föstudagur, ágúst 25, 2006

Kristjanía, vin eða sódóma.

Það er mikið rætt um Kristjaníu þessi misserin hér í köben og skiptast bæjarbúar í tvæ fylkingar þegar tekin er afstaða til framtíðar svæðisins. Hægri fylkingin vill byggja lúxusíbúðir og skrifstofur á svæðinu en vinstri sinnaða liðið vill tryggja áframhaldandi tilvist Kristjaníu þó með ákveðinni normaliseringu. Vinsælar eru flíkurnar sem bera hina táknrænu 3 gula hringi sem er merki Kristjanínu og annars vegar með slagorðinu "Bevar Christiania" og svo hin sem gárungarnir velja þar sem stendur "Ryd lortet" eða "Ryðjið skítinn".

Hasssalan hefur verið fjarlægð af yfirborðinu þó hún blómstri engu að síður sem fyrr. Nú keyra hasssalarnir um á hjólum eða bera utan á sér bakka eða stórara tréöskjur sem þeir opna fyrir hugsanlega kaupendur. Svoleiðis minna þeir eilítið á dömurnar sem selja poppkorn og nammi á knattlekjunum, bara harðneskjulegri og með flóttalegra auganráð. Í einni ferð minni um svæði fyrir nokkru sá ég mann klæddan í íslenska lopapeysu og með kaskeyti. Mér fannst ég kannast við kauða sem var á aldri við föður minn og horfði þess vegna ákveðið á hann þar sem hann kom rambandi út af einum ölkofanum. Maðurinn tók eftir mér og nikkaði, ég nikkaði á móti og þóttist viss um að maðurinn væri gamall sjóari frá Ísafirði. Hann lyfti svo hæglega upp hægri höndinni eins og hann ætlaði að heilsa mér og veifaði, ég ætlaði að fara að gera það sama þegar ég kom auga á stóra hassmolan sem hann hafði límt við lófan. Ég hristi hausinn ákveðið og gekk minn veg.

Svo hef ég heyrt að sölumennirnir séu búnir að taka hjólhestinn í sína þjónustu og þjótist um allt með þennan varning sem er jafn samofin sögu svæðisins og hin skemmtilega byggingarlist sem þar finnst og er þekkt víða um álfuna.

Kristjanía í núverandi mynd á sér sögu frá því snemma á sjöunda áratugnum, þegar hústökufólk tók sér búsetu í yfirgefnum mannvirkjum sjóhersins. Síðan hefur þarna þróast í átt til sjálfbærs samfélags þar sem fólk lifir eftir eigin prinsippum og hugsjónum. Samfélagið er þó með sitt eigið þing og reglur og sagði sig á sínum tíma úr lögum við danska konungsveldið. (væntanlega innblásnir af frændum sínum úr norðri) Danska þingið samþykkti svo árið 1973 að leyfa þarna svokallaða "félagslega tilraun" og þarmeð var búsetan á svæðinu lögleg, og síðan hafa samstarfs samningar verið gerðir milli íbúa þess og kaupmannahfanar um dagvistun, skólamál, hita og rafmagn, sorphirðslu og þess háttar.

Svæðið er gríðarlega vinsælt af ferðamönnum og er næstmest heimsótta aðdráttaraflið í Danmörku á eftir Tivolíinu. Þar þrífst mikið menningarlíf og margbreytilegt mannlíf.

Það sem hefur svo verið þyrnir í augum pólitíkusa og siðapostula er að sjálfsögðu eiturlyfjasalan og áhrif mótorhjólagengjana í undirheimum Kristjaníu. Svo virðist einnig sem að byltingin hafi étið börnin sín, og gamlir íbúar Kristjaníu séu jafnborgaralegir í lifnaði og meðal íhaldsmaður í whiskey beltinu norður af höfuðborginni. Þarna hafa verið byggð glæsileg hús á einum gróðursælasta og fallegasta stað miðborgar Kaupmannhafnar. Íbúarnir sem hafa predikað umburðarlyndi yfir fyrrum löndum sínum handan götunnar eru sjálfir orðnir þröngsýnir og eiginhagsmunaseggir af hæstu gráðu.

Þarna þrífst þó margbreytileyki lífsins með góðu og illu, á sama hátt og annarsstaðar í hinu umlykjandi konungsríki.

Það er eingum blöðum um það að flétta að svæðið og tilvist þess er orðin stór hluti af þjóðarímynd og -vitund dana og verður því erfitt um vik fyrir borgarastéttina að tryggja sér aðgang að svæðinu með sínar háu glerbyggingar.

En að mínu viti þarf að sjálfsögðu að endurskilgreina svæðið og framtíð þess á hófsmanan hátt en með tilliti til sögu þess og stöðu.

Vin, en smá sódóma.

Engin ummæli: