fimmtudagur, maí 25, 2006

Himnafartur krists og Kolonigarðar

Í dag er einn hinna mörgu frídaga snemm-sumarsins. Danir njóta dagsins í kartöflugörðum og flestir taka sér sér langa fríhelgi. Daginn í dag kalla danir Kristi-himmelfartsdag sem er nokkuð hljómfagurt nafn. Ég velti oft vöngum yfir íslenska heitinu, Uppstigningardagur þegar ég var patti í víkinni, fannst nafnið ekki fylgja almennum málfræðireglum. Uppstigning, veit ekki til að orðið sé almennt notað um gjörningin að stíga upp. Getur verið að ég misskilji þetta allt.! En í Danmörku fór kristur á fartinn til himins, á hálfgerðan himnafart.! Danir sem flestir eru illa kristnir nota að sjálfsögðu daginn til njóta tilverunnar og eru ekkert frekar en íslendingar uppteknir af því sem dagurinn tengist.

Annað sem heillar danina er að eyða svona dögum í "koloni" görðunum sínum. Þetta eru litlir garðar, með litlum kofum sem oftar en ekki er búið að gera að algerum paradísum. Garðarnir sem í árdaga voru staðsettir í þyrpingum útjaðri borgarinnar eru margir hverjir núna inni í miðri borg. Þessar þyrpingar eru sem grænar vinjar, oftar en ekki með eigin verslun, bakara, leiksvæði og þess háttar. Margir flytjast í þessa kofa yfir allt sumarið, flytja heimilsfangið og annað slíkt. Þarna ræktar fólk kryddjurtir, eplatré, jarðaber og annað góðgæti. Kofarnir eru svo innréttaðir með gömlum rómantískum munum, málaðir hvítir að innan og með brakandi gólfum, sem sagt alger nostalgíu-rómantík.

Það hefur svo hlaupið alger verðbólga í þetta fyrirbrigði síðustu misseri. Núna vilja allir eignast svona og á frjálsum markaði hefur verðið tífaldast á skömmum tíma. Reyndar eru flestir þessara garða innan félaga, sem eigendurnir á sama svæði hafa gert með sér. Félögin hafa svo einhverjan eignarrétt á svæðinu og hafa jafnvel sett reglur um hvernig kaupum og sölu á görðunum skuli fara fram. Oftar en ekki eru reglur um hámarksverð og hvernig að sölunni annars skuli staðið. Þetta hefur verið gert til að tryggja þann anda og íbúasamsetningu sem þarna hefur ríkt í gegnum tíðina.

Garðarnir voru í byrjun hugsaðir fyrir verkamannastéttina sem bjó í litlum íbúðum í óhreinni borginni. Þeir áttu að veita nauðsynlega snertingu við náttúruna og tryggja hvíld frá ys borgarlífsins. Fram að þeim tíma var það aðeins hin efnaða borgarastétt sem átti sumarhús og athvarf í friðsælu umhverfi.

Ræktun allskins grænmetis og ávaxta hefur svo alltaf verið stór hluti menningarinnar innan “koloni” garðana, sem örugglega hefur sparað öreigunum fé og tryggt þeim næringaríkt fæði.

Sumir garðana líkjast reyndar hálfgerðum ruslahaugum, þar sem ægir saman allskonar drasli. Þar búa oftast ölþyrstir danir í friði, með sitt smurbrauð, öl og jónu. Christianíustemninguna er stundum að finna á þessum stöðum og virðist sem sama speki sé ráðandi á báðum stöðum. Frjáls lífstíll og pláss fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Þarna birtist ljóslifandi hugmynd okkar frónbúa um hina ligeglade dani. Ef þeir eru einhverntíman ligeglade þá er það einmitt í Kolonigörðunum eða með ölkassan á nýhöfn.

Við hjónin ætluðum að tryggja okkur einn svona garð fyrir um ári síðan, en eftir töluverða leit gáfusmt við upp, tómhent. Garðarnir seljast manna á milli og eflaust eru tugir áhugasamir um hvern garð. Ef þeir eru seldi á frjálsum markaði kosta þeir svipað og lítil íbúð á góðum stað. Og draumurinn um svona verður varla að veruleika úr þessu. Þessa dagana eru fyrir dómstólum nokkur mál sem geta haft afgerandi áhrif á framtíð þessara garða, eða íbúasamsetningu þeirra. Eigendur garðana vilja fá að selja þá á frjálsum markaði til hæstbjóðenda, án tillits til reglna viðkomandi félags. Fyrstu dómarnir sem hafa birst benda til þess að fólki sé frjálst að selja eigur sínar á þann hátt sem þeim sýnist. Það er sem alltaf græðgin og mammonfeigðin sem dregur fram breiskleika mannsins. Grundvallarhugmyndin um athvarf fyrir hina efnaminni skeitir kapítalið ekkert um. Það er eins með þetta og verkalýðsfélögin að fólk áttar sig ekki á að samstaðan er oftast þeirra eina vopn.

Garðarnir voru svo friðaðir með lögum frá 2001, og fyrir skipulagsyfirvöld sem oftar en ekki horfa girnilegum augum á þessi svæði eru það þyrnir í augum. Sumir garðarnir eru á bestu byggingarlóðum borganna og eftirsótt af yfirvöldum og verktökum. En betur má ef duga skal, ef hinir nýríku ætla ekki að eignast þessar perlur þarf að tryggja það með einhverjum hætti. Annars verður þetta allt saman selt hæstbjóðanda og skriftofuhúsnæði byggt.

Ég hef svo verið að vinna hjá borginni þar sem við höfum átt í vandræðum með nokkra garða sem eru “fyrir” og þar geta menn bara tekið eignarnámi ef “almannaheill” krefst þess. Svo er einn helsti kolonigarða sérfræðingur dana Niels Jensen að vinna með mér. Hann hefur skrifað bók um efnið og er sjálfur af hinni sósíaldemókratísku kynslóð sem innleiddi hið frjálslynda félagshyggjuhugarfar í samfélagið. Hann vill meina að margir garðana séu á gráu svæði, kannski ólöglegir. Stundum hafi hópur fólks bara byggt sér kofa einhverstaðar og það þróast til að verða þyrping húsa, líkt og í Christianíu. Vonandi að dönum beri gæfa til að varðveita þessa einföldu og manngóðu lífsspeki sem hefur fætt af sér þetta fyrirbrigði.

...frjálslyndi og félagshyggjuhugarfar
eru fallegt og kærlegt par.
Voru áður en ekkert var
allt sem veitti eitthvað svar.

Engin ummæli: