mánudagur, maí 22, 2006

áhyggjulausu ævikvöldin.?

Meðferð á öldruðum er töluvert í umræðunni hér í DK um þessar mundir. Fyrir stuttu var flett ofan af ansi illri meðferð á gamla fólkinu á einu stærsta elliheimili landsins. Þarna voru aldraðir með bleyjurnar sínar tímunum saman og allar tilraunir þeirra til að fá aðstoð hundsaðar af starfsfólkinu. Það var starfsmaður kvikmyndafyrirtækis sem fékk starf á stofnuninni og með faldri myndavél myndaði hann þessa illu meðhöndlun. Dæmi voru um að gamla fólkið þurfti að bíða 14 – 16 tíma eftir að fá skipt um bleyju og þegar það var gert var saurinn og þvagið storknað við húð viðkomandi. Mikið hefur verið rætt um aðbúnað aldraða upp á síðkastið sem og velferðarkerfið í heild. Íhaldið vill skera niður og skerpa á úthlutun í styrkjakerfinu, þeir vilja hækka eftirlaunaaldurinn og takmarka atvinnuleysisbætur. Nú liggja þessir stjórnarflokkar vel við höggi þegar reglulega er flett ofan rotnum veruleikanum í fyrirmyndarvelferðarsamfélaginu.

Margt af því sem íhaldið vill gera í umbætum á velferðarsamfélaginu er ánefa þarft. Til dæmis að endurskoða lífeyrisaldurinn. Ég tel þó að það eigi ekki að gilda sömu aldursmörk fyrir allar stéttir. Mér finnst að þeir sem stunda líkamlega og andlega krefjandi vinnu eigi að komast fyrr á lífeyrisaldur, á meðan bankamennirnir með nivea fingurna geta hæglega unnið nokkrum árum lengur. Reyndar er mótsögnin sú að líkamlega erfiðisvinnan heldur oftar en ekki lífi í fólkinu langt fram undir 100 árin. Þjóðarsálin hér í Danmörku snýst reyndar að mörgu leyti um að komast sem fyrst á eftirlaun, til að geta dundað í garðinum á milli ölsopanna og smurbrauðsbitanna

Annað ranglæti í þessum lífeyrismálum hinna kapítalísku velferðarsmafélaga er að miða útborgun úr leifeyrissjóði við greiðslur í sjóðinn. Það þýðir að verkakonan sem vann alla ævi á lúsarlaunum, þarf að sætta sig við lágmarksgreiðslur úrlífeyrissjóðnum. Þannig eru hinu köldu örlögum fátæklingana haldið lýði með lögum og síðustu ævidagarnir fjara út við sama skortinn.

Það er ekki öllum skapað áhyggjulaust ævikvöld.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

vildi bara kvitta fyrir komuna kæri bróðir bið að heilsa öllum.. kossar og knús