föstudagur, apríl 27, 2007

Jóhann Jóhannsson

Ég keypti mér nýverið geisladisk sem ber nafnið ibm 14c1, a users manual, sem inniheldur tónverk í 5 hlutum eftir Jóhann Jóhannson. Þessi diskur fékk alveg frábæra dóma hér í Danmörku, sem varð til þess að síðustu krónurnar voru hífðar upp úr slitnum gallabuxunum og réttar Þórhalli í 12 tónum.

Tónlistinn á disknum leggur einfaldlega línurnar fyrir nútímavæðingu klassískar tónlistar. Tónlistin er dramatísk, ljóðræn og poppuð í senn sem fær hárin til að rísa í hrifningu.

Ein bestu tónlistarkaup það sem af er ári.

mánudagur, apríl 23, 2007

pínlegar kóngasleikjur

Það fór hrollur um mig um daginn þegar ég sá krónprinsinn segja frá fæðingu dóttur sinnar fyrir framan stóran skara af blaðmönnum og ljósmyndurum. Honu þótti þetta augljóslega óþægilegt og skammaðist sín fyrir athyglina sem þessir þörfustu þjónar samfélagsins sýndu fæðingunni. Það krepptust tærnar á mér yfir þessari slepju og upphefð á venjulegu mennsku fólki sem eignast börn eins flestir aðrir.

Svo klikktu blöðin út með að helga 15-20 síðum undir fæðinguna. Langar greinar voru skrifaðar um hugsanlegt nafn, hverjir höfðu fæðst sama dag, hvernig yrði að vera litla systir, hvernig yrði fyrir bróðirinn að vera stóri bróðir, og álíka innantóm umfjöllun og spekulasjónir um ekki neitt. Merkilegast er þó að fagfólk úr hinum ýmsu fögum stendur í röðum til að ræða þetta við pressuna, eins og um stóra samfélagslega krössgötu sé að ræða.

Mér hefur alltaf fundist það bera vott um lélega þjóðernisvitund, sjálfsmat og síðast en ekki síst hundslega hlýðni að aðhyllast konungsríkjum. Það er ótrúlegt að þróuðustu samfélög heimsins skuli aðhyllast svona ævagamla stofnun sem ekki snýst um annað en lífstíl og lúxus, borið á baki hryllilegrar og blóði drifinnar sögu.

Niður með konungsdæmin.

Greene gerir hosur sínar grænar

Karlinn hann Charles Greene er ekki af baki dottin með að útvega mér 8 milljónir punda. Hann sendi mér langt bréf um það hvernig við ættum að aðhafast gagnvart bankanum til að ná út þessum miklu fjármunum. Ég á að þykjast vera ættingi hins látna og gera kröfu í reikningana í hans nafni. Þetta er með öllu áhættulaust að hans sögn en verður að fara hljóðlega. Ég á víst að senda honum vegabréfið mitt og aðrar upplýsingar. - fyrir 8 mio. pund getur hann líka fengið sundskírteinið mitt ef því er að skipta.

Kannski að ég biðji um það sama, sjáum hvað setur.!

sunnudagur, apríl 15, 2007

sól og hiti, Óliver á hlaupum og ein æskuminning.!

Í dag líkt og síðustu daga hefur veðrið verið með eindæmum gott. Hitinn hefur slagað upp í 25 stig, himininn heiður og blár og blíður andvarinn bært nýútsprungnum laufblöðum trjánna. Danir sem elska sumarið meira en nokkurt annað, umbreytast úr fölu og kappklæddu vetrarhyski í kosmópólitískt, léttklædd happycrowd með roða í kinnum.

Eftir körfuboltaleikinn hjá Karen Emblu á hinni stríðshrjáðu Norðurbrú röltum við fjölskyldan öll niður í miðbæ. Við slentruðum aðeins um og ákváðum að kaupa og skyndibitamnat og koma okkur fyrir í Kongens Have og leyfa krökkunum að tæta á grasvíðáttunum sem þar eru. Og við vorum víst ekki þau einu sem voru í þeim hugleiðingum. Í garðinum sátu trendís og minna trendís í hundraða eða þúsundatali líkt og keisaramörgæsirnar á suðurskautslandinu og kastaði frisbíum, sparkaði um með sandsekkjum, drakk hvítvín, las bækur, át samlokur, spilaði betanque og síðast en ekki síst bara var á staðnum með sitt lúkk.

Við komum okkur fyrir við stórt kirsuberjatré í fullum blóma og lögðum undir okkur síðasta lausa bletinn, snæddum ítalska böku og drukkum djús með.

Óliver fékk stórkostlegt víðáttubrjálæði og ætti um grundir og haga á leifturhraða. Hann hljóp bara í eina átt, í burtu! -og án þess að líta við. Flagsandi og gyllta faxið hvarf hvað eftir annað innan um trén og mannfjöldann og ég fann hvernig magasárið byrjaði að kræla á sér á hröðum eltingarleiknum. Kappin leit aldrei um öxl, heldur einsetti sér að hrella allar þær dúfur og smádýr sem urðu á vegi hans og að koma sér sem lengst í burtu. Hann hrasaði, meiddi sig, missti öll sín prik og spítur en ekkert virtist stöðva hann. Eitt auganblik leit hann þó við, en sá mig ekki og hélt samt áfram. Ég náði kappanum þegar hann var að fara útúr garðinum, og þá varð hann nokkuð smeykur og setti á sig smá skeifu, það var eins og hann vissi að hann var einn og týndur. En virtist þó borubrattur, með prik í öllum vösum og sár á olnbogunum.

Hann hefur þetta víst úr föðurættini. Ég var víst bundinn við snúrustaurinn á sama aldri þegar ég bjó á grundunum í víkinni, var víst alltaf æðandi um allt. Foreldrarnir mínir voru víst smeykir um að ég dytti ofan í eina loðnuþrónna í síldarverksmiðjunni, en við bjuggum víst ekki nema um 5 metra frá þeim. Ég man alltaf eftir hvað bærinn handan árinnar heillaði, ég slapp einhvern tíman úr prísundinni og komst alla leið út að skíli. Ég hafði aldrei séð aðra eins dýrð, hvítt sjúkraskílið var umlukið dýrðlegum ljóma þar sem ég stóð við pósthúsið eða EG. Ein af mínum allra fyrstu æskuminningum.

Charles Greene býður mér 30% af 25 miljónum punda

Ég fékk fyrir nokkrum dögum sent bréf á mailið mitt frá manni sem kallar sig Charles Greene. Hann segist í bréfinu vera einhversskonar fulltrúi (Senior Audit Oficer) hjá bresku bankasamstæðunni National Westminster bank. Karlinn hann Charles segist vera í smá vandræðum með 25 milljón pund sem hann býður mér nærri þriðjung af, gegn minniháttar greiða. Peningarnir eru sjóðir manns sem lenti í flugslysi ásamt allri fjölskyldu sinni fyrir tæpum átta árum og verða eign breska ríkisins ef enginn gerir kröfu til þeirra innan átta ára. Já, þetta eru mikil vandræði hjá karlgreyinu, og að sjálfsögðu ekkert annað gera en að senda úrræðagóðum íslensku námsmanni beiðni um aðstoð.

Ég ætla að senda mr. Greene bréf til baka og sjá hvert þetta leiðir.

föstudagur, apríl 13, 2007

fyrstu flutningskassarnir

Þá eru fyrstu flutningskassarnir komnir í hús. Þetta eru nokkur tímamót, þótt þau hafi gengið hljóðlega fyrir sig með næstum hversdagslegum blæ. Með kaupunum á þessum kössum markast upphafið að endalokum 6 ára dvalar okkar hér í kaupmannahöfn. Ætlunin er að reyna selja íbúðina í sumar og vera flutt heim fyrir haustið, áður en skólarnir byrja. Það er umfangsmikið verkefni og ærið að flytja allt hafurtaskið yfir hafið, að ekki sé talað um að pakka öllu niður og koma fyrir í gám. Íbúðina þarf líka að snurfusa og ýmislegt að lagfæra áður en hún verður sett á sölu og falsett fyrir hæstbjóðenda. Reyndar er fasteignamarkaðurinn í smá lægð í augnablikinnu og ekki séð fyrir um endanlega verðsetningu og hagnað af sölunni.

Í dag birtust fréttir í Börsen að fólk væri farið að bjóða hinn ýmsa varning í kaupbæti til að lokka til sín kaupendur og það er aldrei að vita að maður verði að fara þá leið. Það er þó ekki þannig að ekki sé hægt að losna við eignirnar, heldur er verðsetningin há og menn tregir til lækkunar og þá eru önnur meðul notuð eins og áðurnefnd gylliboð.

En við erum samt í óða önn að skanna hverfi höfuðborgarsvæðisins í leit að heppilegu húsnæði til næstu ára og það er ýmislegt í sigtinu. Hugmyndin er svo að athuga með möguleika á að byggja eftir svona 1-2 ár, ef það verður einhver glóra lóðarverðinu.

Það verður þó með nokkrum trega sem ég kveð þessa gömlu herraþjóð og lendur þeirra. Hér er gott að vera og að mörgu leyti manneskjuvænt samfélag þar sem frítími og samvera er í öndvegi. Það er vonandi að maður flytji eitthvað af þeirri stemningu með sér.!

Á réttri leið

Fyrir rúmum mánuði byrjuðum við hjónin í líkamsrækt, svona rétt til að tjúna blöndunginn og hrista af sér slenið. Það var ekki að spyrja að undir-rituðum, keppnisskapið leyndist eins og eldfjall undir þykkum skrápnum og braust út við fyrstu skref á hlaupabrettinu.

Þó skrefin hafi verið þung, og gamli íþróttagallinn þröngur gafst maður ekki upp. Nú hef ég sett markið hátt og kílóin rasla af, eru þau orðin 7 talsins sem lent hafa sem saltur sviti í klæðum.


Nú er róðratímabilið að hefjast hér í Danmörku og ekki seinna að vænna en að koma sér í horf fyrir tímabilið ætli maður sér að vera með. Ég hef verið duglegur í róðrarvélunum síðustu 6 vikurnar og bætt mig um 20 sek. á 2000 metrunum í hvert skipti sem ég tek tímann. Í gær réri ég svo 2000 mtr. á 07:22:8 mín, sem er bara ansi góður tími. 07:13:5 hefði nægt í 3. sætið á DM í fyrra í flokki 30 - 39 ára. En stefnan er sett á að komast undir 7 mín fyrir 1. maí.


Einhversstaðar á vegg í gömlum æfingarsal stendur "pain is only temporary, pride is forever"

Af börnunum

Veikindin sem herja á heimilisfólkið gera það ekki endasleppt. Í gær tókum við eftir nokkrum dílum sem Óliver var komin með á bakið og brjóstið. Dílunum tók að fjölga hratt og urðu stærri, jú kappin er komin með hlaupabóluna. En hann er ferskur og hress, brosir jafn breitt og áður, eilítið lystarlaus en annars bara góður. Þessari törn fer vonandi að ljúka, vorið hefur gert innreið sína og um að gera að "da familí" verði klár til útivistar hið fyrsta.

Á sunnudaginn á Karen Embla að spila körfuboltaleik uppi á Nörrebro. Daman er að taka miklum framförum og er farin að hitta á körfuna lengst utan af velli, svo er hún komin með nokkkur góð trikk sem hún hefur æft upp sjálf hérna úti í garði. Hún segist sjálf stefna að því að spila í Íslenska landsliðinu og verða heimsmeistari. Um að gera setja markið hátt.!

Fyrsta tönnin


Litla daman hún Ísabel Ósk er komin með fyrstu tönnina. Það var að sjálfsögðu skýring á öllum kláðanum í gómnum og slefið. Nú fer að koma mynd á brosið.
En annars er daman óðum að jafna sig eftir hlaupabóluna og hlakkar til að komast út í sólina.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Vandræði með I-tunes.

Ég sótti I tunes forritið af netinu um daginn, fullur væntingar um að loksins geta notið allrar tónlistarinnar í tölvunni með betra móti. Ég hef komið mér upp dágóðu safni af tónlist, bæði tónlist sótt af netinu og af diskum úr hillunni. Ég hafði komið þessu fyrir í snilldarfyrirkomulagi í windows möppukerfinu, eitthvað sem útheimti töluverða vinnu og ég var stoltur af. En eftir að ég hlóð þessu inn á I tunes og gerði hann að standard spilara, þá riðlaðist þetta allt. Forritið fór inn í möppustrúkturinn og gjörbreytti fyrirkomulaginu, fjölgaði möppunum ú 300 í 710 og breytti nöfnum á öllu klabbinu og svona lagað er ekki gott fyrir svona þverhaus eins og mig.

Það er skemmst frá því að segja að ég varð frekar súr, langaði helst að kveikja í tölvuhræinu. En tónlistin er þarna enn og það er fyrir öllu. En nú verð ég að undirleggja mig möguleikum forritsins, sem eru ekki ýkja margir í ókeypis útgáfunni og sætta mig við það. Og þessi vegferð okkar tveggja byrjar ekki par vel, hatursamband af minni hálfu.

Ég kalla eftir betri spilara...! ...hann má ekki kosta.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Þegar botninum er náð

Sunnudagurinn leið með sínu sniði eins og á flestum íslenskum heimilum á páskadag. Við fengum send páskaegg frá tengdarforeldrunum í funafoldinni og var þeim komið haganlega fyrir á sínum felustöðum snemma þennan morgun. Eftir góða súkkulaðiveislu féll ró yfir mannskapinn, en heimilisfaðirinn fékk holskeflu af samviksubiti yfir sig og dreif sig í ræktina. Ég get þó ekki mælt með því við nokkurn mann, það fer ekki vel saman að hlaupa 5 km á hlaupabretti með garnirnar fullar af súkkulaði sem óðast vill út, í hvaða formi sem er.

Ég hafði þetta af og komst meira að segja í róðrarvélarnar og setti nýtt persónulegt met í 3 x 2000 mtr.

Seinna um daginn tók ég til við botninn á egginu sem að venju er það síðasta sem maður étur. Þessir botnar eru ekki orðnir að neinu. Ég man í æsku þegar botninn á þessum eggjum var hálfönnur tomma á þykkt og súkkulaðið svo massívt að erfitt var að í tönn að festa. Þá átti maður eggið langt fram eftir vikunni í ísskápnum og dró þannig páskahátíðina á eftir sér fram undir helgina. En nú vigta þeir nói og síríus allt gúmmulaðið gaumgæfilega ofan í forminn og pakka innvolsinu inn í plast. Meira segja er búið að nútímavæða málshættina, horfnir eru "allt er hey í harðindum" og "fjarlægðin gerir fjöllin blá" og inn eru komnir málshættir sem eiga að vera svona fortune cookie spádómsbull. Hvar enda þessi ósköp.?

laugardagur, apríl 07, 2007

Þemavika

Um það leyti þegar veikindin helltust yfir okkur fjölskylduna voru þemadagar í skólanum hennar Karen. Í eina viku voru krakkarnir látnir vinna eins og gjaldgengir samfélagsþegnar í ákveðnum störfum innan skólans. Starfið þurfti að sækja um og börnin þurftu að fara í viðtal við vinnuveitandann, sem í flestum tilvikum voru kennararnir. Krakkarnir fengu svo greidd laun fyrir framlag sitt og urðu að mæta á réttum tíma til vinnu ella vera hýrudreginn.


Karen tók þetta allt mjög alvarlega eins og henni er einni lagið. Hún heimtaði að fá að fara á fætur klukkan 06:00, fara í sturtu og gera sig klára. Skvísan fékk starf á kaffihúsi skólans og var alla vikuna að baka og gera klárt fyrir lokadaginn sem var á laugardeginum. Þann dag var öllum foreldrum og ættingjum boðið á einn allsherjar markað.



Fjölskyldan mætti öll á svæðið í blíðskaparveðri og naut dagsins. Á markaðnum var allt milli himins og jarðar á boðstólnum, vörur sem nemendurnir höfðu búið til.

Óliver var að jafna í góðum gír eins og ávallt í fjölmenni og fann sér ýmsar glæfrakúnstir sér til dundurs og foreldrum til ama.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Landafræðikennslan

Á minni brösóttu göngu í gegnum skólaskylduna þá þótti mér alltaf gaman að landafræði og öðrum líkum fögum þar sem maður lagði á minnið allrahanda staðreyndir. Þetta voru oftast örnefni, fjöldi manna og dýra, staðarhættir, og hæð og lengd náttúrufyrirbrigða. Landafræði Íslands kunni ég uppá "10", gat talið upp alla stærri firði og víkur strandlengjunnar utanbókar í réttri röð, og ekki vafðist heldur fyrir manni árnar, fossarnir og fjöllinn.

En samt sem áður stóð ég á gati fyrr í kvöld þegar ég las fréttina um slasaða vélsleðamanninn sem slasaðist við Stokköldu. Blaðamaður moggans gat sér réttilega um að ekki mundu allir kannast við Stokköldu og nefndi þess vegna að það væri gegnd Rauðkoll, til að hjálpa lesendum við að staðsetja atburðina. En hvorugar upplýsingar færðu mig feti nær því að átta mig á hvar slysið varð.

Ég er þó nokkuð viss um að þetta sé á hálendinu, en ég er einn af þeim sem ekki hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ætt þar um grundir. Ég gerði þó eina tilfinningaþrungna tilraun við að komast í landmannalaugar á agnarsmáum pegout í tilhugalífinu með konunni, hér um árið. Við komumst lengra en flestir trúðu, þó ekki alla leið, en það kom ekki að sök því sumarnóttin var ægifögur þar sem við áðum við drullugan snjóskafl og gengum á fjöll.

Það var örugglega ekki við Rauðkollótta Skottu.

Á réttum kili

Loksins er útlit fyrir að heilsa fjölskyldumeðlimana sé að komast á réttan kjöl. Þetta hefur verið nokkuð strembið og við ekki getað verið mikið úti fyrir eða sinnt hinum ýmsu skildverkum. Veðrið heur verið með eindæmum gott og við höfum að mestu leyti notið þess með að góna út um gluggann.

En nú erum við hjónin komin í ræktina aftur, krakkarnir hættir með hóstaköstin og hlaupabólan að hjaðna. Sem sagt allt á réttri leið.