sunnudagur, júlí 02, 2006

Afmlisveisla að austurlenskum sið ...og afmæliskveðja að íslenskum

Í gær fórum við fjölskyldan í afmælisboð til hennar Pulendra-devi Kanagasundram, mömmu hennar Lakshi vinkonu Karenar. Pulendra varð fertug á dögunum og bauð til mikillar veislu í almenningsgarði hér í hverfinu. Veðrið var eins og best á kosið, heiður himinn, 28 stiga hiti og ekki bærði blað á grein. Á boðstólnum voru miklar veigar, mestmegnis matur að hætti þeirra Sri-Lanka búa og lítið eitt frá kúltúr hinna fölu skandinava.

Börnin fengu pulsur og gos, og því var svo skolað niður með illa bráðnum ís. Fullorðni hlutinn fékk að bragða á allra handa kræsingum sem hinu Tamílsku sri-Lanka búar eru þekktir fyrir að galdra fram. Matseðill þeirra einkennist oft af sterkum, djúpsteiktum mat eða einhverju dísætu sykurmalli. Í gær var ekkert brugðið útaf vananum og boðið upp á allskyns bollur sem sprungu eins og molotovkokteilar uppí manni eða dísætar sykurleðjur sem maður ætlaði aldrei að ná að kyngja.

En gott var það samt. Þó að maturinn sé það sterkur að maður iðrist í bókstaflegri merkingu daginn eftir, og svíði í lúðrinum, þá lætur maður sig hafa það. Maturinn er góður en einnig er ég viss um að það sé púra ókurteisi að taka ekki við öllu sem rétt er að manni. Ég át þarafleiðandi á mig óþrif í gær og geld það háu verði í dag.

Eftir rúma 3ja tíma veru var frúin orðin þreytt og klukkan orðin margt, kominn háttatími og við fórum heim á leið.

Kvöldið leið svo yfir sjónvarpinu þar sem ég og Karen fylgdumst með æsispennandi leik Frakka og Brasilíumanna á HM. Við sáum Zidane fara á kostum, og myndi mig ekki undra að þessi galdramaður kæmi “le bleu” á efsta pall þar sem hann tæki við styttunni frægu. Reyndar hafa Frakkar alltaf verið ótrúlega mistækir á svona stórmótum og ekki alltaf spilað skemmtilegan bolta, en í spilið í gær var oft á tíðum augnakonfekt.

Síðasta verk dagsins var svo að senda honum Kalla Hallgríms æsku- og bekkjarfélaga afmæliskveðju. Ég var hálfsofnaður þegar ég mundi allt í einu að dagurinn í gær hét 1. júlí. ...ekkkert annað að gera en að senda karlinum kveðju sem er löngu orðin föst hefð. Það er þannig að við vorum 3 úr gamla bekknum sem eigum afmæli 1. dag mánaðar og hef ég haft fyrir hefð að senda hinum tveimur alltaf kveðju, og fæ að sama skapi kveðju frá þeim. Lítil, en skemmtileg hefð sem hefur eins og margt annað, tilfinningalegt gildi.

...og var ekki alltaf verið að tala um tilfinningagreind

Engin ummæli: