föstudagur, júní 16, 2006

Þeir voru ansi tussulegir

...þessir fræknu kappar sem eftir ævintýri næturinnar lögðust til hvílu á tröppum brauta-stöðvarinnar síðastliðinn sunnudags-morgun. Veðrið var eins og best var á kosið, steikjandi hiti og brakandi sólin. Það var því heppilegt fyrir þá að þeir höfðu látið undan bakkusi í skugganum og það nánast í fanginu á hverjum öðrum.

Er ég gekk framhjá snemma þennan sunnnudag á leiðinni í skólann gat ég ekki annað en brosað útí annað. Þeir voru smá krúttlegir greyin, svona eilífðar-eighties kallar á fertugsaldri. Ég ímyndaði mér atburðarás næturinnar hjá þessum alvöru djömmurum, þar sem veigarnar hefðu flotið í stríðum straumi innan um hlátrarsköll og dónatal. Þeir hafa svo ætlað að taka strætó heim, sest niður, kannski með jónu og bjór og beðið. Svo hefur sólin komið upp og einn þeirra byrjað geispa, sötrað síðast sopann og lokað augunum. Svo koll af kolli hafa þeir lognast útaf inn í draumalandið, þar sem þeir vinna í lottó, segja upp lyftaradjobbinu, eru kvennaljómar og íþróttastjörnur.

...En sunnudagurinn veitir enga náð, sama hversu sólin skín. Veruleikinn vekur með hrjúfum hrammi og vasinn á gallabuxunum er tómur, sama hversu vel er leitað.

Engin ummæli: