fimmtudagur, apríl 05, 2007

Landafræðikennslan

Á minni brösóttu göngu í gegnum skólaskylduna þá þótti mér alltaf gaman að landafræði og öðrum líkum fögum þar sem maður lagði á minnið allrahanda staðreyndir. Þetta voru oftast örnefni, fjöldi manna og dýra, staðarhættir, og hæð og lengd náttúrufyrirbrigða. Landafræði Íslands kunni ég uppá "10", gat talið upp alla stærri firði og víkur strandlengjunnar utanbókar í réttri röð, og ekki vafðist heldur fyrir manni árnar, fossarnir og fjöllinn.

En samt sem áður stóð ég á gati fyrr í kvöld þegar ég las fréttina um slasaða vélsleðamanninn sem slasaðist við Stokköldu. Blaðamaður moggans gat sér réttilega um að ekki mundu allir kannast við Stokköldu og nefndi þess vegna að það væri gegnd Rauðkoll, til að hjálpa lesendum við að staðsetja atburðina. En hvorugar upplýsingar færðu mig feti nær því að átta mig á hvar slysið varð.

Ég er þó nokkuð viss um að þetta sé á hálendinu, en ég er einn af þeim sem ekki hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ætt þar um grundir. Ég gerði þó eina tilfinningaþrungna tilraun við að komast í landmannalaugar á agnarsmáum pegout í tilhugalífinu með konunni, hér um árið. Við komumst lengra en flestir trúðu, þó ekki alla leið, en það kom ekki að sök því sumarnóttin var ægifögur þar sem við áðum við drullugan snjóskafl og gengum á fjöll.

Það var örugglega ekki við Rauðkollótta Skottu.

Engin ummæli: