mánudagur, júní 19, 2006

Eitthvað gáfulegt um HM.

Mér dettur ekki margt í hug, hef þó setið þaulur upp fyrir eyru fyrir framan tölvuna og beðið eftir innblæstri. Ég hef staðið í þeirri trú að ekkert blogg með vott af sjálfsvirðingu, láti það fara hjá sér að nefna HM í fótbolta á síðum sínum. Ekki það að ég hafi ekki áhuga eða álit, neibb hef bara ekki neinn sérstakan vinkil á efnið sem mér finnst geta orðið að sæmandi bloggi. Ég hefi svo ekki getað fylgst með að neinu ráði vegna mikilla anna undnfarið. Ég næ yfirleitt síðasta leiknum hérna á kvöldin, þegar klukkan er að ganga 10 og dagurinn getur varla orðið lengri. Þá er maður geispandi og gapandi frameftir öllu, svo allt í einu verður allt svart og maður vaknar í einhverri snúinni stellingu með, með hálsríg og þurran kjaftinn eftir að hafa útúrslefað allan sófann.

Frá því að ég hef verið smá púki hef ég alltaf haft sérstakt dálæti á HM. Ég man að ég fékk sögu HM í jólagjöf 1982, árið sem ítalir urðu heimsmeistarar. Þá var Paualo Rossi aðalhetjan og minnir mig að mynd af honum hafi verið á forsíðu bókarinnar. Ég átti líka heilan bunka af svona litlum myndum (einskonar leikaramyndir) af hetjunum frá HM, man sérstaklega eftir einni mynd af Bryan Robson umkringdur 8 leikmönnum skoska landsliðsins (eða írska landsliðið) við hornspark. Þá voru bæði skotar og írar með lið í kepninni. Man líka að Belgía var með gott lið á þessum tíma.

Það er einhver ákveðinn ljómi yfir HM, grasið á vellinum er grænna, skemmtilegri áhorfendur á leikvanginum, spennandi dómarar og margt fleira sem gerir þetta að einni allsherjar skemmtun. Á öðrum dögum en HM dögum fengist maður varla til að horfa á leik Alsír og saudi-Arabíu eða lönd eins og Ghana, Fílabeinsströndina, Íran og Ecuador.

Á mótum eins og HM getur allt gerst. Oft eru stóru þjóðirnar of öruggar um sig og eiga í erfiðleikum með einbeitinguna á meðan að leikgleðin og metnaðurinn brennur í augum hinna minni þjóða. Það er ekkert lögmál að litlar þjóðir eiga að tapa fyrir stærri þjóðum. Eins og Guðjón Þórðar sagði einu sinni sem oftar: “það eru 11 leikmenn í hvoru liði og leikurinn byrjar 0-0” og svo er bara að hafa trú á sjálfum sér. Ég held meira að segja að flestir séu með jafnmargar fætur og spili með sama bolta í sama veðrinu. Töluverð einföldun á annars flóknum og ófyrirsjánalegum leik, en sannleikskorn samt sem áður!

Ég sá til dæmis leik Ghana og Tékklands í fyrradag og held svei mér þá bara að Ghana eigi eftir að ná helvíti langt. Þeir spiluðu boltanum hratt og örugglega og tékkarnir komust aldrei inn í leikinn, gerðu ekkert nema að elta hina dökku búskmenn. Markvörður tékka var í hreinni akkorðsvinnu við að verja boltann eftir hina eitursnöggu sóknarmenn Ghana. Það yrði skemmtilegur úrslitaleikur ef Brassarnir og mættu Ghönunum. Ég yrði ekki hissa á að sá leikur yrði í járnum.

Núna á miðvikudaginn er ég svo búin í prófunum og þá gefst mér tími til að fylgjast betur með keppninni. Reyndar er sjónvarpið eitthvað að hrekkja okkur með lélegum myndgæðum og “snjó” sem gerir áhorfið hálf dapurt. Ég þarf orðið að hlusta eftir fagnaðarlátum nágranans til að vera viss um að mark hafi verið skorað. En kannski er þetta lán í óláni og Sonja fæst kannski til að leyfa kaup á svona eitt stk. Flatskjá, fyrir 16 liða úrslitin. Þrusu tilboð í augnablikinu, sem erfitt er að hafna, og þá myndi maður nú kippa einum DVD spilara með.

... ekkert vit í öðru.!

Engin ummæli: