2006

tónar frá Stavanger í Noregi

Það er ekki oft sem maður verður fyrir trúarlegri upplifun, upplifun sem snertir alla strengi líkamans og lyftir manni á æðri stig. Það gerðist þó á föstudaginn síðastliðinn, að ég varð fyrir einni slíkri. Ég var að vinna að hönnunarverkefni með hópnum mínum heima hjá einum nemendanum þegar ég rak augu diskasfnið "the october trilogy" með hinum 25 ára gamla norðmanni Thomas Dybdahl. Ég hafði lesið mér til um Thomas og heyrt nokkur lög í útvarpinu en ekki hrifist sérstaklega með. Ég bað um að fá að setja diskana á fóninn, sem ég fékk. Og þvílík upplifun!, fyrsta lagið "one day you´ll dance for me New York city" af samnefndri plötu, hreif mig upp í hæstu hæðir. Ég man ekki eftir að hafa upplifað neitt í líkingu við þetta síðan ég heyrði "ágætis byrjun" með Sigurrós á rúntinum með Óla golla fyrir 7 árum.

Plöturnar í þessu safni eru 3 og hafa allar verið gefnar út í október mánuði. Lögin eru róleg og einföld, fyllt einhverri ljúfsætri angurværð og byggð upp á dramatískan hátt. Thomas er "singer & songwriter" og spilar sjálfur á gítar. Ljúfir og langdregnir hammondhljómar, ásamt tæru gítarspilinu, er oftar en ekki uppistaðan í lögunum, ásamt píanói og bassa. Rödd Tómasar er svo virkilega ljúf og dramatísk. Oft eru lögin eilítið jössuð, með trompetleik eða með áhrifum frá Neil young, Jeff Buckley og hinni amerísku singer/songwriter arfleið. Thomas hefur svo sjálfur til dæmis sagt að lögin á plötunni "stray dogs" eigi að endurspegla eitthvert eirðarleysi sögupersónunnar Cecilie.

Ekki er hægt að segja annað en um sé að ræða hreinastu snilld hjá frændum okkar í Norvegi. Þeir hafa meistrað þessa tegund hinna melankólísku tóna betur en flestir aðrir.

Eftir að hafa heyrt þessar 3 plötur komst einungis eitt að hjá mér: ég varð að eignast safnið. Á leiðinni heim kom ég við í næstu plötubúð, og viti menn safnið var á tilboði og 2 eintök eftir. Að sjálfsögðu tryggði ég mér það.

Diskarnir hafa svo allir verið í tækinu um helgina og hefur fjölskyldan hrifist með. Jón bróðir situr tímunum saman með heyrnatólin, hlustar dreyminn á svip. Meira að segja Óliver setur upp værukæran svip og snýr sér hægt í hringi þegar tónarnir fylla íbúðina.

...3 lógía í október, ...3 is the magic number

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Greets to the webmaster of this wonderful site! Keep up the good work. Thanks.
»