fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Vetur konungur

Vetur konungur hefur heldur betur búið vel um sig hér í Danmörku þessa dagana. Danir sem undirbúa sig ekkert sérstaklega undir svona veður sætta sig sæmilega við það að samgöngur lamast nánast algerlega og eina trygga faratækið sé hinar tvær jafnfljótu stangir. Reiðhjólafólkið með stóra hjartað æðir samt sem áður af stað í hálkunni, en hjálmlaust af sjálfsögðu.

Ökutæki eru yfirhöfuð afskaplega illa búin fyrir svona færð og er bílarnir fastir um allar trissur á jafnsléttunni þar sem ekki er nema 5 cm jafnfallinn snjór. Hér í morgunsárið hjálpaði ég nokkrum nágrönum við að ýta bílum þeirra eftir að hafa fylgt Karen í skólann og verður bara að segjast að danir kunna þetta alls ekki. Tæknin sem þeir nota við að losa sig er bara að gefa í svo hvín í öllu og vona það besta. Ég hrópaði "láta bílinn rugga!", ja, ja jeg prøver! kölluðu ökumennirnir á móti án þess að nokkuð gerðist.

Ég eins og flestallir frónbúar kunna þessa tækni nokkuð vel, það var ekki svo sjaldan að maður var fengin að föstum bíl í sköflunum heima í víkinni. Ég man til dæmis að í fyrsta ökutímanum hjá Gunnari Halls í mars 1990 þá festum við bílinn tvisvar í ófærðinni. Þetta var ísavorið mikla þegar djúpið lokaðist. Já maður man þessi ósköp.

Engin ummæli: