þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Hrafnarnir flykkjast á mölina

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá því að krummar í stórum hópum hafi gert sig heimakæra í höfuðborginni við Faxaflóann. Talið er að jafnvel sé um og yfir eitt þúsund hrafnar sem á þessum kalda vetri hafi leitað þar skjóls og matar, nema að þeir séu að bralla eitthvað annað þessar gáfuðu skepnur.

Þetta er sami fjöldi og úrtakið úr hinni umtöluðu skoðanakönnun Fréttablaðsins á dögunum þar sem afhroð Framsóknarflokksins var naglfest á síðu hinnar sökkvandi þjóðarskútu. Það gæti sum sé verið að Framsóknarflokknum sé að berast þarna liðsauki sem eigi að taka þátt í næstu skoðanakönnun og lyfta fylgi flokksins. Kannski að Jón Sigurðson hafi lofað hröfnunum iðrin úr fátæklingum landsins, sem gera hvort eð er ekkert annað en að vera með sífellt væl og úthrópa flokkinn.

Kannski er uppreisn í uppsiglingu.! Hver man ekki eftir myndinni Birds eftir meistara Hitckock, þar sem fuglarnir réðust á mannfólkið með klóm sínum og göggum, og olli undirrituðum ótal svefnlausum nætum á yngri árum.

En eitt er víst að þessir fallegu nafnar mínir leggja ekki lag sitt við Framsóknarflokkin nema að bera eitthvað bitastætt úr bítum, kannski að síðustu hrútshöfuðin í sveitum landsins standi þeim til boða af dyggum stuðningsmönnum flokksins.

Nei, það er ólíklegt að krumminn sé svo heimskur að gerast falur fyrir þetta verð, en neyðin getur samt verið slík, þar sem varla er ræktaður sauður á stórum landssvæðum og ekki kemur sporður úr sjó nema að vera frystur á sama augnabliki einhversstaðar langt fjarri ströndum landsins.

Dýrðin í borginni heillar jú margann, og kannski er það hið besta mál að dýraríkið komi okkur mannfólkinu til bjargar og hjálpi til við að halda hinu tröllvöxnu ruslahaugum neyslusamfélagsins í skefjum.

Krummi krunkar úti.

Engin ummæli: