sunnudagur, maí 27, 2007

Lónlí laugardagskvöld

Þessa dagana er ég í hlutverki grasekkils með tvö elstu börnin. Frúin skellti sér til Íslands á þriðjudaginn til þess að athuga með húsnæði og skólavist. Svo var náttúrulega kærkomið tækifærið að fara með Ísabel litlu til ömmu og afa.

En þetta hefur allt saman gengið bærilega síðan að Sonja fór, börnin hafa mætt á réttum tíma í skóla og leikskóla, fengið að borða, föt til skiptana, sofnað fyrir miðnætti, og eru bara nokkuð hrein og stríluð. Er ekki hissa á að manni verði bara meira úr verki þegar ábyrgðin hvílir öll á manni sjálfum.

Á fimmtudaginn kom svo Tryggvi og börnin í mat til okkar. Við elduðum grænmetislasagne að hætti bóndans, en þessi réttur hefur skapað mér guðdómlegan status meðal vina og ættingja.

Í gær fór Karen í afmæli til Stellu vinkonu sinnar. Stella þessi á mjög svo flippaða foreldra sem reka vinsælasta kaffihúsið hér í suðurenda Kaupmannahafnar. Þau hafa inrréttað íbúðina sem eitt stórt leiksvæði fyrir dæturnar þar sem litagleðin er í allgleymi. Og skiljanlega finnst Karen æðislegt að koma til hennar, svo hafa þau öll einstaklega þægilega nærveru.

Embla dóttir Tryggva bauð okkur svo í tólf ára amæli sitt í morgun. Þar var á boðstólnum brauð og bollur að dönskum sið, en enginn gammel dansk.! Ætlunin var að kíkja á karnevalið sem er haldið þessa dagana í Fælledparken en vegna þreytu og yfirvofandi sudda og rigningu var því frestað til morguns. Þá verður smurt nesti og arkað af stað. Færeyingarnir sóttu fast að mér í byrjun vikunnar að ég kæmi með Íslenska sveit í róðrakeppni sem haldin var í dag hér í norðurenda borgarinnar. Því miður tókst það ekki vegna lítils fyrirvara, en norðurlandakeppnin þann 9. júní verður dagurinn þar sem þjóðfáni okkar verður dreginn hátt að húni á Ishøj Regatta.!

Þessa stundina er ég að vinna að verkefni okkar Jóns Rafnars og gengur bara þokkalega. Á morgun verður svo reynt að klára Ósvaraverkefnið. Á borðstofuborðinu er kaldur Carlsberg innan um skólabækurnar og Thomas Helmig hljómar í bakgrunninum með "nu hvor du har brændt mig af".


Lónlí laugardagskvöld með léttu sniði

Engin ummæli: