þriðjudagur, maí 09, 2006

Aumur rass, vatnið og magapína

Gærdagurinn var einhver fallegasti dagur ársins hér í Köben. Sólin skein á skærbláum himninum og svalur vestanvindurinn bærði til nýútsprungnum laufblöðum trjánna. Allstaðar var fólk búið koma sér fyrir í almenningsgörðunum með bækur og svaladrykki til þess að baða bleikan skrokkinn í hinum eftirsóttu sólargeislum.

Ég hjólaði áreiðanlega um 70 kólómetra í gær um hjólreiðastíga borgarinnar sem bera nafnið "de grønne cykelruter", á vegum vinnunnar. Ég fékk náttúrulega auman rass og harðsperrur af þessu, en líka nóg af fersku lofti. Ætlunin var að skrá þá staði sem vantar inn á stígakerfið svo að það hangi saman, svokallaða “missing link”. Þessir hjólreiðarstígar liggja að mestum hluta til í friðsælu og grænu umhverfi og þekur stóran hluta borgarinnar. Það er ótrúlegt að í svona borg eins og Kaupmannahöfn sé hægt að gera svona stíga umhverfis hana alla og innan hennar einnig. Oftar en ekki eru það gömul járnbrautarsvæði sem hafa verið notuð undir þessa stíga sem og gamlir varnargarðar. Þetta eru svæði sem hafa mótað borgina að mörgu leyti, hafa sloppið undan árás fasteignarmógúlana og eru í dag grænar vinjar í múrsteinaríkinu.

Í skipulagsgeiranum hafa menn úr miklu að moða og oftar en ekki eru svæðin sem unnið er með svæði á besta stað. Iðnaðurinn er að hverfa úr höfnunum sem gefur möguleika á að skipuleggja þær algerlega upp á nýtt með nýjum forsendum. Nálægðin við vatnið er allt sem þarf til að fá fjárfesta til að standa í röðum, ekkert er eins söluvænlegt. Vatn og sjór er að verða eitt hið dýrmætasta sem arkitektar fá inn á borð til sýn. Allstaðar er vatn, skurðir eru mokaðir um allt til að koma vatni að glerhýsum stórfyrirtækjanna og glæsiíbúðum hinna nýríku. Forfeðurnir unnu reyndar með berum höndum við það í áratugi að koma vatninu burt og auka landrými til ræktunnar. En hvað um það, það á víst að veita lausn frá stressi nútímans að glápa á vatn og þá verður hvergi sparað. Er svo ekki betra að þetta lið stari á vatnið bærast en að það sé útúrspíttað á kóki eða hoppi niður af Langebro.?


Nú sit ég og geri grein fyrir því sem augu bar í gær, skrái missing links. Að sjálfsögðu er “deadline” sem þarf að halda og um að gera að drífa þetta af. Það var þess vegna ekki um annað ræða en að vinna heima í dag vegna þess Karen Embla er heima vegna veikinda. Hún er alltaf með einhverja magaverki og verður Jón læknir heimsóttur seinnipartinn og stúlkan rannsökuð. Henni leiðist náttúrulega greyinu, er að reyna lesa í skólabókunum. Hún er að sjálfsögðu dálítið óhress með að pabbi skuli skammta sjónvarpsglápið og tölvunotkun. Ég líð lítið eitt fyrir það, hún ráfir eilítið um og er sífellt að kalla á athygli mína, finnur ekkert til að gera, ...að eigin sögn. Sólin skín glatt svo speglar á hvern glugga handan götunnar. Það standa allir gluggar opnir og umferðarniðurinn heyrist í fjarska. Fer að sækja litla manninn eftir smástund.

út vil ek.

Engin ummæli: