sunnudagur, júlí 02, 2006

Gangskör ...eingin hending

Í morgun var tekinn gangskör í tiltekt hér á heimilinu. Heimilisfaðirinn réðst á geymsluna yfirfullu á meða húsfreyjan tók til við að grisja hin alltof-mörgu leikföng heimasætunnar. Sonja stjórnaði þessari fraamkvæmd með myndarbrag og tók hraustlega til hendinni. Hún sendi bóndann til að takast á við 3ja höfða drekann í kjallaranum. Geymslan er nefnilega orðin að fyrirbæri sem við forðumst bæði eins og heitan eldinn og er heldur ill yfirferðar. Ekki er laust við að hún versni í hvert sinn sem maður hróflar við henni, það vex á hana nýtt höfuð eða tvö eins og á drekanum.

Hún er er ekki stór og voldug, nei en hræðileg samt. Í gegnum tíðina höfum við sprengt öll eðlislögmál og komið meiri efnismassa fyrir á þessum örfáu rúmmetrum en vitað er að hafi gerst áður.

Verkefni var því ærið og riddaranum hlýtur að vera sæmd að því að taka áskoruninni og ráðast til atlögu. Og án þess að henda nokkru sem tekur að nefna náðist að koma skipulagi á hlutina.

Sonja sem hendir öllu heillegu án þess að blikka auga snéri blaðinu við með hressilegum hætti í dag. Bóndinn ætlaði að henda fyrirferðamikilli og ódýrri Ikeahillu-dralsi, til að rýma fyrir einhverju nýtilegu, mætti að sjálfsögðu húsfreyjunni á leiðinni í ruslagáminn og var snúið við á punktinum.

Hún sat í hitabrælunni með börnunum og gæddu þau sér á ís, og á milli unaðsstunanna yfir ísátinu, kom hún því hressilega til skila að þessi hilla væri hennar og ég skildi koma henni fyrir aftur, "hentu þá bara einhverju öðru, ..eins og gömlu glósunum þínum.!" sagði frúin með hálflokuð augun og sleikti út um.

Nei, ég hendi aldrei þessum glósum, í þeim liggur þjáning og vottur um áræðni og löngu gleymdan sjálfsaga sem mun rifjaður upp seinna meir. Þarna eru kannski ekki nein framúrskarandi vísindi eða ómetanlegar skriftir, þarna er hinsvegar eina sönnun efnisheimsins á þeirri vitneskju sem ég hef aflað mér á hinni stórgrýttu skólagöngu. Hefur því öðlast tilfinningalegt gildi fyrir labbakútinn.

hendi þeim aldrei! ...over my dead body

Engin ummæli: