mánudagur, ágúst 28, 2006

Fyrsta róðraræfingin á árinu.

Áhöfnin, Grettir kom saman í fyrsta skipti í tæpt ár núna í kvöld. Róið var í klukkutíma útá Eyrasundinu og inni á lóninu í Amager strandpark. Þetta var hörkuæfing þó að einungis mættu fjórir ræðarar af sex. Ágúst Österby stýrði sem áður af myndarskab og aðrir ræðarar voru hinir færeysku frændur okkar, Gunnar, Davíð og Eyvind.

Ætlunin er að æfa fyrir róðrar-keppni sem haldin verður um aðra helgi í Sorø, árviss viðburður sem yfirleitt dregur að flest róðrar-liðin í Danmörku. Í Sorø er keppt í ferskvatni sem gerir róðurinn um 30% þyngri. Vegalengdin er 1000 metrar og tímin sem þetta tekur að róa er um það bil 5,5 - 6,0 mínútur.

Fyrir rúmu ári klömbruðum við saman þessari áhöfn, ég og Skarphéðinn nokkur Njálsson, sem nú er fluttur til Færeyja. Við náðum að æfa okkur ein 6 -7 skipti og mættum reyfir til leiks.

Róið var í blíðskaparveðri og var það ákveðið að við myndum keppa á móti annarri áhöfn sem kallaði sig Don King. Þessir strákar voru allir nýkomnir frá Færeyjum eftir róðratímabil sumarsins og í toppæfingu og til liðs við sig fengu þeir gullverðlaunahafa frá ÓL í Aþenu 2004, Stephan Mølvig. Það var mál manna á kajanum að þetta yrði leikur kattarins að músinni.

En annað kom á daginn, eftir afleitt start tóku við á honum stóra okkar og með gríðarlegum vilja og sjálfspíningu stjórnað af hinum ílsenska Skarphéðni drógum við Don King uppi og sigum framúr.

Við sigruðum eftir ægilega keppni með rúmri sekúndu.

Undiritaður féll nánast í yfirlið eftir að við komum yfir marklínuna og það tók mig 30 - 40 mín að jafna mig áður en ég gat yrt á nokkurn mann. Ég reyndi að halda haus á meðan á verðlaunaafhendingunni stóð en var gjörsamlega örmagna á líkama og sál. Keppinautar okkar voru ekki síður örmagna og leið yfir 2 þeirra og einn kastaði upp. Fleiri en ég í okkar áhöfn voru örmagna, en ég sýnu verstur.

En nú skal manninn reyna og nú er ætlunin þessi áhöfn verði með á öllum mótum næsta sumar. Nú höfum við fengið lánaðan einn bát hjá klúbbnum og fengið pláss fyrir hann hérna í næstu höfn. Það gerir allt amstrið í kringum æfingar helmingi auðveldara.

árar verða ekki lagðar í bát í þetta skiptið því þeir fiska sem róa.

Sólbakkinn heimsóttur

Laugardagurinn síðastliðni stóð í merki Sólbakkans. Þar vorum við boðinn í sumarveislu og 50 ára afmælis þessara merkilegu stúdentagarða. Góði vinir okkar þau Hallur og Hanna hafa boðið okkur með í þessa árlegu veisl síðan þau hófu búskab þarna.

Þessir námsgarðar hafa hýst margan Íslendinginn þessi 50 ár og eru dæmi um að börn sem þarna ólust upp með foreldrum sínum búi þar sjálf með eigin börn.

En laugardagurinn var settur þéttri og litríkri dagskrá þar sem eitthvað var við hæfi allra. Þarna var spilaður ljúfur djass, leikir fyrir börnin, bjórsmökkun, sambadans, snittur og grillmatur og ýmislegt annað sem gladdi skilningarvitin.

En þennan dag sem aðra daga í ágúst, anno domini 2006 þá varð algert skýfall. Svo mikið rigndi að Sonja sem var á leiðinni með nýfæddu prinsessuna snéri við á aðalbrautarstöðinni, holdvot og köld.

Karen og Óliver létu rigninguna ekkert á sig fá og léku sér ásamt hinum börnunum við að sulla og malla í pollunum.

Eftir að við höfðum gætt okkur á góðum grillmatnum, veigum guðanna og kökubakstri húsbóndans héldum við 3 heim á leið, glöð eftir góða veislu.

Sólbakkin stóð ekki alveg undir nafni þennan seinnipart laugardags, en það gerði hins vegar dagurinn.!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ungdómurinn í Kristjaníu,

Í fyrradag kom Oddur félagi minn í mat til okkar hérna í Lombardigötunni. Oddur sem bjó hérna um árabil en flutti á landið kalda í fyrra er enn í námi hjá Niels Brock inst. Hann er í einhverjum tölvufræðum og um þessar mundir er 5 vikna námskeið í gangi sem hann verður að sækja en annars starfar hann við upsetningu og umbrot hjá Fréttablaðinu.

Við buðum upp á wokrétt, kjúkling og grænmeti með kókos og karrý. Rétturin sem hefur næstum guðdómlegan status hjá heimilsföðurnum bragðast alltaf jafnvel. Eftir hæglætis kvöldstund yfir bjór og rauðvíni rölltum við niður í kristjaníu og fengum okkur einn kaldann.

Í kristjaníu var mikil gleði, nokkuð mannmargt en fjöldinn samanstóð af mestu af hálfskökkum múlöttum og múslimum annars vegar og hinsvegar flyðrulegum fermingarstelpum sem gengur valltar um á háhælunum. Reyndar var hinn venjulegi skammtur af arfafullum, tannlausum og grettnum grænlendingum á sínum stað. Lítið sást þó til hippalýðsins eða hinna frjálslyndu. þenkjandi kynslóð sem svæðið er annars þekkt fyrir.

Þetta var undarlegt að sjá. Það virtist sem svo að þarna væri griðarstaður fyrir börnin sem einhverra hluta vegna ekki hafa haft nægjanlega leiðsögn í lífinu. Þarna voru hörkulegir guttarnir að herma eftir eldri kynbræðrum sínum í hátterni og fasi. Og ekki var skárra að horfa upp á litlu stelpurnar sem reyndu eftir fremsta megni að sýna ávexti sína, stífmálaðar, með sígarettuna vandlega staðsetta á teinréttum fingrunum. Allar þessar stelpur gátu vandræðalaust verslað á barnum og báru bæði drykki og bjóra til kynssytra sinna sem sátu kátar á næstu borðum.

Allir voru að þykjast vera eldri, meira töff, hættulegri, hugrakkari, skeytingalausari, reynslumeiri eða svalari. En gamli vestfirski sjóarinn, sem nú er 3ja barna faðir og prufað hefur sitt og hvað þóttist sjá í gegnum leikritið sem krakkarnir settu á svið, en þó ekki. Þetta var jú há alvara.

Hvar eru foreldra þessara barna, þau skildu þó ekki vita hvað fram fer. Er kannski nokk sama, eða hafa ekki orku í að fást við barnið sem hvort sem er fer bráðu að ráða sér sjálft. Kannski geta þessir krakkar platað foreldra sína með sögum um sakleysi sitt, annað eins hefur nú gerst.

En svona eru nú unglingsárin einu sinni, allt skal prufað og sannreynt. Það er samt mikilvægt að bvörn og foreldrar séu í ábyrgu trúnaðarsambandi á þessu tímabili, sem getur komið komið í veg fyrir margar hörmungar.

Sagan endurtekur sig alltaf, en mistökin þurfa ekki að hlýta sömu lögmálum.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Kristjanía, vin eða sódóma.

Það er mikið rætt um Kristjaníu þessi misserin hér í köben og skiptast bæjarbúar í tvæ fylkingar þegar tekin er afstaða til framtíðar svæðisins. Hægri fylkingin vill byggja lúxusíbúðir og skrifstofur á svæðinu en vinstri sinnaða liðið vill tryggja áframhaldandi tilvist Kristjaníu þó með ákveðinni normaliseringu. Vinsælar eru flíkurnar sem bera hina táknrænu 3 gula hringi sem er merki Kristjanínu og annars vegar með slagorðinu "Bevar Christiania" og svo hin sem gárungarnir velja þar sem stendur "Ryd lortet" eða "Ryðjið skítinn".

Hasssalan hefur verið fjarlægð af yfirborðinu þó hún blómstri engu að síður sem fyrr. Nú keyra hasssalarnir um á hjólum eða bera utan á sér bakka eða stórara tréöskjur sem þeir opna fyrir hugsanlega kaupendur. Svoleiðis minna þeir eilítið á dömurnar sem selja poppkorn og nammi á knattlekjunum, bara harðneskjulegri og með flóttalegra auganráð. Í einni ferð minni um svæði fyrir nokkru sá ég mann klæddan í íslenska lopapeysu og með kaskeyti. Mér fannst ég kannast við kauða sem var á aldri við föður minn og horfði þess vegna ákveðið á hann þar sem hann kom rambandi út af einum ölkofanum. Maðurinn tók eftir mér og nikkaði, ég nikkaði á móti og þóttist viss um að maðurinn væri gamall sjóari frá Ísafirði. Hann lyfti svo hæglega upp hægri höndinni eins og hann ætlaði að heilsa mér og veifaði, ég ætlaði að fara að gera það sama þegar ég kom auga á stóra hassmolan sem hann hafði límt við lófan. Ég hristi hausinn ákveðið og gekk minn veg.

Svo hef ég heyrt að sölumennirnir séu búnir að taka hjólhestinn í sína þjónustu og þjótist um allt með þennan varning sem er jafn samofin sögu svæðisins og hin skemmtilega byggingarlist sem þar finnst og er þekkt víða um álfuna.

Kristjanía í núverandi mynd á sér sögu frá því snemma á sjöunda áratugnum, þegar hústökufólk tók sér búsetu í yfirgefnum mannvirkjum sjóhersins. Síðan hefur þarna þróast í átt til sjálfbærs samfélags þar sem fólk lifir eftir eigin prinsippum og hugsjónum. Samfélagið er þó með sitt eigið þing og reglur og sagði sig á sínum tíma úr lögum við danska konungsveldið. (væntanlega innblásnir af frændum sínum úr norðri) Danska þingið samþykkti svo árið 1973 að leyfa þarna svokallaða "félagslega tilraun" og þarmeð var búsetan á svæðinu lögleg, og síðan hafa samstarfs samningar verið gerðir milli íbúa þess og kaupmannahfanar um dagvistun, skólamál, hita og rafmagn, sorphirðslu og þess háttar.

Svæðið er gríðarlega vinsælt af ferðamönnum og er næstmest heimsótta aðdráttaraflið í Danmörku á eftir Tivolíinu. Þar þrífst mikið menningarlíf og margbreytilegt mannlíf.

Það sem hefur svo verið þyrnir í augum pólitíkusa og siðapostula er að sjálfsögðu eiturlyfjasalan og áhrif mótorhjólagengjana í undirheimum Kristjaníu. Svo virðist einnig sem að byltingin hafi étið börnin sín, og gamlir íbúar Kristjaníu séu jafnborgaralegir í lifnaði og meðal íhaldsmaður í whiskey beltinu norður af höfuðborginni. Þarna hafa verið byggð glæsileg hús á einum gróðursælasta og fallegasta stað miðborgar Kaupmannhafnar. Íbúarnir sem hafa predikað umburðarlyndi yfir fyrrum löndum sínum handan götunnar eru sjálfir orðnir þröngsýnir og eiginhagsmunaseggir af hæstu gráðu.

Þarna þrífst þó margbreytileyki lífsins með góðu og illu, á sama hátt og annarsstaðar í hinu umlykjandi konungsríki.

Það er eingum blöðum um það að flétta að svæðið og tilvist þess er orðin stór hluti af þjóðarímynd og -vitund dana og verður því erfitt um vik fyrir borgarastéttina að tryggja sér aðgang að svæðinu með sínar háu glerbyggingar.

En að mínu viti þarf að sjálfsögðu að endurskilgreina svæðið og framtíð þess á hófsmanan hátt en með tilliti til sögu þess og stöðu.

Vin, en smá sódóma.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Neue bildung fra meine schöne hausfrau

Die hausfrau hast vielen fotografen geseht am die kindern internet site.

ísl. þýðing: nýjar myndir á barnalandinu hjá Óliver Breka.

Nú er úti veður vott.

...verður allt að klessu.!

Vætutíðin hérna í Danmörku hefur verið með eindæmum undanfarnar vikur. Eftir heitasta júlímánuð sem sögur fara af hefur veðufarinu verið snúið á hvolf. Nú er rigning, rok og kuldi daglegt brauð og allt útilíf borgarbúa skolað niður með drullugri rigningunni. Það var því ekki seinna að vænna að koma sér í frí.

Já eftir gott en snarpt sumar hefur aldelilis haustað, skólinn að byrja og daginn tekið að stytta. Ég hef varla áttað mig á að þetta er er staðreynd. Allt sem gera átti til að njóta sumarsins varð að engu. Af um 70 góðum sólar/stranddögum fór ég tvisvar á ströndina, aldrei í tívolí, einu sinni í bakken, aldrei í piknik og örfáa göngutúra. Reyndar var grillað ósjaldan sem annars er helgispjöll ef ekki er gert.

Sumarinu eyddi ég á sorglegum kontór hjá borginni við að hanna og skipuleggja hjólreiðastíga. Kontórinn snéri undan sólinni en með útsýni yfir fjölfarna verslunargötu á Íslands Bryggju og þar iðaði alltaf allt af fáklæddu liði skælbrosandi á sandölum.

Einu skiptin sem ég gat fylgst með framgangi sumarsins var þegar ég stóð við kælirinn í nettó og las dagsetninguna á undanrennunni, sem keypt skildi fyrir morgundaginn.

Sumarið var nú líka óvenjulegt að því leyti að frúin gekk með barn og var seinni hluti meðgöngunnar nokkuð brösulegur þó að allt rættist á endanum. Ofan á allt tókum við til við nokkuð umfangsmiklar breytingar á heimilinu sem útheimtu mikla vinnu.

En nú er mest amstrinu að linna, lítil dama er fædd, breytingarnar langt komnar, mesta amstrið í vinnunni lokið og ég komin í smáfrí.

Þetta verður svo að öllum líkindum seinasti heili veturinn okkar hér í Danmörku og ber hann eflaust margt í skauti sér, jafnt á heimavelli sem í náminu. Nú þegar fer að sjást fyrir endan á þessu tímabili kemur margt upp í huga manns sem prófa og gera skal áður en flutt er heim og því ólíklegt að lognmolla síðustu daga vari lengur en fra yfir helgi.

Vinnan göfgar mannin. (upp að vissu marki.!)

Sonja með börnin sín.

Ég get ekki stillt mig um að setja þessa mynd af fallegu konunni minni og börnunum okkar hér á síðuna, þar sem þau sátu og kúrðu yfir bíómyndinni um köttinn Grettir.

Afi pípari.

Sigurjón afi er búin að vera í miklu stuði undanfarið. Hann er búin að vera hérna hjá okkur í köben meira og minna síðan um miðjan júlí. Á sama tíma hefur hann verið að stýra fyrirtækinu sínu í Reykjavík núna á hábjargræðistímanum.

Á þeim velli er í mörgu að snúast og hefur það orðið til þess að kappinn hefur þurfta að fljúga fram og til baka á milli landanna ofta en tölu verður á komið. Og svo á meðan hann hefur verið hérna hefur stjórnunin að miklu leyti farið fram í gegnum síman sem hefur ekki þagnað, (þarf að kenna kallinum á "silent" takkann ;-).

Í hvert skipti sem kallinn hefur svo komið frá Íslandi hefur hann verið klifjaður ýmsum varningi. Eins og venjan er hjá ömmum og öfum þá er komið með ársbyrgðir af cheriosi, íslensku nammi, harðfisk og annað slíkt. En hann Sigurjón kemur sífellt á óvart og lét sér ekki nægja meðalmennskuna og bætti um betur svo um munar. Kallinn birtist með blöndunartæki í allt baðherbergið og fulla tösku af rörum og fittings ásamt verkfærum. Honum leist ekkert á aðbúnaðinn á baðherberginu og fannst þessi lausn með hárteyjuna á gamla krananum ekki vera að virka. Svo réðumst við tengdarfeðgarnir í að skipta um blöndunartæki. Svo á komandi haustdögum ætlar húsbóndinn að taka restina af baðherberginu í gegn.!

Nú fyrst að píaprinn var kominn í gang þá var ekkert annað en að gera og laga sem lagfæringar þurfti og þá voru gömlu ofnarnir auðveld bráð.

Við vorum með tvo gamla ofna sem voru orðnkir mjög lélegir og hitastillarnir orðnir ónýtir. Til dæmis hækkaði hitareiknigurinn hjá okkur um rúm 3000 dkr á síðasta ári.

Ég og Sigurjón skelltum okkur í Bauhaus og náðum í tvö stykki ofna. Bauhaus er helvíti mikil verslun og úrvalið gríðargott. "Disney land" hemilisföðursins eins og Oddur félagi minn segir.

Ofnunum var svo skipt út og erum við þess vegna komin með fullt kontról yfir hitanum fyrir komandi vetur. Það veitir ekki af að hafa þessa hluti í lagi og þess vegna er gott að eiga svona hauka í horni þegar kemur að slíku.

Við þökkum fyrir.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Nýja hjólið.

Eftir að hafa upplifað sitt af hverju í sambandi við hjólreiðaeign og hjólreiðar þá bætti ég einni rós í það hnappagatið á dögunum. Ég festi kaup á forláta Raleigh hjóli, hjól sem er sönn kopía af reiðhjóli sem var hannað og framleitt upp úr 1920. Maður situr teinréttur í baki og allt er hið þægiælegasta.

Síðustu misseri hef ég reynt að nota hjólhestinn sem mest til að komast á milli staða og notað til þess hjólin sem ég hef átt hverju sinni. Síðan ég kom hingað til Danmerkur hef ég notast við sex reiðhjól. Eitt keypti ég strax og ég kom hingað,því var stolið. Annað hjólið fann ég og lagaði, á því var ég keyrður niður. þriðja hjólið keypti ég handa frúnni en notaði það sjálfur. Fjórða hjólið keypti og var það hið glæsilegast, því var stolið. Fimmta hjólið fann ég hérna í garðinum, því var stolið. Nú er sjötti fákurinn tekinn í notkun og fylgja honum tveir lásar, "kaskó" trygging og er það skráð í bak og fyrir hjá hinu ýmsu aðilum.

Ég keypti barnastól fyrir Óliver og finnst honum ekki slæmt að keyra um eins og hreppstjóri framan á stönginni og hringja bjöllunni og veifa fólkinu í kringum sig.

Það er passað uppá þennan fák og er hann tekinn inn í garðinn hvert skipti og er ætlunin að þetta hjól fylgi mér um ókominn ár.

riing, riing.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Myndir af litlu dömunni.

Á myndasíðuna eru komnar nokkrar myndir af litlu, nýfæddu dömunni.

Linkurinn á síðuna er hérna hægra meginn.

Nýtt bloggtímabil að hefjast.!!

Það hefur verið nokkuð rólegt á bloggsíðunni síðastliðnar vikur. Ástæðan eru annir og aftur annir.

Það sem hæst hefur borið á bóga er að sjálfögðu fæðing dóttur okkar þann 13 ágúst. Annars hefur vinnan tekið mikin tíma og svo hefur verið unnið að ýmsum verkefnum heimafyrir.

En nú er ætlunin að bæta úr og halda áfram þar sem frá var horfið.