laugardagur, maí 27, 2006

Laugardagur inna dyra.

Veðrið hefur verið svona grátt og leiðinlegt síðustu daga, öðruhvoru koma þó sólstafirnir fram úr skýjunum og ylja sinni og skinni. Kolgrár himinin leysir reglulega hinar ægilegu þrumur og eldingar úr læðingi, með glæringum og braki. Fyrir nokkrum dögum breyttist veðrið á svipstundu, það hvessti á augnabliki og svo varð algert skýfall með hagléli. Á örfáum mínútum varð yfirborð borgarinnar hrímgrátt og margt lauslegt fokið um koll. Það lyngdi svo jafnt snöggt og það hvessti.

Það var þó ekki vegna veðurhræðslu að við ákváðum að vera bara heima fyrir í allan dag. Okkur fannst bara tími til komi að við hefðum það gott og notalegt heimafyrir, svo er Karen Embla illa rólfær sem og Sonja, sem reynir að hvíla sig eftir megni.

Það var þó ekki aðgerðarleysi sem gerði vart við sig, þvert á móti. Við spiluðum, það var teiknað og málað, gerður heimalærdómur, púslað, bakað, hlustað á tónlist, dittað og dundað. Semsagt hin ágætasti dagur í faðmi fjölskyldunnar. Óliver lék sér við sjálfan sig og lét sér ekkert leiðast.

Kaffitíminn bauð svo upp á heitt kakó með rjóma og ilmandi múslibollur til að undirstrika töfrandi stemninguna.

Karen Embla bíður orðið spennt eftir að fá Jón Hall frænda sinn í heimsókn, en von er á honum á mánudaginn. Jón segist sjálfur hlakka til, finnst gaman að koma og sjá litlu frændsystkynin sín, svo finnst honum hann bera blóð til skyldunnar til að hjálpa stóra bóður sínum. Hann er meira að segja að taka sér frí í vinnunni strákurinn. Nú á hann einn inni hjá okkur.

Raggi bróðir bauðst einnig til að koma og hjálpa, en það er auðveldara að níðast á Jóni J og varð hann fyrir valinu. Það er samt ómetanlegt að vita að maður getur treyst á fjölskylduna sína þegar sverfir að og ekki síst þegar maður býr handan hafsins.

...næsta blogg verður örugglega um kosningarnar.!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hi! Just want to say what a nice site. Bye, see you soon.
»