fimmtudagur, maí 11, 2006

...og þetta með barneignir,

er töluvert á döfinni hérna á meginlandinu. Heyrði í útvarpinu áðan umfjöllun um barnseignir þjóðverja eða öllu heldur barnleysi. Þjóðverjar standa frammi fyrir miklum vanda vegna öldrunar þjóðarinnar líkt og danir. Þeir telja með réttu það vera mikin ábyrgðarhluta að eignast barn í nútímasamfélagi. Lifnaðarhættirnir séu orðnir á þá vegu að börn passi ekki inn í daglegt amstur fólks. Til að fullnægja eðlislægri umönnunarþörf hafa þeir tekið hundana til sín og er svo komið að fleiri hundar eru í þýskalandi en börn (ef ég skildi þetta rétt).

Á mörgum sviðum þjóðlífsins eru hundarnir svo velkomnari en börnin. Leigusalar skella hurðum framan í örvæntingarfullar barnafjölskyldurnar en falla á kné yfir krúttlegum trýnum litlu kjölturakkana. Einnig er umburðalyndi þjóðverjana gagnvart börnum mjög bágborið, en sífellt gelt og urr hundana er sem söngur í eyrum þeirra. Þjóðverjar segja að það sé tákn um siðmenningarstig samfélagsins hvernig komið sé fram við dýrin. (reyndar hef ég heyrt þetta sama sagt um þá látnu, kannski að dauðir og dýr séu á sama stalli í Þýskalandi, ekkert skal raska ró þeirra)

En það skildi þó ekki verða siðmenningu þeirra að falli hvernig komið er fram við börnin. Það eru innflytjendafjölskyldurnar í þessum löndum sem ennþá nenna að eignast börn og ekki er á löngu að líða að germanirnir góðu verði í minnihluta í sínu eigin landi.

En það er náttúrulega heldur ekki hægt að hrúga niður einhverjum barnahópi bara sí svona af því að amma og afi gerðu það. Kröfurnar og þarfirnar eru aðrar. Í dag skal allt skipulagt og allt að vera fyrirséð. Hér í Danmörku eru allir með dagatöl og hafa skipulagt árin langt fram eftir aldri, dag fyrir dag. Ekki svo að þeir séu svo duglegir að þeir þurfi að skrifa hjá sér minnispunkta til að muna í erli dagsins, nei yfirleitt snýst þetta um að muna að mæta í rjómatertuboð hjá ömmu eða drekkja föstudagsbjór með vinnufélögunum. Barnseignir og uppeldi barna er ekki hægt að skipuleggja og kannski að danir fyllist hryllingi við líf með lausum endum.

Það hefur reyndar brugðið við hérna að mig hefur fundist danir hafa stuttan þráðinn gagnvart börnunum. Þeir umbera illa að börnin ganga og hlaupa um gólfin, en um rokkmúsik og brennivínsdrykkjur nágranana allar nætur er þeim alveg sama. Umburðarlyndið þeirra gagnvart því að fólk geri sér glaðan dag er án allra takmarka.

..."skrue op for musikken for fanden og give mig en øl, jeg skal have det hyggeligt", segja þeir með remúlaðirödd og rauðsprungnir í kinnum. "Hold kæft din møgunge", segja þeir svo við börnin grimmir á svip, því ekkert er eins vænlegt að trufla þá í hyggeskapnum eins og krakkar á leik.

...hygge, hygge

Engin ummæli: