sunnudagur, júlí 02, 2006

Flutningur ...ein hending I. hluti

Sem stendur standa yfir flutningar hér hjá fjölskyldunni. Ætlunin er þó ekki að flytja langt, nánar tiltekið fer allur flutningurinn fram innan heimilisins. Við foreldrarnir ætlum að skipta um herbergi við Karen og fara sjálf í hennar herbergi. Karen og Óliver verða þannig með stóra herbergið en við, mamman og pabbinn ásamt tilvonandi erfingja látum okkur nægja að hýrast í litla herberginu.

Þegar plássið er takmarkað reynir á skipulagshæfileika okkar og í þetta skiptið skal mannin reyna, eins og segir í máltækinu.

Við erum þó viss um að þetta takist, en all skal mælt og vegið. Í þessu tilefni fer fram ein allsherjar tiltekt og mörgu minna nýtilegu hent. Ég er þó af gamla skólanum og græt þurrum tárum þegar einhverju heilu er hent, sé verðmæti í öllu. En veruleikinn veitir enga náð, og ef við ætlum að hafa það sæmilega þægilegt á heimilinu verður hreinlega að hreinsa til.

Bækur, föt, skór, húsbúanður og leikföng eru mörg hver á leið undir hina vægðarlausu hönd heimilisfrúarinnar. Allt er sett í svartann ruslapoka og bóndinn sendur með hann útí tunnu. Á leiðinn gefst mér oft tækifæri að sinna innra eftirliti. Ég gramsa djúpt í pokann, og reyni á skynsamlegum tíma að sjá hverju frúin hefur hent. Ég lenti nefnilega einu sinni í því á fyrstu árunum okkar saman, að hún hellti úr fullri skál af dóti ofan í einn ruslapoka í einhverju tiltektaræði, án þess að gá hvað þar væri. Í skálinni voru allskyns gripir frá mér, til dæmis fermingahálsmenið, gullhringur sem ég erfði, ljósmyndir og fleira og síðan hef ég haft varann á mér þegar frúin hentir einhverju.

En það er gott að hún geti tekið af skarið og rýmt til án þess að vera með eitthvað væl eins og undirritaður kemur stundum með. Ég þarf að tileinka mér hæfileikann sem Juan José bekkjarfélagi minn talar iðulega um sem kenndur er við “get over it”. Já, einfaldlega “get over it”, allt er breytingum háð og til að komast framá veginn verður að rýma til fyrir nýjum hlutum.

Á svona tímum verður maður líka að gera upp við sig hvað er það sem skiptir virkilega máli fyrir mann. Holl og góð pæling, og skref fyrir skref kemst maður nær því að sortera allt frá sem ekki er nauðsynlegt að eiga. Það skapar pláss fyrir sálina og einfaldar lífið að eiga fáa hluti segja spekingarnir, og ég efa ekki að það sé rétt.

Allra fyrstu daga mína hér í Danmörku gisti ég hjá Erlu frænku minni, sem bjó með manninun sínum honum Kim. Þau bjuggu í lítilli íbúð og þar var sama upp á teningnum, of margir hlutir á litlu svæði. Á þessum tíma hafði Erla nýlega lesið bók um Feng-shui, og þar var hreinlega staðfest að til að getið notið lífsins verði maður að hreinsa til í sálinni, og fyrsta skrefið er að taka til í kringum sig. Erla sem var með hálfgerðan brjálæðisglampa í augunum fyllti marga ruslapoka af bókum og fötum og senti allt útí tunnu. Sagði svo sjálf að sér liði bara mkið betur. Ég kom að henni þar sem hún var að henda merkilegu riti eftir sókrates um sálina og tryggði ég mér það að sjálfsögðu. Nú býr hún á eyjunni Møn, langt uppí sveit með manninum sínum og strákunum Oliver og Magne. Og þar er er plássið nóg.

Ætli að maður geti ekki fengið svona brjálæðistiltektartimburmenni, þar sem maður sér eftir öllu og er við það að hringja uppí sorpu og biðja þá um að stöðva bræðsluofnana,því maður henti gamla Hard rock bolnum sem kærastinn, keypti í útlöndum á unglingsárunum.?

...Kannski er málið bara að kaupa minna, þá hendir maður minna. ...sem leggst út á dönskunni sem Økologisk og Økonominsk

Afmlisveisla að austurlenskum sið ...og afmæliskveðja að íslenskum

Í gær fórum við fjölskyldan í afmælisboð til hennar Pulendra-devi Kanagasundram, mömmu hennar Lakshi vinkonu Karenar. Pulendra varð fertug á dögunum og bauð til mikillar veislu í almenningsgarði hér í hverfinu. Veðrið var eins og best á kosið, heiður himinn, 28 stiga hiti og ekki bærði blað á grein. Á boðstólnum voru miklar veigar, mestmegnis matur að hætti þeirra Sri-Lanka búa og lítið eitt frá kúltúr hinna fölu skandinava.

Börnin fengu pulsur og gos, og því var svo skolað niður með illa bráðnum ís. Fullorðni hlutinn fékk að bragða á allra handa kræsingum sem hinu Tamílsku sri-Lanka búar eru þekktir fyrir að galdra fram. Matseðill þeirra einkennist oft af sterkum, djúpsteiktum mat eða einhverju dísætu sykurmalli. Í gær var ekkert brugðið útaf vananum og boðið upp á allskyns bollur sem sprungu eins og molotovkokteilar uppí manni eða dísætar sykurleðjur sem maður ætlaði aldrei að ná að kyngja.

En gott var það samt. Þó að maturinn sé það sterkur að maður iðrist í bókstaflegri merkingu daginn eftir, og svíði í lúðrinum, þá lætur maður sig hafa það. Maturinn er góður en einnig er ég viss um að það sé púra ókurteisi að taka ekki við öllu sem rétt er að manni. Ég át þarafleiðandi á mig óþrif í gær og geld það háu verði í dag.

Eftir rúma 3ja tíma veru var frúin orðin þreytt og klukkan orðin margt, kominn háttatími og við fórum heim á leið.

Kvöldið leið svo yfir sjónvarpinu þar sem ég og Karen fylgdumst með æsispennandi leik Frakka og Brasilíumanna á HM. Við sáum Zidane fara á kostum, og myndi mig ekki undra að þessi galdramaður kæmi “le bleu” á efsta pall þar sem hann tæki við styttunni frægu. Reyndar hafa Frakkar alltaf verið ótrúlega mistækir á svona stórmótum og ekki alltaf spilað skemmtilegan bolta, en í spilið í gær var oft á tíðum augnakonfekt.

Síðasta verk dagsins var svo að senda honum Kalla Hallgríms æsku- og bekkjarfélaga afmæliskveðju. Ég var hálfsofnaður þegar ég mundi allt í einu að dagurinn í gær hét 1. júlí. ...ekkkert annað að gera en að senda karlinum kveðju sem er löngu orðin föst hefð. Það er þannig að við vorum 3 úr gamla bekknum sem eigum afmæli 1. dag mánaðar og hef ég haft fyrir hefð að senda hinum tveimur alltaf kveðju, og fæ að sama skapi kveðju frá þeim. Lítil, en skemmtileg hefð sem hefur eins og margt annað, tilfinningalegt gildi.

...og var ekki alltaf verið að tala um tilfinningagreind

Gangskör ...eingin hending

Í morgun var tekinn gangskör í tiltekt hér á heimilinu. Heimilisfaðirinn réðst á geymsluna yfirfullu á meða húsfreyjan tók til við að grisja hin alltof-mörgu leikföng heimasætunnar. Sonja stjórnaði þessari fraamkvæmd með myndarbrag og tók hraustlega til hendinni. Hún sendi bóndann til að takast á við 3ja höfða drekann í kjallaranum. Geymslan er nefnilega orðin að fyrirbæri sem við forðumst bæði eins og heitan eldinn og er heldur ill yfirferðar. Ekki er laust við að hún versni í hvert sinn sem maður hróflar við henni, það vex á hana nýtt höfuð eða tvö eins og á drekanum.

Hún er er ekki stór og voldug, nei en hræðileg samt. Í gegnum tíðina höfum við sprengt öll eðlislögmál og komið meiri efnismassa fyrir á þessum örfáu rúmmetrum en vitað er að hafi gerst áður.

Verkefni var því ærið og riddaranum hlýtur að vera sæmd að því að taka áskoruninni og ráðast til atlögu. Og án þess að henda nokkru sem tekur að nefna náðist að koma skipulagi á hlutina.

Sonja sem hendir öllu heillegu án þess að blikka auga snéri blaðinu við með hressilegum hætti í dag. Bóndinn ætlaði að henda fyrirferðamikilli og ódýrri Ikeahillu-dralsi, til að rýma fyrir einhverju nýtilegu, mætti að sjálfsögðu húsfreyjunni á leiðinni í ruslagáminn og var snúið við á punktinum.

Hún sat í hitabrælunni með börnunum og gæddu þau sér á ís, og á milli unaðsstunanna yfir ísátinu, kom hún því hressilega til skila að þessi hilla væri hennar og ég skildi koma henni fyrir aftur, "hentu þá bara einhverju öðru, ..eins og gömlu glósunum þínum.!" sagði frúin með hálflokuð augun og sleikti út um.

Nei, ég hendi aldrei þessum glósum, í þeim liggur þjáning og vottur um áræðni og löngu gleymdan sjálfsaga sem mun rifjaður upp seinna meir. Þarna eru kannski ekki nein framúrskarandi vísindi eða ómetanlegar skriftir, þarna er hinsvegar eina sönnun efnisheimsins á þeirri vitneskju sem ég hef aflað mér á hinni stórgrýttu skólagöngu. Hefur því öðlast tilfinningalegt gildi fyrir labbakútinn.

hendi þeim aldrei! ...over my dead body