miðvikudagur, júní 28, 2006

Prófunum lokið!

Nú er prófunum lokið, eftir annasaman undirbúning. Undirbúningstíminn byrjaði kringum miðjan maí og síðan hefur verið keyrt nótt sem nýtan dag. Ég var þó aðeins í einum áfanga sem gaf reyndar 30 einingar og reiknaðist sem fullt nám. Áfanginn heitir Tema: landskabsplanlægning og er einn stærsti og mikilvægasti áfanginn í náminu. Hann fjallar að mestu leyti um kenningar og aðferðafræði í landslagsarkitektur og inniheldur fjölmörg ritgerðarskrif og verkefnaskil.

Öll vinna fór fram í hópum sem var skipt upp í fjórgang og síðasta skiptið varaði hópvinnan í 3 mánuði. Hópurinn sem ég var í var óvenju skemmtilegur og gekk samvinnan mjög vel. Hópfélagarnir sýndu öll skilning á aðstæðum mínum þegar Karen Embla veiktist og Sonja varð að vera rúmliggjandi, sem var mér mikils virði.

Síðasta verkefnið var að koma með tillögu að endurskipulagningu á almenningsgarði í Óðinsvéum. Garðurinn heitir Kongens Have og liggur miðsvæðis í borginni og er garður með yfir 600 ára sögu, fyrst sem klausturgarður og seinna sem hallargarður. Garðurinn liggur í dag milli miðbæjarins og aðalbrautastöðvarinnar og er þekktur fyrir að vera staður fyrir hina misjöfnu og einnig sem aðalæð gangandi vegfarenda til og frá brautarstöðinni. Garðurinn liggur í elsta hluta bæjarins og var það mat okkar möguleikranir væru miklir og að hann gæti orðið snúningsás menningar og mannlífs í þessum fæðingarbæ HC. Andersens.

Hönnunarvinnan gekk vel og var óvenju hugmyndarík. Við vorum sátt um að gera höllinni gömlu hátt undir höfði, skipuleggja rýmið á einfaldan og áhrifaríkan hátt og skapa svæði til útiveru. Við vorum einnig ákveðin í að garðurinn þrátt fyrir hið sögulega umhverfi ætti að bera merki um að vera skapaður í 2006, þ.e.a.s. með nútímalegu yfirbrgaði sem hæfði umhverfinu.


Á myndinni sést tillagan sem framkallaði einkun upp á 9 frá kennurum og prófdómurum. Þeim fannst þetta allt saman gott og blessað, og fannst þetta mjög raunhæf tillaga. En verkefnið var einfalt, þó úthugsað sem dró lítið eitt niður í einkunnagjöf. Við vorum þó öll sátt við niðurstöðuna og að vera búin að ljúka þessum stóra áfanga.

Prófdómarinn hér Søren Robert Lund og er nokkuð þekktur arkitekt hér í Danmörku. Hann var frekar aggresívur í spurningum sínum og krafðist skýringa á hinu og þessu. Hann benti á okkur eitt og eitt þar sem við stóðum eins og hjörð á leið til aftöku uppi á sviði fyrir framan fullan salinn og lét okkur svara fyrir hina ýmsu hluti í tillögunni. Við sluppum öll ómeidd frá því, þrátt fyrir að hjartslátturinn hafi aukist um nokkur hundruð snúninga þegar feitur visifingur hans benti á mann og tryllingsleg augun ætluðu að brenna sig í gegnum hnausþykk gleraugun. Eftir prófið buðu nokkrir samnemendur uppá kampavín og gúmmulaði. Seinna sama dag var farið út að borða með hinum hópnum sem kláraði sama dag og drukkið nokkuð magn af bjór.

Nú er sumarið og allt tilheyrandi formlega byrjað, og önnur verkefni litu dagsins ljós.

Engin ummæli: