miðvikudagur, mars 21, 2007

Fiðurfénaðnum gefið

Í gær var veðrið fallegt hér í Kaupmannahöfn, bjartur himinn og svalur vindur. Þetta var hálfgert gluggaveður en ekkert mál að klæða næðingin af sér. Um eftirmiðdaginn röltum við hjónin með þau tvö yngri niður að Kristjaníu og gáfum andfuglunum brauð. Óliver ætlaði hreinlega að hlaupa útí vatnið kallin, svo æstur var hann í að mata þessi garghænsn. Svo til að toppa upplifelsið þá komu nokkrar snátur ríðandi á póníhestum og áðu skamma stund við tjarnarbakkann.

Eftir alla paranojuna í kringum fuglaflensuna sem frúin kom af stað hérna á heimilinu hefur maður verið ein taugahrúga þegar maður nálgast þessi grey. En eftir síðasta vetur þegar heimsendaspárnar gengu fjöllunum hærra og ekkert af því gekk eftir, varð manni lítið eitt rórra í sinni.

Þar sem smitleiðirnar eru helst í gegnum snertingu við saur og endaþarm þessar dýra er manni nokkuð óhætt, í bili að minnsta kosti.

Engin ummæli: