föstudagur, apríl 13, 2007

fyrstu flutningskassarnir

Þá eru fyrstu flutningskassarnir komnir í hús. Þetta eru nokkur tímamót, þótt þau hafi gengið hljóðlega fyrir sig með næstum hversdagslegum blæ. Með kaupunum á þessum kössum markast upphafið að endalokum 6 ára dvalar okkar hér í kaupmannahöfn. Ætlunin er að reyna selja íbúðina í sumar og vera flutt heim fyrir haustið, áður en skólarnir byrja. Það er umfangsmikið verkefni og ærið að flytja allt hafurtaskið yfir hafið, að ekki sé talað um að pakka öllu niður og koma fyrir í gám. Íbúðina þarf líka að snurfusa og ýmislegt að lagfæra áður en hún verður sett á sölu og falsett fyrir hæstbjóðenda. Reyndar er fasteignamarkaðurinn í smá lægð í augnablikinnu og ekki séð fyrir um endanlega verðsetningu og hagnað af sölunni.

Í dag birtust fréttir í Börsen að fólk væri farið að bjóða hinn ýmsa varning í kaupbæti til að lokka til sín kaupendur og það er aldrei að vita að maður verði að fara þá leið. Það er þó ekki þannig að ekki sé hægt að losna við eignirnar, heldur er verðsetningin há og menn tregir til lækkunar og þá eru önnur meðul notuð eins og áðurnefnd gylliboð.

En við erum samt í óða önn að skanna hverfi höfuðborgarsvæðisins í leit að heppilegu húsnæði til næstu ára og það er ýmislegt í sigtinu. Hugmyndin er svo að athuga með möguleika á að byggja eftir svona 1-2 ár, ef það verður einhver glóra lóðarverðinu.

Það verður þó með nokkrum trega sem ég kveð þessa gömlu herraþjóð og lendur þeirra. Hér er gott að vera og að mörgu leyti manneskjuvænt samfélag þar sem frítími og samvera er í öndvegi. Það er vonandi að maður flytji eitthvað af þeirri stemningu með sér.!

Engin ummæli: