sunnudagur, apríl 15, 2007

sól og hiti, Óliver á hlaupum og ein æskuminning.!

Í dag líkt og síðustu daga hefur veðrið verið með eindæmum gott. Hitinn hefur slagað upp í 25 stig, himininn heiður og blár og blíður andvarinn bært nýútsprungnum laufblöðum trjánna. Danir sem elska sumarið meira en nokkurt annað, umbreytast úr fölu og kappklæddu vetrarhyski í kosmópólitískt, léttklædd happycrowd með roða í kinnum.

Eftir körfuboltaleikinn hjá Karen Emblu á hinni stríðshrjáðu Norðurbrú röltum við fjölskyldan öll niður í miðbæ. Við slentruðum aðeins um og ákváðum að kaupa og skyndibitamnat og koma okkur fyrir í Kongens Have og leyfa krökkunum að tæta á grasvíðáttunum sem þar eru. Og við vorum víst ekki þau einu sem voru í þeim hugleiðingum. Í garðinum sátu trendís og minna trendís í hundraða eða þúsundatali líkt og keisaramörgæsirnar á suðurskautslandinu og kastaði frisbíum, sparkaði um með sandsekkjum, drakk hvítvín, las bækur, át samlokur, spilaði betanque og síðast en ekki síst bara var á staðnum með sitt lúkk.

Við komum okkur fyrir við stórt kirsuberjatré í fullum blóma og lögðum undir okkur síðasta lausa bletinn, snæddum ítalska böku og drukkum djús með.

Óliver fékk stórkostlegt víðáttubrjálæði og ætti um grundir og haga á leifturhraða. Hann hljóp bara í eina átt, í burtu! -og án þess að líta við. Flagsandi og gyllta faxið hvarf hvað eftir annað innan um trén og mannfjöldann og ég fann hvernig magasárið byrjaði að kræla á sér á hröðum eltingarleiknum. Kappin leit aldrei um öxl, heldur einsetti sér að hrella allar þær dúfur og smádýr sem urðu á vegi hans og að koma sér sem lengst í burtu. Hann hrasaði, meiddi sig, missti öll sín prik og spítur en ekkert virtist stöðva hann. Eitt auganblik leit hann þó við, en sá mig ekki og hélt samt áfram. Ég náði kappanum þegar hann var að fara útúr garðinum, og þá varð hann nokkuð smeykur og setti á sig smá skeifu, það var eins og hann vissi að hann var einn og týndur. En virtist þó borubrattur, með prik í öllum vösum og sár á olnbogunum.

Hann hefur þetta víst úr föðurættini. Ég var víst bundinn við snúrustaurinn á sama aldri þegar ég bjó á grundunum í víkinni, var víst alltaf æðandi um allt. Foreldrarnir mínir voru víst smeykir um að ég dytti ofan í eina loðnuþrónna í síldarverksmiðjunni, en við bjuggum víst ekki nema um 5 metra frá þeim. Ég man alltaf eftir hvað bærinn handan árinnar heillaði, ég slapp einhvern tíman úr prísundinni og komst alla leið út að skíli. Ég hafði aldrei séð aðra eins dýrð, hvítt sjúkraskílið var umlukið dýrðlegum ljóma þar sem ég stóð við pósthúsið eða EG. Ein af mínum allra fyrstu æskuminningum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Gummi minn.
Það þurfti stundum að svipast um eftir litlum stubbum sem stungu af í Víkinni forðum daga.
Innilega til hamingju með daginn og til hamingju með fallegu fjölskylduna þína. Hafið það sem best. Kveðja. Lára og Benni.