fimmtudagur, maí 04, 2006

...og af börnunum


er allt gott að frétta. Óliver Breki er að taka einhvern gríðarlegan vaxtarkipp og borðar sem aldrei fyrr. Drengurinn er ekki ánægður með sinn hlut hafi hann ekki báðar hendur fullar af mat og úttroðinn munninn. Öðru hverju skyrpir hann svo öllu út úr sér á gólfið þegar hann er þreyttur á að tyggja. Nú er sumarið komið með sól á himni og þess vegna hefur snjógallanum verið lagt, og klæðaburðurinn heldur léttari, öllum til ánægju. Gallabuxur, strigaskór, síðerma bolur og jakki er allt sem þarf og kappinn er klár. Hann verður reyndar alltaf að hafa sængurverið og snuðið sitt með ætli hann að fást til að koma með í kerruna, svo frumstæðar eru þarfirnar ennþá. Hann hefur reyndar ekki verið alltof ánægður með að vera skilin eftir á vöggustofunni undanfarna daga. Hann hefur reynt öll brögð, grátið, falið sig eins og mörgæsaungi milli lærana á manni, ríghaldið sér og horft biðjandi með þessum bláu augum. Já, það er ekki auðvelt að vera foreldri á svona stundu og ekki laust við að samviskan nagi sig inn í innsta merg. En hann Óliver er þó yfirleitt kátur og reifur og alltaf til í að tralla með foreldrum sínum. Eltingarleikir, slagsmál og feluleikir eru í sérstöku uppáhaldi hjá honum, sem og að æfa sirkusatriði með pabba sínum. Hann prísaði sig sérstaklega sælan með rauða Formúla 1, ferrari bolinn sem hann fékk í Monaco á dögunum. Dansaði trylltan dans hvert sinn sem tónlistinn hljómaði, klappaði saman höndunum og skríkti.

Karen Embla byrjaði strax á stífa vikuprógramminu sínu á þriðjudaginn var með dansæfingu í kúltúrhúsinu. Hún fylltist nú einhverjum trega greyið fyrsta skóladaginn og átti erfitt með að sætta sig við að fríinu var lokið. En það lagaðist fljótt. Hún átti eftir töluverðan heimalærdóm eftir fríið sem hún hefur verið dugleg við klára sig í gegnum. Einn og sama daginn reiknaði hún 3 síður í reikningsbókinni og las eina lesbók í íslensku ásamt öllu hinu sem 8 ára dömur gera á venjulegum degi. Miðvikudagur er dagur sem við öll höfum ánægju af, þá er ekkert aukaprógram. Karen fór í heimsókn til Lakshi og var Þar fram eftir degi. Í dag fimmtudag er það körfuboltaæfing og í þessum töluðu orðum sýnir hún snilldartakta á vellinum. Hún hefur virkilega fundið sig í þessari íþrótt og hlakkar alltaf til að komast á æfingarnar. Núna í sumar fer hún upp um einn flokk og þá verður æft tvisvar í viku. Liðið hennar Karenar, BK Amager er eitt besta félagið í Danmörku og unglingastarfið hjá þeim ofslalega fagmannlegt unnið. Karlaliðið varð bikarmeistari í ár og lenti í 3ja sæti í deildinni, og svo eru unglingastelpurnar með þeim bestu á norðulöndum. Svo finnst henni ekstra gaman að vera með vinkonu sinni og bekkjarsystur henni Kötju, sem einnig er í liðinu. Við Karen erum líka oftast samferða henni og pabba hennar og þetta er oftast hin skemmtilegasta stund.

Lets go Ama'r, lets go

Engin ummæli: