miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Nú er úti veður vott.

...verður allt að klessu.!

Vætutíðin hérna í Danmörku hefur verið með eindæmum undanfarnar vikur. Eftir heitasta júlímánuð sem sögur fara af hefur veðufarinu verið snúið á hvolf. Nú er rigning, rok og kuldi daglegt brauð og allt útilíf borgarbúa skolað niður með drullugri rigningunni. Það var því ekki seinna að vænna að koma sér í frí.

Já eftir gott en snarpt sumar hefur aldelilis haustað, skólinn að byrja og daginn tekið að stytta. Ég hef varla áttað mig á að þetta er er staðreynd. Allt sem gera átti til að njóta sumarsins varð að engu. Af um 70 góðum sólar/stranddögum fór ég tvisvar á ströndina, aldrei í tívolí, einu sinni í bakken, aldrei í piknik og örfáa göngutúra. Reyndar var grillað ósjaldan sem annars er helgispjöll ef ekki er gert.

Sumarinu eyddi ég á sorglegum kontór hjá borginni við að hanna og skipuleggja hjólreiðastíga. Kontórinn snéri undan sólinni en með útsýni yfir fjölfarna verslunargötu á Íslands Bryggju og þar iðaði alltaf allt af fáklæddu liði skælbrosandi á sandölum.

Einu skiptin sem ég gat fylgst með framgangi sumarsins var þegar ég stóð við kælirinn í nettó og las dagsetninguna á undanrennunni, sem keypt skildi fyrir morgundaginn.

Sumarið var nú líka óvenjulegt að því leyti að frúin gekk með barn og var seinni hluti meðgöngunnar nokkuð brösulegur þó að allt rættist á endanum. Ofan á allt tókum við til við nokkuð umfangsmiklar breytingar á heimilinu sem útheimtu mikla vinnu.

En nú er mest amstrinu að linna, lítil dama er fædd, breytingarnar langt komnar, mesta amstrið í vinnunni lokið og ég komin í smáfrí.

Þetta verður svo að öllum líkindum seinasti heili veturinn okkar hér í Danmörku og ber hann eflaust margt í skauti sér, jafnt á heimavelli sem í náminu. Nú þegar fer að sjást fyrir endan á þessu tímabili kemur margt upp í huga manns sem prófa og gera skal áður en flutt er heim og því ólíklegt að lognmolla síðustu daga vari lengur en fra yfir helgi.

Vinnan göfgar mannin. (upp að vissu marki.!)

Engin ummæli: