föstudagur, maí 12, 2006

...Always take the weather with you, everywhere you go

sungu piltarnir í Crowded house í frábæru lagi. Þetta eru orð sem við reynum að gera hátt undir höfði hér á heimilinu. Upp á síðakstið finnst okkur vel hafa tekist til við að taka veðrið með okkur. Sólin og sumarblíðan hefur elt okkur um álfuna þvera og endilanga. Það er nú samt þannig, að það er ekki sama hvaða veður maður hefur í farteskinu og um að gera vanda vel til valsins. Við ákváðum til að mynda að skilja kulda, bleytu, og hvassviðrið eftir í kóngsins köben er við héldum suður á bóginn. En sólin, hitinn og sumarsælan fékk að fljóta með í annars úttroðnum pinglunum þegar heim var farið.

Sumarið kom á einni nóttu hér í köben. Frá kuldagalla á laugardegi til klip-klappers á sunnudegi. Kerlingarnar spranga nú orðið um göturnar á hvítum hörklæðum og karlarnir bera bumbuna í svörtu leðurvesti svo sjást í föl húðflúrin. Bjórþyrstir bekkjarvermar píra augun undan skreyttu kaskeytinu, hljæja hásir af barnslegri gleði milli túrana að pulsuvagninum. Gluggar standa opnir og og gasolin tónar breiðast um alla götur “smukke unge mennesker”. Danir elska 80´s tónlistina sína og spila alla slagarana frá þeim tíma á sumrin, og fátt eitt getur komið stuðinu upp en góðir tónar frá Thomas Helmig, Sanne Salomonsen, Søs Fenger, Dansorkesteret og fleirum.

“Sumarið er tímin” söng svo Bubbi og fátt eru meiri sannindi. Danir elska sumarið, þeir elska að vera með hvor öðrum og elska að vera með rjóðar kinnar af öldrykkju og síðast en ekki síst elska þeir að gera ekki neitt. Fyrir vinnusjúkan íslending sem varð að drekka þriðjudagsbjórinn sinn undir sófa af ótta við að nágranarnir sæju til, og sem þurfti að hlaða grjóti ofan á tjaldið í sumarútileigunni svo það fyki ekki eru þetta góðir tímar. Hægt og rólega hefur maður skift um gír, og nú er svo komið að maður setur upp stór augu nefnir einhver auka- eða yfirvinnu. Hver dagur inniheldur tvo daga, einn vinnudag og einn frídag. Það er komið heim úr vinnu um miðjan dag og allt sídegið eftir. Bjórdrykkjunni fer reyndar ekki mikið fyrir hjá okkur, eða annað af ósiðum fyrrum nýlenduherrana. Auðvitað er drukkið vín með góðum mat og drukkin öl á góðra vina fundum, en drykkja af skyldurækni er liðin tíð. Það var nefnilega þannig fyrst þegar við fluttum, þá fannst mér það hrein svik við öll tækifærin sem mættu mér í búðunum að nýta þau ekki. Hvernig gat maður staðist bjórkassan sem kostaði ekki nema 900 Isk og hvítvínið sem kostaði bara 250 Isk.?

Það verður ekki tekið fyrir það að margt í samfélaginu ýtir undir synduga lifanaðarhættir. Ef syndirnar sjö og viðurlög við þeim væru á rökum reistar brynnu flestir danir í hreinsunareldinum. Í stuttu máli virðist sem svo að syndir Íslendinga eru dyggðir dana.

Það er margt skrítið í kýrhausnum, ...en í minni sveit var hann samt étinn.

Engin ummæli: