mánudagur, maí 28, 2007

Fasteignasalar á ferð.

Undanfarnar vikur höfum við tekið á móti góðum slatta af fasteignasölum sem komnir eru að gera okkur tilboð. Þetta fólk með hið tvísýna orðspor hefur nú komið að öllu leyti vel fyrir og gert og góð tilboð. Tíminn til fasteignaviðskipta er ekki sérlega góður nú um stundir, með tilliti til þeirra sem eru að selja þar sem verðið hefur hríðlækkað og margar eignir á sölu. Við erum þó ekki af baki dottinn og köstum okkur útí þetta ferli.

Fasteignasalarnir hafa allir sett upp álíka verð fyrir fasteignina og þess vegna er nokkuð ljóst hvað mun koma í okkar hlut. Við getum ekki annað en verið ánægð þar sem íbúðin hefur hækkað mjög síðan að festum kaup á henni. En manni verður oft hugsað til þess ef við hefðum selt fyrir ca. 20 mánuðum, þá ætti maður aukalega fyrir lexusjeppanum, tjaldvagni og snjósleða. En svona er þessi markaður, já og lífið sjálft, ekki möguleiki fyrir okkur hina sauðheimsku leikmenn að átta sig á neinu eða sjá hlutina fyrir.

En til að gera íbúðina enn söluvænlegri en hún er, þá verður lappað uppá eldhús og bað. En sjaldan hefur íbúðin verið svo hrein og fín í svo langan tíma í einu þar sem þessir matsmenn koma og fara með nokurra daga millibili. Íbúðin er alltaf eins og klippt úr "húsi og hýbíli" og fyrir algera tilviljun er alltaf mjúkur jazz í græjunum og fersk blóm á borðstofuborðinu.

En þessa dagana er frúin á klakanum og leita að húsnæði til að hýsa okkur næstu 1 - 2 vetur, á meðan við reynum að kaupa lóð og byggja. Ætlunin er að freista þess að fá lóð í Úlfarsfellinu og byggja gott einbýli, en við sjáum hvað setur, byrjum á sæmilegri íbúð einhversstaðar í úthverfunum.

Engin ummæli: