miðvikudagur, maí 31, 2006

Fagnaðarfundir


Það voru fagnaðar-fundir á flugvellinum í Kastrup á mánudags-kvöldið þegar Jón Hallur bróðir kom frá Íslandi. Karen stökk í fangið á frænda sínum, glöð á svip.

Jón lenti í óskemmtilegri lífsreynslu þegar vélin lenti. Farþegarnir voru allir látnir fara upp í einhverja rútu og þeim keyrt að öryggisbyggingu. Þar var leitað að vopnum og töskur viðkomandi skoðaðar. En þegar 2/3 hluta farþegana hefðu látið leita á sér, og þeim farið að líða eins og ótýndum glæpamönnum á Tyrkneskum flugvelli fyrir 30 árum, kom maður og sagði allt byggt á misskilningi.

Jón komst og náði í töskurnar að lokum, og við heimtum hann úr prísundinni og héltum heim á leið. Það beið okkur nefnilega girnilegar heimabakaðar pizzur frá húsfreyjunni, í tilefni komu kappans úr Bolungarvík.

Jón, ...me casa, su casa

þriðjudagur, maí 30, 2006

Borg hinna mörgu turna.!

Sjálfsánægðir Kaupmannahafnarbúar hafa í áraraðir reynt að festa þessa nafngift við borgina sína. Sem er birtingamynd á einhverri þörf fyrir að skapa sér sérstöðu eða ímynd. Margar borgir hafa einhver ákveðið yfirbragð sem þær eru frægar fyrir, svo sem Prag, París og Amsterdam. Kaupmannahöfn veðjar á turnana, eins og Amsterdam veðjar á sýkin.

Þessa mynd tók Sonja um daginn þegar hún sýndi Lindu móðursystur sinni og Davíð frænda sínum borgina. Þarna sést í þónokkra turna, er reyndar óvenju gott sjónarhorn.

Fyrst þegar ég kom hingað þá tók ég mest eftir hvað voru margir skorsteinar um alla borg. Og þegar ég heyrði og las um þessa sjálfshælni um turnana fannst mér það þvílík öfugmæli. Mér fannst réttara að kalla borgina "borgin með hina mörgu sótspýjur". Reyndar fer skorsteinunum nú fækkandi eftir að lög voru sett, sem bönnuðu uppsetningu á olíukyndingu. Nú kaupa danir rafmagn í miklium mæli frá Svíþjóð og setja á fót miklar framleiðslur á vindorkunni. Svo ekki er þörf á þessari mjög svo mengandi olíuorkuverum.

Kannski í framtíðinni mun borgin geta borið þetta nafn, "borg hinna mörgu turna", þegar grysjað hefur verið nóg í skorsteinafrumskóginum. Tívolíið hjálpar svo til með fjölga turnum í miðbænum, sem hafa reyndar það hlutverk að hræða líftóruna úr sjómönnum að vestan. Svo spretta nútímalegir turnar upp í formi skrifstofuhúsnæðis um alla borg.

Borgarbúum þykir svo vænt um turnana og áhrif þeirra á yfirbragð bæjarins að ekki kemur til greina að hrófla við eina staðnum sem hópur turna sést úr götuhæð Það er grasblettur sem annars er kannski besta byggingalóð bæjarins.

Turnar og ekki turnar, þeir eru þarna allavegana greyin.

mánudagur, maí 29, 2006

Úrslitin

í bæjarstjórnarkosningunum í mínum gamla heimabæ komu kannski ekkert sérlega á óvart. Það gætu þó reyndar gerst þau merkilegu tíðindi að sjálfstæðisflokkurinn verði ekki í meirihluta í bæjarstjórn í fyrsta skpit í 5n$h% ár. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nánast haft áskrift af valdastöðum bæjarins undanfarna áratugi og siðferðsbrestirnir oft eftir því.

Æskuvinur minn hann Gummi Reyniss er sko eldri en tvævetur og er farin að láta til sín taka í bæjarmæalunum. Hann lét sjálfstæðisblokkina heyra það á fundi hafnarstjórnar fyrir stuttu vegna vankanta á ársreikningnum. Þar voru sumir stjórnarmeðlimir sjálfstæðisflokksins greinilega með óhreint mél í pokahorninu og voru ekki mikið fyrir að ræða hlutina og gáfu haldlausar skýringar. Eins og fram kemur í fundargerðum og bókunum stóð Gvendur fastur fyrir og á endanum fékk hann stuðnings frambjóðenda K-listans og núverandi bæjarstjórnameðlimi framboðsins, við sín sjónarmið. Ég hef heyrt á fólki í bænum að þarna hafi rétta eðli frjálshyggjunnar berast, það er að segja, Ég, um mig, frá, mér, til mín.

Þegar sumar fjölskyldur eða viðskiptablokkir finnast það sjálfsagður hlutur að leika sér með hina takmörkuðu sjóði bæjarins, eða finnast hafa unnið til þeirrar hefðar, þá er tími breytinga runnin upp. En oftar en ekki er erfitt að leysa um hina pólitísku fjötra, menn eru oft rígbundnir á hina pólitísku jötu. Oft er svo erfitt að horfa á eftir félagshyggjufólki smeygja sér undir arm fálkans, í von um að fá að gogga með í volga bráðina. Fólki er jú reyndar frjálst að aðhyllast stefnur og strauma, og á það einungis það við sjálfan sig hvað það kýs eða styður. En oft virðist sem svo að þörfin fyrir að tilheyra einhverjum ákveðnum hóp ráði för frekar en skýr pólitísk sýn.

Það er því oft á brattan að sækja í bæjarfélagi eins og Bolungarvík þar sem einungis er verið að berjast um örfá atkvæði. Það eru því þeim mun sterkari skilaboð sem liggja í þessum kosningum, þau að 60 % bæjarbúa vilja ekki sjálfstæðisflokkin við stjórnvölinn á næsta kjörtímabili. Það er krafa um breytingar.

Nú er tími samningaviðræðna, og var ánægjulegt að lesa yfirlýsingar K-listafólksins um að málefnunum verði ekki kastað fyrir róða til að auðvelda lendingu í vör valdsins. Það sem er stjórnmálamanni hvað verðmætast eru prinsippin, það eru þau sem eru hinn mikli áttaviti í ólgusjó dægurmálana. Ég vona að A-lista fólk hlusti á skilaboð fólksins í bænum og verði þeim trú. A-listinn er í þeirri oddastöðu að geta valið sér samstarfsaðila, og á nú hið fornkveðna "oft veltir lítil þúfa þungu hlassi" vel við. Það yrði heillaspor ef núverandi hlass yllti, því það er dragbítur á samfélaginu. Það eru tækifæri til áherslubreytinga, tækifæri til að segja upp hinni pólítísku áskrift og að láta nýja vinda blása.

Gæfan veri með ykkur öllum.

laugardagur, maí 27, 2006

Laugardagur inna dyra.

Veðrið hefur verið svona grátt og leiðinlegt síðustu daga, öðruhvoru koma þó sólstafirnir fram úr skýjunum og ylja sinni og skinni. Kolgrár himinin leysir reglulega hinar ægilegu þrumur og eldingar úr læðingi, með glæringum og braki. Fyrir nokkrum dögum breyttist veðrið á svipstundu, það hvessti á augnabliki og svo varð algert skýfall með hagléli. Á örfáum mínútum varð yfirborð borgarinnar hrímgrátt og margt lauslegt fokið um koll. Það lyngdi svo jafnt snöggt og það hvessti.

Það var þó ekki vegna veðurhræðslu að við ákváðum að vera bara heima fyrir í allan dag. Okkur fannst bara tími til komi að við hefðum það gott og notalegt heimafyrir, svo er Karen Embla illa rólfær sem og Sonja, sem reynir að hvíla sig eftir megni.

Það var þó ekki aðgerðarleysi sem gerði vart við sig, þvert á móti. Við spiluðum, það var teiknað og málað, gerður heimalærdómur, púslað, bakað, hlustað á tónlist, dittað og dundað. Semsagt hin ágætasti dagur í faðmi fjölskyldunnar. Óliver lék sér við sjálfan sig og lét sér ekkert leiðast.

Kaffitíminn bauð svo upp á heitt kakó með rjóma og ilmandi múslibollur til að undirstrika töfrandi stemninguna.

Karen Embla bíður orðið spennt eftir að fá Jón Hall frænda sinn í heimsókn, en von er á honum á mánudaginn. Jón segist sjálfur hlakka til, finnst gaman að koma og sjá litlu frændsystkynin sín, svo finnst honum hann bera blóð til skyldunnar til að hjálpa stóra bóður sínum. Hann er meira að segja að taka sér frí í vinnunni strákurinn. Nú á hann einn inni hjá okkur.

Raggi bróðir bauðst einnig til að koma og hjálpa, en það er auðveldara að níðast á Jóni J og varð hann fyrir valinu. Það er samt ómetanlegt að vita að maður getur treyst á fjölskylduna sína þegar sverfir að og ekki síst þegar maður býr handan hafsins.

...næsta blogg verður örugglega um kosningarnar.!

Á róló

Honum Óliver leiddist ekki í rólunni á rólóvellinum í gær. Pabbinn fór í hressingar-göngu med piltinn, leyfði honum ad spretta úr spori á Sundbyøster leikvellinum og keypti inn handa heimilinu í leiðinni.

Annars var hálfkalt og hrissingslegt veðrið eftir annars gott tímabil, fyrri hluta mánaðarins.

...Hvert ætli sumarið hafi farið ?

Nú fer jón bróðir bráðum ad koma, en hann getur slepp því ad taka skafrenninginn að vestan með sér hingað. Það gildir ekki alltaf hið fornkveðna: always take the weather with you, nei ekki um suddan frá heimaslóðunum.

Nú eru kosningar heima í dag, og um að gera að nýta sér kosningaréttin. Vona að K-listinn í Bolungarvík komist til valda þó að þad sé ekki alltaf öfundsvert starf að stýra bæjarfélagi eins og Bolungarvík. Skuldir eru miklar og ekki bætir úr skák þegar frammámenn í bæjarmálum og viðskiptum gera það að frístunda-hobbíi ad láta bankann og bæinn afskrifa skuldir sínar. Já það eru bara sumir sem eru illa aldnir upp eða illa innrættir, og ekki svosem mikið við því að gera. Svoleiðis fólk á bara ekki að sitja í ábyrgðarstöðum og misnota sameiginlega sjóði fólksins.

...gefdu mér K

Kakósúpa

Kakósúpan sem var elduð hér í kvöld var algert lostæti. Óliver hámaði vel í sig og þegar maginn var fullur ákvað hann að tryggja sér meira magn af súpunni með nudda henni í andlitið á sér. Auðvitað var þeyttur rjómi með og bara það fékk Óliver til að skríkja af gleði.

Ég hef ekki fengið kakósúpu síðan ég fór í óvænta heimsókn til gamla æskufélaga míns hans Kalla Hallgríms, þegar hann bjó á skaganum. Hann og Gréta kona hans töfruðu fram hina ljúffengustu súpu og síðan hefur alltaf einhvern vegin verið takmark hjá mér að elda svona sjálfur.

En það er oft með svona rétti sem eru svo sjálfsagðir og einfaldir að það er erfitt að finna uppskriftir yfir þá, allavegana á netinu. En í dag fann ég eftir töluverða leit eina uppskrift sem hljómaði vel, frá einhverjum leikskóla á Akurreyri. ...og að sjálfsögðu er þetta sáraeinfalt.

Ég fékk svona súpu reglulega þegar ég var á sjó á togurunum og þótti alltaf jafn gott. Súpan var sjaldan á borðstólnum heima, (hefur örugglega þótt of mikið nammi). Þannig að ég naut þess enn meira að geta slafrað svona lúxus í mig, í þéttum valsi með bárum hafsins.

...þessi eldamennska verður örugglega endurtekin.

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.

las Hemmi Gunn í ævintýrinu um Rauðhettu þegar veiðimaðurinn birtist til aðstoðar aðalsöguhetjunni og ömmunni, sem vor fastar í maga úlfsins. Og það eru sko orð að sönnu. Fyrir stuttu hringdi mamma heiman úr víkinni og með ánægjulegar fréttir. Jón Hallur bróðir ætlar að koma hingað út á mánudaginn og aðstoða okkur með börnin og hemilisverkin í 2 - 3 vikur. Eftir þann tíma ætlar hún sjálf að koma og vera eins lengi og þörf krefur.

Svo ætlar tengdamóðir mín að koma seinna í sumar og vera hér þegar nýi fjölskyldumeðlimurinn kemur í heiminn.

Nú þegar próftíminn gengur í garð og ýmis verkefnaskil og ýmis veikindi herja á okkur hérna á Lombardigötunni, er gott að eiga góða að. Neyðin er kannski ekki stærst en, tilveran verður mun auðveldari og líkurnar á að manni takist að upfylla skyldur sínar aukast.

Þó að heilt úthaf skilji að þá getur maður alltaf treyst á fólkið sitt.

Takk.

föstudagur, maí 26, 2006

Þegar manni líður illa, þá er best að sofa.

Það var eilítið bágborið ástandið á heima-sætunni í dag. Snemma í morgun fór hún til læknis til að láta taka blóðprufur en sú ferð varð hálfgerð fýluferð. Það var sama hversu mikið var stungið í handleggina á henni, ekki tókst að hitta á neina æð. Hún fékk þó að vita að ofan á þessa einkirningssótt væri hún einnig með streptakokkasýkingu. Það var þess vegna hálf niðurlút dama sem kom heim með mömmu sinni eftir læknisheimsóknina, eini ljósi punkturinn var viðkoman í leikfangaversluninni þar sem hún fékk að velja sér eitthvað lítilræði.

Hún lagðist svo fyrir daman og svaf stóran hluta dagsins. Hvað getur maður annað gert þegar maður er bara átta ára, með tæplega 40 stiga hita og tvær slæmar sýkingar? Mamma og pabbi gera þó allt til að létta tilveruna hjá henni, svona með rýmri reglum um sjónvarpsgláp og sætindi. Svo er spilað eftir efnum og lesið.

...Henni kvíður mest fyrir að vera ekki orðin hress þegar frændsystkynin frá Bolungarvík koma í heimsókn.

Karen með einkirningssótt

Það er svolítið bágt ástandið á heimilinu þessa dagana, veikindi og slappleiki í hverjum krók. Ofan á það allt er mikið að gera hjá undirrituðum, bæði í skóla og vinnu.

Karen Embla hefur verið kvarta undan magaverk í töluverðan tíma, en það byrjaði allt með skæðum vírus sem herjaði svo á bæði systkynin í apríl. Hún kvartar undan vindverkujm og verkjum uppi undir rifunum vinstramegin, við magasekkin. Læknirinn okkar hann Jón vildi nú ekki mikið gera úr þessu og sagði bara að hún ætti að slappa meira af. En nú er elsku stelpan komin með "einkirningssótt" eða "kossasótt" sem heitir mononucleosis á læknamáli. Þetta er veirusýking og er frekar skæð með hita, hálsbólgu, magaverkjum og henni fylgir mikil þreyta. Við fórum til læknavaktina í gær og sagði læknirinn að Karen væri með skólabókardæmi um þessa sótt. “Hann er fallegur á henni hálsinn” sagði doktor þegar hann kíkti upp í Karen og leit á hálskirtlana sem voru á stærð við vínber og lagðir hvítri slykju, “svona læknisfræðilega séð” bætti hann svo við vandræðalega. Hann sagði okkur að það væru engin lyf til við þessu og að það gæti tekið allt að einum mánuði að verða hress aftur. Hann vildi senda Karen í blóðprufu og sagði að við ættum ekki að spara verkjatöflurnar, sagði að þessari sýkingu fylgdu miklir verkir.

Þannig að nú liggur daman í bælinu með mikla verki, missir af tívolíferðinni á fritidsheimilinu sem verður í dag. Nú verðum við öll heima fjölskyldan næstu daga og reynum að láta okkur líða vel, svona eftir efnum.

Annars var búið bjóða okkur í afmælismatarboð hjá Halli og Hönnu í gær á Sólbakkann. En við komumst náttúrulega ekki útúr húsi í svona ásigkomulagi.

...en allt fer þetta á betri veg.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Koldskål og kammerjunckere

Fátt er eins samofið sumrinu hér í Danmörku eins koldskål og kammer-junckere, eða öllu heldur góða veðrinu. Koldskål er einhvers-skonar blanda af súrmjólk og þykkmjólk, bragðbætt með vanillu og sítrónu. Út í þetta setur maður svo litla kexbita sem eru með kardimommu- eða vanillubragði. Þetta er einstaklega góð blanda og er létt í maga. Eins og nafnið gefur til kynna á koldskålen náttúrulega að berast fram köld.

Þessi vara er svo nánast eingöngu til yfir sumartímann og er stillt upp á áberandi stöðum í öllum verslunum. Hængurinn er bara sá að danir kaupa þetta ekki nema að sól skíni yfir ökrum og hitatölur séu réttu megin við 20 gráðurnar. Framleiðslustjórar mjólkurbúana sitja því yfir veðurspám allt sumarið til að stýra framboði á vörunni og oftar en ekki er það eins og að elta halan á sjálfum sér. Sjálfir segja þeir að fátt valdi þeim meiri hugarangri en að ákveða um framleiðslumagn á þessari “kaldskál”.

Hið dæmigerða er að danir fái sér koldskål og kammerjunckere á veröndinni sem léttan hádegisverð eða á milli mála. Sumir búa þetta til sjálfir eftir einhverjum gömlum uppskriftum sem eru fjölskyldueigur, en aðrir láta sér úrvalið í súpermörkuðunum nægja. Hægt er að fá venjulega kaldskál eða bara með sítrónu og jafnvel með eggi. Kammerjunckerne er svo hægt að fá nýbakaða hjá bakaranum eða í fjölmörgum tegundum í stórmörkuðunum.

Danir eru nokkuð íhaldsamir í eðli sínu og þeir sem eru “peru” danskir eða ekta danir kaupa vörurnar sem framleiddar eru af gömlum rótgrónum innlendum fyrirtækjum og skeita fátt um verð. Þetta er einskonar væg þjóðerniskennd og hefur birtingamyndir víða í samfélaginu. Til dæmis er verslað við gamla bakarann á horninu þó að hann sé helmingi dýrari en bakarinn í súpermarkaðinum eða pakistanski bakarinn lengra niður í götunni. Menn kaupa sér svo líka sjónvarp og hljómflutningstækin hjá radiobúðinni í hverfinu og kjöt hjá slátraranum. Svona er líka farið með kaldskálina og kammerjúnkana, eiginframleiðslum stórmarkaðana líta þeir varla við.

Íhaldsemin lifir sumsé góðu lífi hjá hinni frjálslyndu þjóð.

Ég hef svo tekið þennan sið með kaldskálina til mín (sleppti íhaldseminni) og þykir fátt betra á morgnana en að fá mér svona rétt. Þetta er kjörin skyndibiti og nánast nauðsynlegt að hafa svona í ískápnum allt sumarið. Þetta er þó ekkert sérstaklega hollt, fyllt með sætuefnum eins og flestar mjólkurvörur. Svo eru kammerjunckerne náttúrulega jafn “hollir” og annað kex sem er bakað upp úr sykri.

Hér svo ein uppskrift af herlegheitunum.

...en gott er þetta, og eins og máltækið segir: hafa skal það sem betur bragðast.!

Himnafartur krists og Kolonigarðar

Í dag er einn hinna mörgu frídaga snemm-sumarsins. Danir njóta dagsins í kartöflugörðum og flestir taka sér sér langa fríhelgi. Daginn í dag kalla danir Kristi-himmelfartsdag sem er nokkuð hljómfagurt nafn. Ég velti oft vöngum yfir íslenska heitinu, Uppstigningardagur þegar ég var patti í víkinni, fannst nafnið ekki fylgja almennum málfræðireglum. Uppstigning, veit ekki til að orðið sé almennt notað um gjörningin að stíga upp. Getur verið að ég misskilji þetta allt.! En í Danmörku fór kristur á fartinn til himins, á hálfgerðan himnafart.! Danir sem flestir eru illa kristnir nota að sjálfsögðu daginn til njóta tilverunnar og eru ekkert frekar en íslendingar uppteknir af því sem dagurinn tengist.

Annað sem heillar danina er að eyða svona dögum í "koloni" görðunum sínum. Þetta eru litlir garðar, með litlum kofum sem oftar en ekki er búið að gera að algerum paradísum. Garðarnir sem í árdaga voru staðsettir í þyrpingum útjaðri borgarinnar eru margir hverjir núna inni í miðri borg. Þessar þyrpingar eru sem grænar vinjar, oftar en ekki með eigin verslun, bakara, leiksvæði og þess háttar. Margir flytjast í þessa kofa yfir allt sumarið, flytja heimilsfangið og annað slíkt. Þarna ræktar fólk kryddjurtir, eplatré, jarðaber og annað góðgæti. Kofarnir eru svo innréttaðir með gömlum rómantískum munum, málaðir hvítir að innan og með brakandi gólfum, sem sagt alger nostalgíu-rómantík.

Það hefur svo hlaupið alger verðbólga í þetta fyrirbrigði síðustu misseri. Núna vilja allir eignast svona og á frjálsum markaði hefur verðið tífaldast á skömmum tíma. Reyndar eru flestir þessara garða innan félaga, sem eigendurnir á sama svæði hafa gert með sér. Félögin hafa svo einhverjan eignarrétt á svæðinu og hafa jafnvel sett reglur um hvernig kaupum og sölu á görðunum skuli fara fram. Oftar en ekki eru reglur um hámarksverð og hvernig að sölunni annars skuli staðið. Þetta hefur verið gert til að tryggja þann anda og íbúasamsetningu sem þarna hefur ríkt í gegnum tíðina.

Garðarnir voru í byrjun hugsaðir fyrir verkamannastéttina sem bjó í litlum íbúðum í óhreinni borginni. Þeir áttu að veita nauðsynlega snertingu við náttúruna og tryggja hvíld frá ys borgarlífsins. Fram að þeim tíma var það aðeins hin efnaða borgarastétt sem átti sumarhús og athvarf í friðsælu umhverfi.

Ræktun allskins grænmetis og ávaxta hefur svo alltaf verið stór hluti menningarinnar innan “koloni” garðana, sem örugglega hefur sparað öreigunum fé og tryggt þeim næringaríkt fæði.

Sumir garðana líkjast reyndar hálfgerðum ruslahaugum, þar sem ægir saman allskonar drasli. Þar búa oftast ölþyrstir danir í friði, með sitt smurbrauð, öl og jónu. Christianíustemninguna er stundum að finna á þessum stöðum og virðist sem sama speki sé ráðandi á báðum stöðum. Frjáls lífstíll og pláss fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Þarna birtist ljóslifandi hugmynd okkar frónbúa um hina ligeglade dani. Ef þeir eru einhverntíman ligeglade þá er það einmitt í Kolonigörðunum eða með ölkassan á nýhöfn.

Við hjónin ætluðum að tryggja okkur einn svona garð fyrir um ári síðan, en eftir töluverða leit gáfusmt við upp, tómhent. Garðarnir seljast manna á milli og eflaust eru tugir áhugasamir um hvern garð. Ef þeir eru seldi á frjálsum markaði kosta þeir svipað og lítil íbúð á góðum stað. Og draumurinn um svona verður varla að veruleika úr þessu. Þessa dagana eru fyrir dómstólum nokkur mál sem geta haft afgerandi áhrif á framtíð þessara garða, eða íbúasamsetningu þeirra. Eigendur garðana vilja fá að selja þá á frjálsum markaði til hæstbjóðenda, án tillits til reglna viðkomandi félags. Fyrstu dómarnir sem hafa birst benda til þess að fólki sé frjálst að selja eigur sínar á þann hátt sem þeim sýnist. Það er sem alltaf græðgin og mammonfeigðin sem dregur fram breiskleika mannsins. Grundvallarhugmyndin um athvarf fyrir hina efnaminni skeitir kapítalið ekkert um. Það er eins með þetta og verkalýðsfélögin að fólk áttar sig ekki á að samstaðan er oftast þeirra eina vopn.

Garðarnir voru svo friðaðir með lögum frá 2001, og fyrir skipulagsyfirvöld sem oftar en ekki horfa girnilegum augum á þessi svæði eru það þyrnir í augum. Sumir garðarnir eru á bestu byggingarlóðum borganna og eftirsótt af yfirvöldum og verktökum. En betur má ef duga skal, ef hinir nýríku ætla ekki að eignast þessar perlur þarf að tryggja það með einhverjum hætti. Annars verður þetta allt saman selt hæstbjóðanda og skriftofuhúsnæði byggt.

Ég hef svo verið að vinna hjá borginni þar sem við höfum átt í vandræðum með nokkra garða sem eru “fyrir” og þar geta menn bara tekið eignarnámi ef “almannaheill” krefst þess. Svo er einn helsti kolonigarða sérfræðingur dana Niels Jensen að vinna með mér. Hann hefur skrifað bók um efnið og er sjálfur af hinni sósíaldemókratísku kynslóð sem innleiddi hið frjálslynda félagshyggjuhugarfar í samfélagið. Hann vill meina að margir garðana séu á gráu svæði, kannski ólöglegir. Stundum hafi hópur fólks bara byggt sér kofa einhverstaðar og það þróast til að verða þyrping húsa, líkt og í Christianíu. Vonandi að dönum beri gæfa til að varðveita þessa einföldu og manngóðu lífsspeki sem hefur fætt af sér þetta fyrirbrigði.

...frjálslyndi og félagshyggjuhugarfar
eru fallegt og kærlegt par.
Voru áður en ekkert var
allt sem veitti eitthvað svar.

mánudagur, maí 22, 2006

áhyggjulausu ævikvöldin.?

Meðferð á öldruðum er töluvert í umræðunni hér í DK um þessar mundir. Fyrir stuttu var flett ofan af ansi illri meðferð á gamla fólkinu á einu stærsta elliheimili landsins. Þarna voru aldraðir með bleyjurnar sínar tímunum saman og allar tilraunir þeirra til að fá aðstoð hundsaðar af starfsfólkinu. Það var starfsmaður kvikmyndafyrirtækis sem fékk starf á stofnuninni og með faldri myndavél myndaði hann þessa illu meðhöndlun. Dæmi voru um að gamla fólkið þurfti að bíða 14 – 16 tíma eftir að fá skipt um bleyju og þegar það var gert var saurinn og þvagið storknað við húð viðkomandi. Mikið hefur verið rætt um aðbúnað aldraða upp á síðkastið sem og velferðarkerfið í heild. Íhaldið vill skera niður og skerpa á úthlutun í styrkjakerfinu, þeir vilja hækka eftirlaunaaldurinn og takmarka atvinnuleysisbætur. Nú liggja þessir stjórnarflokkar vel við höggi þegar reglulega er flett ofan rotnum veruleikanum í fyrirmyndarvelferðarsamfélaginu.

Margt af því sem íhaldið vill gera í umbætum á velferðarsamfélaginu er ánefa þarft. Til dæmis að endurskoða lífeyrisaldurinn. Ég tel þó að það eigi ekki að gilda sömu aldursmörk fyrir allar stéttir. Mér finnst að þeir sem stunda líkamlega og andlega krefjandi vinnu eigi að komast fyrr á lífeyrisaldur, á meðan bankamennirnir með nivea fingurna geta hæglega unnið nokkrum árum lengur. Reyndar er mótsögnin sú að líkamlega erfiðisvinnan heldur oftar en ekki lífi í fólkinu langt fram undir 100 árin. Þjóðarsálin hér í Danmörku snýst reyndar að mörgu leyti um að komast sem fyrst á eftirlaun, til að geta dundað í garðinum á milli ölsopanna og smurbrauðsbitanna

Annað ranglæti í þessum lífeyrismálum hinna kapítalísku velferðarsmafélaga er að miða útborgun úr leifeyrissjóði við greiðslur í sjóðinn. Það þýðir að verkakonan sem vann alla ævi á lúsarlaunum, þarf að sætta sig við lágmarksgreiðslur úrlífeyrissjóðnum. Þannig eru hinu köldu örlögum fátæklingana haldið lýði með lögum og síðustu ævidagarnir fjara út við sama skortinn.

Það er ekki öllum skapað áhyggjulaust ævikvöld.

Til hamingju með daginn Hallur


Góðvinur minn og jafnaldri, hann Hallur Kristmundsson á afmæli í dag. Hallur er 33 ára ungur, dalamaður af húði og hár. Hallur nemur arkitektúr við arkitektaskóla kúnstakademíunnar, svo er hann einnig menntaður sem smiður, byggingaiðnfræðingur og byggingafræðingur. Hallur þekkir þess vegna fagið orðið betur en flestir og er við þriðja mann búin að stofna byggingafyrirtækið Reising.

Þessa dagana er Hallur að kljást við BSc verkefnið sitt og á nokkuð annasamt. Hallur og konan hans hún Hanna eignuðust sitt 3ja barn 6. apríl síðastliðinn, þannig að það er nóg að fást við á heimavellinum líka.

Til hamingju með daginn kæri vin.

sunnudagur, maí 21, 2006

Grikkir eru gikkir og þola enga grikki.

Hvaða forkastanlegur dónaskapur var þetta í hinum fornheimsku grikkjum að baula á Litháana? Litháarnir voru með mjög frambærilegt lag og frumlega sviðsframkomu, eitthvað annað en hægt er að segja um sjálfa grikkna. Til þess að bíta höfuðið af skömminni bauluðu þeir svo á litháeska kynnin. Hvað hefur hann með þetta að gera.? Litháeska lagið verður eitt af þeim lögum sem fólk syngur í júróvsion partýum um komandi ár, varð að klassískum slagara á svipstundu, á bord vid huppa hulle frá Israel.

Jæja, þrátt fyrir að kvenkyns kynnirinn hafi verið óþarflega óþolandi og talað hræðilega mikið á sinni Hollywood ensku, hélt ørugglega ad hún væri sjálf adal númerid, þá var sjówið bara ansi gott. Gæði margra laganna var gott, og ég held bara að ég kaupi mér barasta geisladiskinn með lögunum. Ég veit að það er hommleg eighties sveitalágkúra, en svona er ég bara.

Rúmenska lagið var ansi þétt, ekta Ibiza stemning með grípandi viðlagi. Þessar austur-evrópu þjóðir gera þetta júrópopp betur en flestir, eru jafnvel á hærra plani en sjálfir þjóðverjarnir, sem eru ókrýndar júropppdrottningar.

Rússin Dima Bilan var með feykigott lag, strákurinn sem var með einhverjar neo-eighties hreyfingar og klippingu var bara að venjast ágætlega greyið. Hann minnti mig þó enn á parkinsonveika toppönd á kóki, með þetta tilviljanakennda hopp og hendingar og tryllingslegt augnaráðið. Hann komst þó vel frá þessu.

Swiss miss var líka með hressilegt lag. Hópurinn var einhver blanda af village people og abba og opnaði sýninguna með lagi sem fyllti hvert einasta rými hérna í íbúðinni. Ekta júróvision lag með dans og drama.

Bosnía Hersegóvína var að mínu mati með besta lagið, flutt af Hari Mata Hari. Það er langt síðan að ég hef heyrt betra lag. Efa samt að það nái þeim status að verða nýrri tíma "gente di mare", sem Umberto tozzi og Ra fluttu hérna um árið og Benni Sig gerði ódauðlegt í Ísland í bítið.

Finnarnir voru með fínt og þétt rokk sem vel á heima í svona keppni. Þeir voru víst svo ósköp kurteisir við alla, alger lömb. Kannski ekki drauma tengdasynir, en allt að því. Er ekki frá því að ég hafi séð svona fólk á Þingeyri eða suðureyri og þar þykir ekkert merkilegt eða sniðugt að líta svona út. En Evrópa hefur lagst við fætur þessa innræktuðu finna sem hafa greinilega gerst of ákafir í gufubaðinu af húðinni að dæma. Kannski að þeir hafi lamið hvorn annan með birkihríslunum svona hressilega eftir vodkaþambið og aldrei beðið þess bætur.

En þeir kunna að rokka og júróvision verður í Helsingfors að ári.

...

...Vinnudagur í suddanum

Í sudda og grámyglu snemma í morgun mættu nokkrir íbúar hús-félagsins hérna á Lombardigötu 17 – 21 í hressilega tiltekt á sameigninni. Fylltur var heill gámur af öllu mögulegu drasli sem stóð í kjallaragöngunum. Þarna voru hillur, skápar, borð, stólar og bekkir svo eitthvað sé nefnt. Oft var maður hikandi yfir að henda einhverju nýlegu sem öruugt var að ekki ætti heima í ruslinu. En það hafði verið sent bréf með mánaðar fyrirvara og fólk beðið að fjarlægja það sem ekki skyldi henda. Til að mynda grófum við upp 12 eldgamla herhjálma, hljómflutningstæki og annað eigulegt. Ég gat nú ekki horft á eftir hjálmunum í ruslið og bjargaði fjórum heillegustu. Karlinn hann pabbi ætti að verða ánægður yfir því. Hann hefur óbilandi áhuga á svona löguðu, hann keypti sér til dæmis forláta þýskara-hjálm á flóamarkaði hér í köben um árið og var svo myndaður í bak og fyrir af blaðaljósmyndurum með hann á höfðinu. Það var varla komið einn planki í gáminn þegar fólk byrjaði að gramsa og hirða. Ég er nú ekki barnana bestur í þeim efnum, þykir leiðinlegt að horfa á eftri einhverju fallegu og nýtilegu í ruslið. Nytjagenið kemur sterkt fram í mér við þessar kringumstæður en mætti láta á sér bera við fleiri. Sonja er ekki mikið gefin fyrir að drösla einhverjum kaffibollum eða salatskálum hingað upp. Það gildir einu þó að ég noti hin klassísku rök “þetta er fyrir sumarbústaðinn”, sonja gefur sig ekki, vill allavegana ekki nota þetta sjálf. Annars er svona “loppefund” algert tískufyrirbrigði í Danmörku. Það eru gefnar út heilu bækurnar um efnið og svo spretta litlar verslanir með notaða hluti upp úti um allt. Mér finnst einhver sjarmi yfir mörgum gömlum hlutum og held fast í drauminn um sumarbústaðinn, og þar gæti konceptið verið – einungis notaðir hlutir! Bæði sparar það peninga, er persónulegra og er umhverfisvænt.

Húsfélagið keypti svo borð og bekki fyrir grillvesilur sumarsins og að síðustu var umhverfið pyntað með litríkum blómum.

Söfnuðurinn gæddi sér svo á bakkelsi, kaffi og öli á milli þess sem hendur voru virkilega látnar standa fram úr ermum. Að síðustu var svo rabbað með yfiborðskenndum hætti um allt og ekkert, svona að hætti fólks sem býr í sama húsi en þekkist ekki neitt, hittist á hverjum degi en heilsast ekki. Frumleg umræðuefni eins og veðrið, fótbolti, fasteignaverð, ...börnin, fasteignaverð, ...íslendingar að kaupa allt, fasteignaverð, dúkkuðu hvað eftir annað upp.

Eftir tiltektarbrjálæðið kom Henri svo upp í kaffi og köku, og karen og Sonja sýndu honum smá takta í Sing-star. Það var kominn evróvision stemning í Karen, sem söng svo í tækinu það sem eftir lifði dags.


...svo byrjaði evróvision

föstudagur, maí 19, 2006

Evróvision reis upp gegn lélégu djóki


Eina skiptið sem munnvikin á mér bærðust úr niðurlútri U stöðu í smá brosaling þegar ég horfði ´´a framlag Íslands áðan í evróvisíon, var þegar hommi og nammi (eða hvað þeir heita) gripu um ökklan og gerðu einhverja hnekki á nærbrókunum. Þetta fáránlega spaug var alger smekkleysa, nei smekkleysa er hrós í þessu sambandi, þetta var yfirborðskennd og amatörleg lágkúra sem hitti engan fyrir nema flytjendurna sjálfa. Ég var reyndar nokkuð hlessa á öllu baulinu, fannst það púra dónaskapur. Menn hafa náttúrulega listrænt frelsi í svona keppnum, en kannski að þarna hafi frelsið fundið sín mörk. Sylvía Nótt var einnig með arfaslappt lag sem vantaði allan slagkraft. Keppnin á náttúrlega undir smá höggi að sækja, lengi hefur skort á að lögin séu vönduð og vel útsett. Áður fyrr voru lögin flutt af heilli sinfoníuhljómsveit og mikið lagt í þau. Þá voru lögin líka sungin á móðurmáli hvers lands og oftar en ekki tónarnir einkennandi fyrir löndin. Svo voru dómnnefndir skipaðar af fagfólki og frekar horft til melódíunnar og gæði hennar.

Lengi hefur einhver fáránleiki, léttúð og glis einkennt keppnina, sem hefur orðið til þess að keppnin er orðin að risavöxnu drag-showi. Einhverntímann var eurovision tekið dæmi um eurotrash, eða rusl evrópu. En kannski að keppnin sé að fá uppreisn æru og þess vegna ekki að undra þó að harðkjarna-áhagnendur verði súrir þegar keppendurnir sjálfir láta sér hana í léttri lundu liggja. Ég hef náttúrulega ekki séð ýkja mikið til Sylvíu, en hún sannfærði mig ekki í þessi fáu skipti sem ég sá hana. Að sjálfsögðu er þessi persónusköpun flott og útfærslan vel unnin, og jafnvel virðist sem að áhörfendur hafi sannfærst. En þeir hafa ekki tekið þessa léttúð til sín og þar á lagið einhverja sök.

En annars fannst mér vera nokkuð mörg fín lög í þessari undankeppni og var fegin að heyra írska gæðaballöðu og þjóðlega tóna. Fjörugustu lögin sem voru alveg við það að rífa mig uppúr sófanum, voru að mínu mati lögin frá Svíþjóð, Belgíu og Tyrklandi, sem báru með sér ekta old-skúl eurovision stemningu. Svo fannst mér líka Eistland líka vera með fínt lag að hætti hinna þriggja. Rússneska lagið var gott þó að fasið á strákgreyinu væri alveg að gera útaf við mig. Svo voru strákarnir frá litháen með lag sem var bara skratti gott. Lagið var líka einhversskonar háð, en vel útfært með alvarlegum kómískum undirtón.

Hin fallega írska ballaða var að mínu mati einstaklega falleg og “kjarna” eurovision lag, þarna voru andar johnny logans svífandi yfir vötnum. Írarnir gera svona lög betur en flestir. Reyndar væri nú gaman að heyra alvöru írska tóna í þessari keppni, svona a´la The Dubliners.

Besta lagið að mínu mati var lagið frá Bosníu Hersegóvínu. Byrjun lagsins var draumi líkust. Um leið og lagið byrjaði lagði mig hljóðan, þetta voru tónar sem ég hafði beðið eftir að heyra í mörg ár, án þess að vita það, áttaði mig bara á því á þessu mómenti. Lagið og stemningin í laginu var vel skiljanleg og einhvernveginn fannst mér ég geta skilið hvert einasta orð sem kom frá söngvaranum. Ég hef trú á þessu lagi í keppninni og hef það einhvern veginn á tilfinningunni að eurovision sé að ná þeim þroska aftru að geta valið ballöðu sem vinningslag.

Í mörg ár hefur keppnin líkst einhverju tívolí, algjörri kakófóníu, en nú er kannski tíminn runnin upp fyrir að vönduð og metnaðarfull lög eigi upp á pallborðið hjá evrópskum öfuguggum. Kannski að hruni siðmenningar evróvision verði bjargað fyrir horn í ár.

...vonandi

Akademían kallar

Fékk bréf frá Kúnstakademíunni í dag þar sem þeir tjáðu mér að ég væri kominn inn sem gestanemi í mastersnámið í landslagsarkitektúr. Deildin þar sem ég verð heitir By og Landskab. Fyrirlestraröðin hjá kúnstakademíunni er mjög spennandi, mörg þekkt nöfn og forvitnileg efnistök. Prófessorinn á deildinni heitir Steen Høyer og er hann nokkuð mikilsmetinn arkitekt í Evrópu. Ég hef farið á fyrirlestra með honum og finnst bara nokkuð spennandi að hlusta á hann.

Annars hefur verið mikið um góða fyrirlestra hjá okkur í skólanum upp á síðkastið. Við höfum til að mynda fengið Sven-Ingvar Andersen til að koma og segja okkur frá kenningum um varðveitingu og endurgerð garða. Sven-Ingvar er einn af áhrifamestu landslagsarkitektum í heiminum á síðustu öld. Fjölmörg af verkum hans eru heimsþekkt innan greinarinnar og einnig liggur eftir hann fjöldinn allur af skrifuðu efni.

Það er smá pressa þessa dagana. Það eru skil á verkefni í skólanum á mánudaginn og svo er verkefnið fyrir borgina alltaf að vaxa og skiladagurinn nálgast óðfluga. Nú er törn framundan og um að gera að setja sig í vertíðarstellingar.

...gósentíð.

Annars er veðrið búið að vera nokkuð grátt og kalt síðustu daga. Smá melankólía drepur engan, er reyndar nokkuð holl reglulega. þannig að það kuldi og bleyta sína kosti og hefur oft jákvæð áhrif á sköpunargáfuna.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Krakkarnir koma til Köben



Við vorum að fá þær fréttir fyrir stuttu að Arndís systir sé á leiðinni til Noregs með börnin sín og ætli að koma hérna við hjá okkur í Köben. Karen er alveg í skýjunum yfir þessum fréttum og reyndar er okkur öllum er farið að hlakka til. Við vonum bara að þau stoppi sem lengst þannig að við getum náð að gera eitthvað skemmtilegt saman.

Börnin hennar Arndísar eru öll einstaklega skemmtileg og góð. Það er langt síðan að þau voru hérna síðast og ekki laust við að maður sakni þeirra. Karen Embla heldur alltaf jafn mikið uppá Margréti Svandísi frænku sína og talar ótt og títt um síðustu sumur vestur í Bolungarvík. Þar gerðust mörg og spennandi ævintýri hjá þeim frænkum. Víkin er einn ævintýraheimur fyrir smáfólkið og hver dagur með nýja drauma. Það er aldrei að vita að Karen fari heim í víkina í sumar og heilsi upp á krakkana á holtinu.

Hún hefur bara áhyggjur af að litla barnið fæðist á meðan.

miðvikudagur, maí 17, 2006

kúnstakademían heillar

Ég ætlaði að hafa það náðugt í vinnunni í gær, vinna bara mína vinnu, fara á nokkra fundi, borða góðan mat og þess háttar. En það breyttist snögglega þegar ég las tölvupóstin minn á skólanetinu. Það var að koma í hús samningur á milli skólans míns og Arkitektaskóla listaakademíunnar Arkitektaskóla listaakademíunnar um nemaskipti. Pósturinn var sendur fyrir rúmri viku, en ég las hann fyrst í gær og umsóknarfresturinn, jú hann rann út klukkan 12:00 sama dag. Ég hef að sjálfsögðu brennandi áhuga á að nema landslagsarkitektúr í kúnstakademíunni. Þar á bæ eru menn með allt aðrar kennsluaðferðir og leggja meiri áherslu á hið myndræna, formið og formsköpun. Aftur á móti er landslagsarkitektúrinn í Landbúnaðarháskólanum blanda af náttúruvísindum á borð við grasafræði, jarðvegsfræði, veðurfræði, og félagsvísindum s.s. löggjöf, félgsfræði. Ofan á allt saman lærum við náttúrulega hönnun og famsetningu en oft hefur mér fundist skorta kennsla í formfræðum og nýtingu rýmisins, einnig listræna nálgun viðfangsefnana.

Ég sá þess vegna gullið tækifæri til að kynnast nýjum fleti á faginu á nokkuð auðveldan og raunhæfan hátt. Ég hringdi og fékk frest til að skila til kl. 16:00. Nú fór allt á yfirsnúning, ég átti að skrifa umsókn, CV, bréfi frá skólanum mínum og portofólíu. Shit.!

Ég ákvað að láta reyna á þetta, en var samt sáttur við að þetta tækist ekki. Ég hélt rónni og skrifaði þetta bréf, fann umsóknareyðublað á netinu, ákvað svo að sleppa að fá bréf frá skólanum. Í portófólíuna setti ég svo BSc verkefnið og hluta af Ósvararverkefninnu. Gerði það sem ég gat á þessum stutta tíma. Ég þurfti að hjóla heim og svo uppí skólann og klukkan var 3 mínútur í fjögur þegar ég renndi í hlaðið. Þeir tóku á móti þessu og sögðu möguleika mína vera nokkuð góða. Það skildi þó aldrei fara svo að ég verði nemi þarna næsta vetur. Skólinn er þekktur um álfuna alla fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarfsemi og einstaklega skapandi umhverfi, ég kæmist þess vegna í nokkuð feitt.

Að hafa lyst á list.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Fornmaður og varsla fornmynja.


Karlinn hann pabbi settist á skólabekk í haust. Hann skráði sig í fjarnám í Háskólann á Hólum og nemur hann “vörslu fornmynja”. Hann þurfti náttúrulega að læra margt annað í leiðinni sem hefur farið framhjá svona fornmanni síðustu árin. Hann hefur lært að nýta sér tölvuna og nokkur forrit, skrifa ritgerðir og annað þess háttar. Mér finnst þetta allt saman ægilega merkilegt og er stoltur af foreldrum mínum báðum sem hafa tekið örlögin í sínar hendur og sest á skólabekk. Þau eru bæði á besta aldri og með heilbrigðum lifnaðarháttum geta þau átt tæplega hálfa starfsævina eftir.

Karlinn hann pabbi fór svo í próf á dögunum, nánar tiltekið daginn eftir að sýningin “Perlan Vestfirðir” lauk. Hann hafði áhyggjur af hversu tæpt hann stæði í sambandi við að fá próflestur og undirbúning fyrir áðurnefnda sýningu til að hanga saman. En það reyndist þó óþarfa áhyggjur, karlinn gerði sér lítið fyrir og fékk 8.4 í prófinu. Þetta er örugglega fyrsta prófið sem hann fer í síðan hann fékk skipstjóraréttindin fyrir tæpum 40 árum. Glæsilegt.!

Til Hamingju Ísland

sunnudagur, maí 14, 2006

...nú tekur alvaran við.

Það kvað við nýjan tón þegar Karen Embla mætti á síðustu körfubolta-æfingu. Það er búið að skipta upp flokknum hennar og æfir árgangurinn hennar með tvo þjálfara. Stelpurnar er byrjaðar að undirbúa sig undir að fara upp um einn flokk seinna í sumar. Nú var ekkert pláss fyrir ærslalega leiki eða athyglisbresti. Þjálfararnir kölluðu skipanir þvers og kruss yfir völlin og hljómuðu oft sem einhver blanda af liðsforingjum og taugaveikluðum skipstjórum.

Æfingin var lengd um hálftíma og engin griður gefin. Stelpurnar eiga að æfa tvisvar í viku eftir sumrfríið og svo verða leikir um helgar. Karen tók á honum stóra sínum og gaf ekki tommu eftir alla æfinguna.

Á síðust æfingu hittum við svo íslenska stelpu sem er að þjálfa einn stelpnaflokkinn hjá BK Amager. hún heitir Gunnur og er að fara að giftast dönskum kærasta sínum sem einnig er þjálfari.

Karen er farin að hitta vel í körfuna og tekur framförum á hverri æfingu.

Það verður gaman að fylgjast með henni í haust.

karlgreyið

Þetta myndbandarbrot er með því skemmtilegasta sem ég hef séð í langan tíma. Fékk þetta sent frá vini mínum , Óla Guðmunds fyrir stuttu. Myndbrotið er tekið af þætti sem sýndur var í Belgíu fyrir ekki svo löngu.

Þannig er mál með vexti að Erik nokkur Hartman var þáttarstjórnandi í þætti sem hét Boomerang. Þátturinn var sýndur beint og fjallaði um allskonar alvarleg og "tabú" málefni. Þarna var fjallað um kynhneigðir, misnotkun, glæpi, veikindi, fötlun og annað slíkt.

Þegar hérna er komið við sögu er Erik í viðtali í öðrum þætti þar sem hann fjallar um tímabilið sem þáttarstjórnandi í Boomerang og þá sérstaklega um atvik sem hafði afgerandi áhrif á framtíð hans. Þarna er svo sýndur hluti úr einum gömlum Boomerang-þætti þar sem þetta atvik á sér stað. Í þeim tiltekna þætti er verið að fjalla um læknamistök og eru tveir viðmælendur hans fórnarlömb læknamistaka.

Myndbandsbrotið er á Flæmsku og ótekstað, en það skiptir ekki svo miklu máli, en hljóð er þó mikilvægt til að skilja það sem fram fer.

Hérna er myndbandið.

fullar síður af nýjum myndum.

...Sonja hefur unnið ötullega síðustu daga við að setja nýjar myndir inná heimasíður Karenar og Ólivers. Fjölmargar myndir frá ferðalaginu til Suður- Evrópu og sitthvað fleira er komið inn. Tenglar á síðurnar eru hérna hægra meginn á síðunni, undir "links". Um að gera að skoða þessar skemmtilegu myndir.

kveðjur frá Lombardigötunni

laugardagsins fasti liður

Í gær laugardag fór ég með Karen í Íslenska skólann eftir um 1 mánaðar pásu. Við vöknuðum eldsnemma og fórum hjólandi í morgunsvalanum inn að Jónshúsi. Karen var spennt yfir að komast og hitta samlanda sína og Maríu Kennara. Nokkrir foreldrar voru á staðnum en þó óvenju fámennt. Jón forstöðumaður Runólfsson kom niður, bauð mér uppá kaffi og við settumst að spjalli. Við ræddum ferðalög, skipulagsmál og pólitík. Jón hefur það að föstum liði að koma niður í kaffistofu á laugardagsmorgnum og tekur þátt í þeim umræðum sem þar eiga sér stað. Jón er mikill öðlingur og höfðingi heim að sækja. Ég þekki hann lauslega frá skólaárunum á skaganum en kona hans, Inga Harðar kenndi mér leikfimi í fjölbrautarskólanum og dóttir þeirra Bergþóra var með mér í bekk. Jón fylgist vel með íslendingunum hér í köben og eru þau hjón iðin við að greiða leið landa sinna.

Þennan morgun voru einungis 3 feður á kaffistofunni en svo fjölgaði aðeins þegar menn fóru að mæta á AA fundi og til að lesa blöðin. Krakkarnir fengu að fara út í frímínútum í veður-blíðunni sem er gott framtak hjá Maríu. Krakkarnir ganga í hóp í Kongens Have, fá að spretta úr spori og roðna í kinnum.

Karen Embla fór svo heim með Önnubellu vinkonu sinni og var hjá henni allan daginn. Ég fylgdi Karen heim til hennar og í leiðinni þáði ég að sjálfsögðu kaffibolla og kökusneið hjá foreldrum hennar, Hrafnhildi og Viðari. Viðar er borgneskur bakari og býr til bestu Pizzur hérna megin miðbaugs. Hrafnhildur er svo kominn af hinu góða fólki frá Hanahóli í Syðridal og þekkir hún marga úr Bolungarvíkinni. Þau eru bæði hið vænsta fólk og alltaf skemmtileg heim að sækja.

Eftir kaffidrykkju og kökuát tók ég til við að hugsa um "mæðradaginn" sem á að vera á sunnudeginum. Sonju skildi komið á óvart.

Ég og Sonja lágum svo í afslöppun það sem eftir lifði dagsins. Sonja sem er á 26. viku á meðgöngunni, datt í tröppunum hérna frammi ða stigaganginum á föstudaginn og hefur verið drepast í bringubeininu síðan. Ætlunin er að fara á slysavarðsstofuna og láta líta á þetta, ef þetta líður ekki úr næst dægur.

...allir dagar eru mæðradagar.

laugardagur, maí 13, 2006

Varme Hveder

Hinn stóri bænadagur rúllaði með sælustundir og sólskin hér á hinni marflötu Amager. Dagurinn bauð upp á góðar stundir í faðmi fjölskyldu og vina, göngutúr og fleira. Fjölskyldufaðirinn vaknaði syndsamlega snemma þennan morgun, fór fram í eldhús og brá utan um sig svunturæfli. Það skildi nefnilega baka hina hefðbundnu “hveder”, einskonar brauðbollur, sem ristaðar eru í ofni og borðaðar heitar með smjöri og sultu-taui. Að baka og borða þessar bollur á "store bededag" er gamall siður hér í Danmörku og einhvern veginn minnir mig að upskriftin eigi rætur sínar að rekja til tíma skorts og fátæktar. Kaupmannahafnarbúar gerðu sér svo dagamun á þessum degi með því að spássera um varnargarðana og nutu útsýnisins yfir sveitir og sund. Eftir göngutúrana snæddu þeir þessar bollur og drukku te.

Við höfum haldið þessum sið og oftar en ekki boðið til okkar gestum. Góður rómur hefur svo verið gerður að þessum einföldu bollum. Það var eingin breyting á þennan morgun, en þó óvenju gestkvæmt. Gestir okkar, Linda, móðursystir konu minnar er í heimsókn frá Íslandi ásamt syni sínum, Davíð. Þau hafa verið hjá okkur í góðu yfirlæti frá því á þriðjudaginn og voru að sjálfsögðu við morgun- verðar- borðið. Ég hringdi svo í hann Tryggva Guðmunds-son góðvin okkar fjölskyld-unnar og bauð honum og börnum og njóta með okkur bakkelsisins í morgunsólinni. Tryggvi hefur einstaklega góða og skemmtilega nærveru og líkt og börnin hans, Noah og Embla eru þau alltaf til í mannfagnaði og mannamót. Ég vakti kappan af værum blundi, en tuttugu mínótum stóð hann í garðinum með krakkana nýkempdur, í sandölum og með sólgleraugu. Tryggvi er mikill lífskúnstner, maður andans og hins skrifaða orðs. Hann er lærður guðfræðingur, er ljóðskáld og semur svo tónlist af miklum móð.

Fyrri hluta dagsins nutum við svo veitinganna, spiluðum kúluspil að hætti fransmanna og ræddum hin ýmsustu málefni. Krakkarnir voru í miklu fjöri og voru alsæl með þetta allt saman. Þau sippuðu, léku sér í boltaleikjum og blésu sápukúlur. Óliver naut svo allrar athyglinnar og lét ýta sér um allt á hlaupahjólinu.

Hinn stóri bænadagur “store bededag” er fyrirbæri sem á sér nokkuð sérstæða sögu sem ég er að kynna mér betur. En ég get samt ljóstrað því að hinn margrómaða leti og dramb dana liggur til grundvallar þessum degi. Ég skrifa þá sögu seinna.

góðar stundir.

föstudagur, maí 12, 2006

Hörkukvendið Hildur


Systir konu minnar hún Hildur Ösp Sigurjónsdóttir er ung og hraust grafarvogsmær. Hún er 15 ára og er líkt og allflestir jafnaldrar hennar nýbúin að ljúka samræmdu prófunum. Í samtali við skálm guðmundar fyrir stuttu sagðist hún sér hafa gengið nokkuð vel. Prófin voru nokkuð erfið að hennar sögn, en langt frá einhver hindrun. Hún sagðist þó viss um að flestir bekkjarfélagar hennar hefðu lent í vandræðum enda ganga þau flest ekki heil til skógar greyin. Hildur sagði það engin spurning um hvort hún myndi dúxa enda væru gáfnarfari hennar fá takmörk sett. Heimboð að Bessastöðum til Óla og Dorritar væri væntanlega á næsta leyti og reiknaði hún einnig með því að tilboðum frá æðri menntastofnunum myndi rigna inn um bréfalúguna í Funafoldinni á næstu dögum. “ég skoða þessi tilboð í rólegheitunum og sé svo til, ...jafnvel að maður taki sér pásu frá bókunum einhverja stund og skelli sér í fiskvinnslu í Bolungarvík, ...ég hef alltaf haft einstakt dálæti á þeim fallega stað!” sagði Hildur. Hvað sem verður er víst að framtíð Hildar verður glæst, hvort sem verður í lögfræðideildum háskólana eða frystiklefum frystihúsana.

En Hildur dvelur ekki lengi yfir bókunum. Stúlkan hefur einstaka þörf á að bjóða náttúruöflunum byrgin og takast á við djarfar áskoranir. Hún segist alger adrenalínfíkill og það sé fátt sem hún ekki þori. Hún segist vorkenna bekkjar-félögum sínum vegna hugleysis og aumingja-skaps sem þau geta sýnt þegar á hólmin er komið. Hún hlær framan í hætturnar og segir það fátt sem komið geti henni úr jafnvægi. Undirritaður getur vitnað um það, eitt dæmi um það var hvílíkt æðreleysið og hugarró sem hún sýndi í rússíbananum í Köben síðastliðið haust. “næsta skref er base-jumping eða eitthvað álíka, ...ég á svo eftir að taka aumingjann hann David Blane í nefið, hvað heldur maðurinn að hann sé, ...ægilega töff að anda í gegnum rör í vatnskúlu, eða þannig! ...gullfiskurinn minn var í vatnskúlu í marga mánuði, með ekkert rör og þurfti ekki fólk til að klappa fyrir sér.” Sagði Hildur fyrir stuttu.

Óvissan, myrkrið, lóðrétt fall og hringiður eru daglegt brauð fyrir þessa ungu framakonu. Eftir samræmdu prófin reif hún lúðulakana í bekknum sínum með í óvissuferð. Hún sagði hlæjandi hafa sett saman gott prógram sem ætti að geta hrætt líftóruna úr þessum greyjum. “við keyrðum austur í Hveragerði sem er stórhættulegt jarðskjálftsvæði og þar sendi ég liðið undir einhver foss og lét þau hanga í einhverju sigbelti yfir iðandi fljótinu. ...þau voru öll með pulsuna í brókunum.” Eftir þessa uppákomu þar sem hún sýndi liðinu nokkur góð trikk í háloftunum var keyrt austur að Hvítá. “þá fyrst byrjaði fjörið” sagði Hildur. Ég skellti liðinu í smá River Rafting og aumingja liðið lagðist öskrandi á mömmur sínar, með rófurnar á milli lappana niður í bátana.” Hópurinn stoppaði nokkrum sinnum á leiðinni niður brjálaðar flúðirnar til að Hildur gæti sýnt þeim klettadýfingar. Hún fleygði sér fram af hverjum klettinum á fætur öðrum og kliður fór hvert sinn um mannskapinn. Hún henti sér bæði aftur á bak og áfram og gerði allskins kúnstir. “Krakkagreyin voru taugahrúgur, en ég skemmti mér konunglega yfir ræflaskapnum í þeim”.

Ferðin og próftímin var tími þar sem ég innti mína vinnu af hendi af einskærri skyldurækni, en vona að framtíðin beri alvöru áskoranir í skauti sér.

...Call me ID.! ...I for intelligent og D for danger. H.Ö.S.

Olli Sjarmör


Óliver ætlar að kippa í kynið og verða stórsjarmör eins og annar karlpeningur í fjölskyldunni. Stelpurnar á vöggustofunni verða meyrar í hnjánum þegar kappinn birtist á morgnana. Það er erfitt fyrir þær að standast þennan ljóshærða víking þegar hann kemur með slefsmekkinn sinn og röndótta hattin og brosir með breiða frekjuskarðinu. Sérstaklega er það hún Soffía litla sem fær stjörnur í augun þegar hún sér “lille Oliver” sem hann er enn kallaður til að aðgreiningar frá hinum Óliverunum sem stærri eru. Hún tekur alltaf á móti honum þegar hann mætir. Hún hættir öllu sandáti, kastar frá sér skóflu og fötu og skríður á fætur. hún lætur jafnvel eftir dýrmætt plássið í sandkassanum einungis til að tryggja sé hönd hins íslenska víkings. Óliver er náttúrulega ánægður með athyglina, pýrir augun af töffaraskap og setur stút á munnin. Henni er alveg sama þó að sleftaumurinn hangi niður á bringu og að reglulega ilmi hann af smáslysi niðri í bleyjunni.

Soffía er með þolinmæðina í lagi. Henni er alveg sama þó að Óliver geri fátt annað en að hlaupa upp og niður trérampann við rennibrautina með krepptar hendurnar á lofti og góli eitthvað óksiljanlegt. En öðru hvoru vill hún þó eitthvað annað. Hún setur Óliver í einhverja hlutverkaleiki eða fer með hann í rómantíska göngutúra. Hún vill sitt og Óliver samþykkir að sjálfsögðu þegjandi.

Fyrir algera tilviljun er ég svo að vinna á sama stað og Mamma hennar Soffíu. Ég ræddi við hana um daginn og sagði hún mér að litla daman segði eingöngu sögur af Óliver við matarborðið að kvöldi dags. Já, hann er með sjarmagenið í lagi pilturinn. En sem komið er er það hún Soffía sem hefur tögl og haldir í þessu sambandi, en jafnvægi mun örugglega komast á þegar Olli hefur komist af Pampers-stiginu.

Ég hef trú á þessu sambandi

...Always take the weather with you, everywhere you go

sungu piltarnir í Crowded house í frábæru lagi. Þetta eru orð sem við reynum að gera hátt undir höfði hér á heimilinu. Upp á síðakstið finnst okkur vel hafa tekist til við að taka veðrið með okkur. Sólin og sumarblíðan hefur elt okkur um álfuna þvera og endilanga. Það er nú samt þannig, að það er ekki sama hvaða veður maður hefur í farteskinu og um að gera vanda vel til valsins. Við ákváðum til að mynda að skilja kulda, bleytu, og hvassviðrið eftir í kóngsins köben er við héldum suður á bóginn. En sólin, hitinn og sumarsælan fékk að fljóta með í annars úttroðnum pinglunum þegar heim var farið.

Sumarið kom á einni nóttu hér í köben. Frá kuldagalla á laugardegi til klip-klappers á sunnudegi. Kerlingarnar spranga nú orðið um göturnar á hvítum hörklæðum og karlarnir bera bumbuna í svörtu leðurvesti svo sjást í föl húðflúrin. Bjórþyrstir bekkjarvermar píra augun undan skreyttu kaskeytinu, hljæja hásir af barnslegri gleði milli túrana að pulsuvagninum. Gluggar standa opnir og og gasolin tónar breiðast um alla götur “smukke unge mennesker”. Danir elska 80´s tónlistina sína og spila alla slagarana frá þeim tíma á sumrin, og fátt eitt getur komið stuðinu upp en góðir tónar frá Thomas Helmig, Sanne Salomonsen, Søs Fenger, Dansorkesteret og fleirum.

“Sumarið er tímin” söng svo Bubbi og fátt eru meiri sannindi. Danir elska sumarið, þeir elska að vera með hvor öðrum og elska að vera með rjóðar kinnar af öldrykkju og síðast en ekki síst elska þeir að gera ekki neitt. Fyrir vinnusjúkan íslending sem varð að drekka þriðjudagsbjórinn sinn undir sófa af ótta við að nágranarnir sæju til, og sem þurfti að hlaða grjóti ofan á tjaldið í sumarútileigunni svo það fyki ekki eru þetta góðir tímar. Hægt og rólega hefur maður skift um gír, og nú er svo komið að maður setur upp stór augu nefnir einhver auka- eða yfirvinnu. Hver dagur inniheldur tvo daga, einn vinnudag og einn frídag. Það er komið heim úr vinnu um miðjan dag og allt sídegið eftir. Bjórdrykkjunni fer reyndar ekki mikið fyrir hjá okkur, eða annað af ósiðum fyrrum nýlenduherrana. Auðvitað er drukkið vín með góðum mat og drukkin öl á góðra vina fundum, en drykkja af skyldurækni er liðin tíð. Það var nefnilega þannig fyrst þegar við fluttum, þá fannst mér það hrein svik við öll tækifærin sem mættu mér í búðunum að nýta þau ekki. Hvernig gat maður staðist bjórkassan sem kostaði ekki nema 900 Isk og hvítvínið sem kostaði bara 250 Isk.?

Það verður ekki tekið fyrir það að margt í samfélaginu ýtir undir synduga lifanaðarhættir. Ef syndirnar sjö og viðurlög við þeim væru á rökum reistar brynnu flestir danir í hreinsunareldinum. Í stuttu máli virðist sem svo að syndir Íslendinga eru dyggðir dana.

Það er margt skrítið í kýrhausnum, ...en í minni sveit var hann samt étinn.

fimmtudagur, maí 11, 2006

ummæli dagsins.

heyrði sagt í útvarpinu áðan og haft eftir friðrik prússakonungi.

"eftir því sem ég kynnist manninum betur, líka mér betur og betur við hundinn minn"

Kannski að þetta sé einhver heimspeki sem danir og þjóðverjar hafa tekið til sín.

...og þetta með barneignir,

er töluvert á döfinni hérna á meginlandinu. Heyrði í útvarpinu áðan umfjöllun um barnseignir þjóðverja eða öllu heldur barnleysi. Þjóðverjar standa frammi fyrir miklum vanda vegna öldrunar þjóðarinnar líkt og danir. Þeir telja með réttu það vera mikin ábyrgðarhluta að eignast barn í nútímasamfélagi. Lifnaðarhættirnir séu orðnir á þá vegu að börn passi ekki inn í daglegt amstur fólks. Til að fullnægja eðlislægri umönnunarþörf hafa þeir tekið hundana til sín og er svo komið að fleiri hundar eru í þýskalandi en börn (ef ég skildi þetta rétt).

Á mörgum sviðum þjóðlífsins eru hundarnir svo velkomnari en börnin. Leigusalar skella hurðum framan í örvæntingarfullar barnafjölskyldurnar en falla á kné yfir krúttlegum trýnum litlu kjölturakkana. Einnig er umburðalyndi þjóðverjana gagnvart börnum mjög bágborið, en sífellt gelt og urr hundana er sem söngur í eyrum þeirra. Þjóðverjar segja að það sé tákn um siðmenningarstig samfélagsins hvernig komið sé fram við dýrin. (reyndar hef ég heyrt þetta sama sagt um þá látnu, kannski að dauðir og dýr séu á sama stalli í Þýskalandi, ekkert skal raska ró þeirra)

En það skildi þó ekki verða siðmenningu þeirra að falli hvernig komið er fram við börnin. Það eru innflytjendafjölskyldurnar í þessum löndum sem ennþá nenna að eignast börn og ekki er á löngu að líða að germanirnir góðu verði í minnihluta í sínu eigin landi.

En það er náttúrulega heldur ekki hægt að hrúga niður einhverjum barnahópi bara sí svona af því að amma og afi gerðu það. Kröfurnar og þarfirnar eru aðrar. Í dag skal allt skipulagt og allt að vera fyrirséð. Hér í Danmörku eru allir með dagatöl og hafa skipulagt árin langt fram eftir aldri, dag fyrir dag. Ekki svo að þeir séu svo duglegir að þeir þurfi að skrifa hjá sér minnispunkta til að muna í erli dagsins, nei yfirleitt snýst þetta um að muna að mæta í rjómatertuboð hjá ömmu eða drekkja föstudagsbjór með vinnufélögunum. Barnseignir og uppeldi barna er ekki hægt að skipuleggja og kannski að danir fyllist hryllingi við líf með lausum endum.

Það hefur reyndar brugðið við hérna að mig hefur fundist danir hafa stuttan þráðinn gagnvart börnunum. Þeir umbera illa að börnin ganga og hlaupa um gólfin, en um rokkmúsik og brennivínsdrykkjur nágranana allar nætur er þeim alveg sama. Umburðarlyndið þeirra gagnvart því að fólk geri sér glaðan dag er án allra takmarka.

..."skrue op for musikken for fanden og give mig en øl, jeg skal have det hyggeligt", segja þeir með remúlaðirödd og rauðsprungnir í kinnum. "Hold kæft din møgunge", segja þeir svo við börnin grimmir á svip, því ekkert er eins vænlegt að trufla þá í hyggeskapnum eins og krakkar á leik.

...hygge, hygge

Alvöru barnahópur

Amma og Afi á ströndunum voru ekki að tvínóna við hlutina í barneignum. Þau eignuðust 14 börn og komust þau öll á legg, sem þótti merkilegt á þeim tíma. Þau bjuggu mestalla ævi sína á nyrstu ströndum, á bæjunum Dröngum og Seljanesi, fjarri öllu þéttbýli. Aðstæður til búskabs voru oft á tíðum erfiðar og veturnir langir norður við heimskautsbaug. Þetta þótti kannski ekkert tiltökumál á þeim tíma og brjál heimsins og stöðutákn ekki ákallandi. Drangar þótti alltaf hin mesta matarkista og ekki hefur veitt af til að fæða svanga munna. Æðruleysi, Hreinskilni og djúp réttlætiskennd hefur svo einkennt þetta fólk.

Á myndinni vantar 3 systurnar og lengst til vinstri er svo hann langafi minn.

Danirnir reka upp stór augu og sperra eyrun þegar ég segi þeim frá þessum barnahópi, eru ekki vanir svona frjósemi.

Það eru aðrir stórir barnahópar í fjölskyldunni, til dæmis voru systkyni móður ömmu minnar 19 talsins að henni meðtaldri.

...maður kippir í kynið, eða hvað?

miðvikudagur, maí 10, 2006

Vestfirska perlan í sápukúlu.

Hér á bæ hefur fátt annað verið rætt um eða lesið síðustu daga, en um Perluna vestfirði. Mér fannst vera skrifað og fjallað um þennan atburð hvert sem ég snéri mér og á tímabili fannst var eins og allur heimurinn væri örugglega að fylgjast með. Tóti Vagns lýsti framgöngunni nokkuð örugglega á hinni frábæru heimasíðu Bolungarvíkur og á bb.is var líka góð umfjöllun. Af myndum og umfjöllun er svo að dæma að þetta hafi verið hin besta kynning. Eftir að Sossa sendi mér skilaboð á MSN og sagði mér stolt frá föður mínum Arngrími sem var þarna í hlutverki hins vestfirska útlaga, óskaði ég mér að ég væri á staðnum. Karlinn hann pabbi var búin að vera spenntur fyrir þessa helgi, þar sem hann átti að klæðast ægilegri múnderingu og leika útlaga. Maðurinn er náttúrulega útlagi að holdi og hári og enginn betur til þess fallin en að hleypa lífi goðsognina um fjallbúann. Af myndum af dæma er hann svo hrikalega flottur karlinn.

Tóti og systkyni hans eiga öll hrós fyrir elju sína við að blása lífi í glóðirnar í víkinni okkar góðu. Það hlýtur að koma að því að eitthvert þeirra fái fálkaorðuna.! Hvar væri víkin án þeirra spyr ég bara.? Það kemur að því að maður eyði einu sumri fyrir vestan og andi að sér þessari hrífandi stemningu. Það er nú kannski ekki raunhæft að flytja með alla fjölskylduna vestur og setjast þar að til langframa. Ég hef samt alltaf haldið í þann draum og alltaf langað til að leggja mitt af mörkum til bæjarins. Vakandi og sofandi koma upp allskonar hugmyndir hjá manni um hvernig hægt væri að auka atvinnumöguleikana og efla mannlífið. En dagdraumarnir eiga það til að springa eins og sápukúlur, þegar raunveruleikinn kallar.

Ég er að vinna að skipulagningu ósvararsafnsins og þar finn ég oft farveg fyrir þessar hugmyndir. Ósvörin hefur alla möguleika á að vera kennimerki Bolungarvíkur og ekki óhugsandi að þetta eitt sinn fjöregg samfélagsins verði það aftur í nýju samhengi.

Ég vona bara að sólroðinn við sjóndeildarhringinn, þessi dögun verði að glampandi sólskini á heiðum himni Bolungarvíkur.

Áfram víkarar.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Anna Bína á afmæli


Systir mín hún Anna Jakobína á afmæli í dag. Hún er orðin 24 ára og fær frábærar hamingjuóskir frá okkur í Danmörku. Anna Jakobína er einstök manneskja sem við höldum öll mikið upp á. Karen Embla saknar hennar alltaf jafn mikið og talar alltaf um hana sem stóru systir sína. Anna Bína er flutt tímabundið aftur til föðurhúsanna og vonandi fer vel um hana á æskustöðvunum.

Til hamingju með daginn.

Saknaðarkveðjur frá Danmörku.

Aumur rass, vatnið og magapína

Gærdagurinn var einhver fallegasti dagur ársins hér í Köben. Sólin skein á skærbláum himninum og svalur vestanvindurinn bærði til nýútsprungnum laufblöðum trjánna. Allstaðar var fólk búið koma sér fyrir í almenningsgörðunum með bækur og svaladrykki til þess að baða bleikan skrokkinn í hinum eftirsóttu sólargeislum.

Ég hjólaði áreiðanlega um 70 kólómetra í gær um hjólreiðastíga borgarinnar sem bera nafnið "de grønne cykelruter", á vegum vinnunnar. Ég fékk náttúrulega auman rass og harðsperrur af þessu, en líka nóg af fersku lofti. Ætlunin var að skrá þá staði sem vantar inn á stígakerfið svo að það hangi saman, svokallaða “missing link”. Þessir hjólreiðarstígar liggja að mestum hluta til í friðsælu og grænu umhverfi og þekur stóran hluta borgarinnar. Það er ótrúlegt að í svona borg eins og Kaupmannahöfn sé hægt að gera svona stíga umhverfis hana alla og innan hennar einnig. Oftar en ekki eru það gömul járnbrautarsvæði sem hafa verið notuð undir þessa stíga sem og gamlir varnargarðar. Þetta eru svæði sem hafa mótað borgina að mörgu leyti, hafa sloppið undan árás fasteignarmógúlana og eru í dag grænar vinjar í múrsteinaríkinu.

Í skipulagsgeiranum hafa menn úr miklu að moða og oftar en ekki eru svæðin sem unnið er með svæði á besta stað. Iðnaðurinn er að hverfa úr höfnunum sem gefur möguleika á að skipuleggja þær algerlega upp á nýtt með nýjum forsendum. Nálægðin við vatnið er allt sem þarf til að fá fjárfesta til að standa í röðum, ekkert er eins söluvænlegt. Vatn og sjór er að verða eitt hið dýrmætasta sem arkitektar fá inn á borð til sýn. Allstaðar er vatn, skurðir eru mokaðir um allt til að koma vatni að glerhýsum stórfyrirtækjanna og glæsiíbúðum hinna nýríku. Forfeðurnir unnu reyndar með berum höndum við það í áratugi að koma vatninu burt og auka landrými til ræktunnar. En hvað um það, það á víst að veita lausn frá stressi nútímans að glápa á vatn og þá verður hvergi sparað. Er svo ekki betra að þetta lið stari á vatnið bærast en að það sé útúrspíttað á kóki eða hoppi niður af Langebro.?


Nú sit ég og geri grein fyrir því sem augu bar í gær, skrái missing links. Að sjálfsögðu er “deadline” sem þarf að halda og um að gera að drífa þetta af. Það var þess vegna ekki um annað ræða en að vinna heima í dag vegna þess Karen Embla er heima vegna veikinda. Hún er alltaf með einhverja magaverki og verður Jón læknir heimsóttur seinnipartinn og stúlkan rannsökuð. Henni leiðist náttúrulega greyinu, er að reyna lesa í skólabókunum. Hún er að sjálfsögðu dálítið óhress með að pabbi skuli skammta sjónvarpsglápið og tölvunotkun. Ég líð lítið eitt fyrir það, hún ráfir eilítið um og er sífellt að kalla á athygli mína, finnur ekkert til að gera, ...að eigin sögn. Sólin skín glatt svo speglar á hvern glugga handan götunnar. Það standa allir gluggar opnir og umferðarniðurinn heyrist í fjarska. Fer að sækja litla manninn eftir smástund.

út vil ek.

mánudagur, maí 08, 2006

Nýjar myndir á barnalandinu

Hin myndarlega Sonja, eiginkona mín hefur sett fjölmargar skemmtilegar myndir inná heimasíður barnana á Barnalandi.is. Það eru tenglar hérna hægra megin á síðunni.

kveðjur.

sunnudagur, maí 07, 2006

Mannlífsmynd vikunnar

Mannlífið í allri sinni dýrð hefur alltaf verið í sérstöku dálæti hjá mér. Oftar en ekki get ég setið drjúga stund og fylgst með fólki og öðru sem fyrir augu ber. Það er ekkert án fólksins. Bæir og borgir, götur og torg fá fyrst einhverja þýðingu um leið og manneskjan stígur þar fram á völlinn. Og fátt er eins eftirsóknarvert og bæjarrými full af fólk. Haltrandi gamalmenni, glaðir gemlingar, stressaðir jakkafatagaurar, kaupóðar kerlingar, hnakkar, treflar og allir hinir sem setja svip sinn á flóru lífsins.

Maður er Mannsins megin.

Ætlunin er að setja inn eina mannlífsmynd vikulega, eða eftir því sem efni leyfa.

Myndin er tekin í á Ítalíu, Apríl 2006 í bænum Peschiera del Garda. Þröng strætin kræklast um allan bæinn sem byggður er innan hárra borgarmúra og er umlukinn stóru sýki. Ítalirnir eru ástríkir og miklir nautnaseggir og þrífst kvikt mannlífið einstaklega vel í hinu þröngu strætum sem gefa þessa hlýlegu nærveru.

uno gelato, per favore y uno ezpresso con latte. grazie.

Sunnudagur til sælu.

Sunnudagar eru ljúfir dagar og oftar en ekki er veðrið betra á sunnudögum en öðrum dögum. Allavega var það alltaf þannig í gamla daga í Bolungarvík og var það einnig svo í köben í dag. Dagurinn beið uppá rólegan morgun í faðmi fjölskyldunnar og eftir hádegi fór Karen í afmæli til bekkjarsystur sinnar hennar Rósu. Rosa býr á Nørrebro og urðum við enn einu sinni samferða Katja og pabba hennar Peter. Peter er hinn vænsti maður og ekki laust við að hann eigi inni hjá manni nokkra greiða. Peter starfar sjálfstætt sem málari og er nýbúin að eignast lítinn strák (Oscar) með seinni konu sinni henni Pia sem starfar sem heilari og miðill. Peter vinnur líka hörðum höndum við þróa fyrirtæki sitt HP Både, sem hann á með félaga sínum. Fyrirtækið sérhæfir sig í sölu á áströlskum bátum sem smíðaðir eru úr áli. Hann á einn slíkan sjálfan og er búin að bjóða okkur með í góðan túr í sumar hérna um Eyrarsundið.

Ég og Sonja notuðum tækifærið og tókum aðeins til og dittuðum að ýmsu hér á heimilinu. Vegna þess hve veðrið var gott stakk Sonja upp á að við færum í göngutúr niður á strönd. Við pökkuðum saman einhverju smálegu og héldum af stað. Niður á Amager Strandpark var töluverður fjöldi fólks að sóla sig og við hina ýmsu leiki í blíðunni. Amager Strandpark er eitthvert metnaðarfyllsta verkefni sem danir hafa ráðist síðan smíði Eyrarsundsbrúarinnar lauk. Það er ekki laust við að maður hlakki til sumarsins og að taka ströndina loks í notkun, en framkvæmdum lauk síðasta haust.

Við gengum meðfram ströndinni og fylgdumst með ógurlegum tilþrifum seglbrettakappana. Óliver fékk að spretta úr spori og naut víðáttunnar. Hann klifraði upp á allt sem hönd á festi og hljóp gólandi um með bros á vör. Við tókum okkur svo góða pásu á göngutúrnum við ísbúðina, með ís í hönd.

Eftir ísátið fórum við svo stuttan túr á hinn fræga flóamarkað Kaninen sem er eins konar sumarboði Amagerbúa. Þarna var fjöldi fólks, fjölmörg tívolítæki og Endalaust af sölutjöldum. Þarna var seldur allur fjárinn og hægt að gera reyfarakaup. Það var þess vegna kannski lán í óláni að hjónakornin voru ekki með neitt lausafé á sér og þarna var hvergi hægt að borga með korti. Við létum okkur nægja að rölta um í sólinni og skoða, ákváðum að láta kaupæðið ekki renna á okkur. Við röltum svo bara heim og tókum á móti Karen Emblu, sem kom heim úr afmælinu á sama tíma.

Ítrekaðar óskir hennar um að fá að borða venjulegan mat úti í garði rættust. Við bárum Spag-hettíið niður og nutum þess að borða í síðustu sólar-geislum dagsins. Karen aðstoðaði litla bróðir sinn við að koma matnum uppí sig sem gekk nokkuð vel. Það var óvenju mikið fjör í krökkunum í garðinum í dag og mikill ærslagangur. Óliver fannst hann hafa himinn höndum tekið og tók óhræddur þátt í leik stóru systur og hinna barnanna.

Dagur er að kveldi kominn.

Gvendur, ertu nokkuð kendur.?

Æskuvinur minn og látúnsbarkinn hann Guðmundur Óskar Reynisson á afmæli í dag 7. maí. Hann er 34 ára og héðan úr Danmörku fær hann hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Kor ol toma os gis.

laugardagur, maí 06, 2006

Markaðsdagurinn og barnafjöldi


Í dag laugardag var markaðs-dagur í skólanum hennar Karenar. Í blíðskapar-veðri og í félagsskap með fjöldan allan af foreldrum, ömmum og öfum, nemum og kennurum leið fyrri hluti dagsins. Þarna var á boðstólnum af öllu milli himins og jarðar, t.d. listaverk, leirtau, matur og sætindi, poppkorn, skrautmunir og skartgripir. Karen embla og bekkurinn hennar 2 UV sá um að selja poppkorn. Kvöldið áður hafði Karen verið að æfa sig á reikningsdæmum í sambandi poppkornssöluna. Ég lét hana reikna nokkur dæmi undir svefninn og ein spurningin var havð 3 áfyllingar ( 2 krónur per áfyllingu) og einn poppskál (5 krónu skilagjald) myndi kosta og hvað fengi ég til baka ef ég borgaði með 20 krónum. ...eftir stutta umhugsun með lokuð augun sagði hún: “13,...þú færð 13 krónur til baka”. Nei sagði ég, maður fær 9 krónur tilbaka 3 x 2 = 6, svo 5 plús 6 = 11, semsagt 9 krónur tilbaka. “ En pabbi” sagði Karen “ það kemst bara ein áfylling í hverja poppskál” og það kostar bara 7 krónur.

Karen seldi popp í stríðum straumi og var röðin að poppvélinni oft margir metrar. Við gæddum okkur á poppkorninu og svaladrykkjum og Óliver tók hressilega til matar síns. Hann var að fíla poppið í botn og var óhræddur við að sníkja hjá öðrum. Hann gekk bara að fólki með útrétta hendina og lét hendina vaða á kaf í poppskálina og tróð því upp í sig og gekk svo sína leið.

Á markaðnum var boðið uppá fjöldan allan af leikjum og skemmtiatriðum s.s. tískusýningu, töfratriði, breakdans, kúluspil, pílukast,"blautsvampakast" og margt fleira. Lakshana vinkona Karenar hafði meira að segja tekið marsvínin sín með og maður gat fengið að sitja með þau og klappa þeim fyrir eina krónu.

Við sátum og spjölluðum við hina foreldrana og fengum við ósjaldan "komment" á barnseignir okkar. Sonja er ófrísk og á að eiga okkar 3ja barn í ágúst og sú staðreynd leiddi til þess að hver af örðrum komu hinu geldnu danir með þessi "komment"; eru þið múslimar, nú má þetta vera nóg, hvað fáið þið eiginlega orðið í barnabætur.? vitið þið hvað getnaðarvarnir eru? og svo má lengi telja. Þetta var nú samt sem áður bara sagt í góðlátlegu gríni og hlegið með. En samt fylgir alvara hverju gamni og verður manni hugsað til þess að danir eignast fæst börn á norðurlöndunum og standa frammi fyrir alvarlegum vanda vegna fólksfæðar í framtíðinni og skorts á vinnuafli. Ég sagði dönunum jafnframt að 3 börn þætti nú ekkert tiltökumál á Íslandi og yfirleitt væru fjölskyldurnar nokkuð stórar. Ég og Sonja ræddum þetta svo í gærkvöldi og komumst að þeirri niðurstöðu að það heyrir til undantekninga að danir eigi fleiri en tvö börn. Við töldum upp fjöldan allan af fólki sem við þekkjum hér í hverfinu og allir eiga tvö börn. Kannski að íbúðarstærðirnar hér bjóði ekki uppá annað eða einhversskonar hljótt samþykki sé til staðar milli manna um að ekki nýta um of hið sameiginlega velferðarkerfi. Veit ekki hvað veldur. Reyndar hef ég heyrt því fleygt að það sé að komast í tísku að eignast mörg börn hérna í DK, sé orðið einhversskonar stöðutákn, gefi merki um hið margumtalaða "overskud" og að fjölskyldugildin séu í fyrirrúmi. En betur má ef duga skal.

...niður með brækur.