föstudagur, maí 12, 2006

Olli Sjarmör


Óliver ætlar að kippa í kynið og verða stórsjarmör eins og annar karlpeningur í fjölskyldunni. Stelpurnar á vöggustofunni verða meyrar í hnjánum þegar kappinn birtist á morgnana. Það er erfitt fyrir þær að standast þennan ljóshærða víking þegar hann kemur með slefsmekkinn sinn og röndótta hattin og brosir með breiða frekjuskarðinu. Sérstaklega er það hún Soffía litla sem fær stjörnur í augun þegar hún sér “lille Oliver” sem hann er enn kallaður til að aðgreiningar frá hinum Óliverunum sem stærri eru. Hún tekur alltaf á móti honum þegar hann mætir. Hún hættir öllu sandáti, kastar frá sér skóflu og fötu og skríður á fætur. hún lætur jafnvel eftir dýrmætt plássið í sandkassanum einungis til að tryggja sé hönd hins íslenska víkings. Óliver er náttúrulega ánægður með athyglina, pýrir augun af töffaraskap og setur stút á munnin. Henni er alveg sama þó að sleftaumurinn hangi niður á bringu og að reglulega ilmi hann af smáslysi niðri í bleyjunni.

Soffía er með þolinmæðina í lagi. Henni er alveg sama þó að Óliver geri fátt annað en að hlaupa upp og niður trérampann við rennibrautina með krepptar hendurnar á lofti og góli eitthvað óksiljanlegt. En öðru hvoru vill hún þó eitthvað annað. Hún setur Óliver í einhverja hlutverkaleiki eða fer með hann í rómantíska göngutúra. Hún vill sitt og Óliver samþykkir að sjálfsögðu þegjandi.

Fyrir algera tilviljun er ég svo að vinna á sama stað og Mamma hennar Soffíu. Ég ræddi við hana um daginn og sagði hún mér að litla daman segði eingöngu sögur af Óliver við matarborðið að kvöldi dags. Já, hann er með sjarmagenið í lagi pilturinn. En sem komið er er það hún Soffía sem hefur tögl og haldir í þessu sambandi, en jafnvægi mun örugglega komast á þegar Olli hefur komist af Pampers-stiginu.

Ég hef trú á þessu sambandi

Engin ummæli: