miðvikudagur, apríl 11, 2007

Þegar botninum er náð

Sunnudagurinn leið með sínu sniði eins og á flestum íslenskum heimilum á páskadag. Við fengum send páskaegg frá tengdarforeldrunum í funafoldinni og var þeim komið haganlega fyrir á sínum felustöðum snemma þennan morgun. Eftir góða súkkulaðiveislu féll ró yfir mannskapinn, en heimilisfaðirinn fékk holskeflu af samviksubiti yfir sig og dreif sig í ræktina. Ég get þó ekki mælt með því við nokkurn mann, það fer ekki vel saman að hlaupa 5 km á hlaupabretti með garnirnar fullar af súkkulaði sem óðast vill út, í hvaða formi sem er.

Ég hafði þetta af og komst meira að segja í róðrarvélarnar og setti nýtt persónulegt met í 3 x 2000 mtr.

Seinna um daginn tók ég til við botninn á egginu sem að venju er það síðasta sem maður étur. Þessir botnar eru ekki orðnir að neinu. Ég man í æsku þegar botninn á þessum eggjum var hálfönnur tomma á þykkt og súkkulaðið svo massívt að erfitt var að í tönn að festa. Þá átti maður eggið langt fram eftir vikunni í ísskápnum og dró þannig páskahátíðina á eftir sér fram undir helgina. En nú vigta þeir nói og síríus allt gúmmulaðið gaumgæfilega ofan í forminn og pakka innvolsinu inn í plast. Meira segja er búið að nútímavæða málshættina, horfnir eru "allt er hey í harðindum" og "fjarlægðin gerir fjöllin blá" og inn eru komnir málshættir sem eiga að vera svona fortune cookie spádómsbull. Hvar enda þessi ósköp.?

Engin ummæli: