mánudagur, júní 19, 2006

Hæ, hó jibbí jei og jibbí jei, ...það er kominn

...17 júní. Það var eins og gerst hafði í gær, ég vakna í rúminu mínu í Traðar-landinu og heyri í Ragga bróðir vera að fá sér seríós. Ég sprett fram úr og fram í ledhús svo hann klári ekki allt.! Mamma minnir mig á víðavangshlaupið sem á að byrja klukkan 11:00 og bendir á fötin sem liggja á stólbakinu. Pabbi kemur fram á nærbrókunum, sest niður og fær sér pípu, hann klórar sér eitthvað í krullunum á meðan mamma kroppar bólu á bakinu á honum. Hann fær sér kaffi uppá gamla mátann og er annars hugsi. Mamma fer fram og kveikir á útvarpinu, og eftir stutta stund hljómar hinn frábæri þjóðhátíðarslagari með Dúmbó og Steina. 17 júní var byrjaður.!

Þessi 33. þjóðhátíðardagur sem ég hef lifað var nokkuð hefðbundinn hér í Danmörku. Veðrið var gott með einni stakri hellidembu um miðjan daginn, svona til að minna á hverfulleika náttúruaflanna. Dagurinn bauð svo uppá samveru með hundruðum landsmanna og góðra vina á Ströndinni okkar hér á Amager. Þarna var margt sér til dundurs gert og mikið rætt og skrafað. Krakkarnir voru í skýjunum, yfir því að geta hlaupið um allt og leikið sér, þarna voru loftkatsalar, tónlist og sölubásar, að ógleymdri sjálfri ströndinni sem krakkarnir kepptust við að nota.

Við nestuðum okkur vel upp og sátum fram á kvöld í grasinu og létum okkur líða vel. Þarna var seld íslensk tónlist af skagamanninum Þórhalli Jónssyni. Hann er búin að opna verslunina 12 tónar á Fiolstræde, hérna í miðborginni og er með mikið magn af íslenskri tónlist. Það verður gaman að skella sér í kaffi til hans, spjalla og hlusta á ættjarðatóna.

Ekkert áfengi var haft við hönd af fjölskyldumeðlimum þennan daginn og ferska loftið notið til hins ýtrasta.

...vantaði bara SS pulsurnar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég héllt fyrst að þetta væri einhver ógó flottur Frakki sem sæti hjá Óliver. Svona með málarahúfuna og í röndóttu peysunni og skeggið....en svo sá ég að þetta varst þú bróðir sæll..þetta lúkk fer þér vel:-)