mánudagur, mars 12, 2007

Leikurinn og heimferðin langa

Á sunnudagsmorgunin fórum við Karen til Måløv, sem er bær norðvestur af Kaupmannahöfn. Karen og hinar stelpurnar í BKA áttu að spila leik við Jonstrup. Við byrjuðum á því að hjóla á brautarstöðina og tókum því næst lestina til norðureftir. Á leiðinni var ég að venju beðin um miða af lestarverðinum, og síðan ég fékk frípassan frá vinnunni hennar Sonju hefur það yfirleitt verið mér sérstakt ánægjuefni. Ég sýndi starfsmannapassann og sá að samferðamennirnir í lestinni voru grænir af öfund. En nú var annað upp á teningnum, ég hafði fyllt dagsetningu dagsins vitlasut út, líkt og allar hinar dagsetningarnar á kortinu. Lestarvarðan gerði heilmikið veður út af þessu og tók og mitt í öllu rak hún einnig augun í gildistíma kortsins sem var runnin út síðan 31. jan 2007. Það skipti engum togum, hún reif þetta allt í ræmur við mikla undrun hjá Karen sem var orðin eitt stórt auga og ég sá að hún hálfvorkenndi pabba sínum. En við komumst þó á leiðarenda án annara áfalla.

Leikurin sem stelpurnar spiluðu var æsispennandi og voru allir pabbarnir staðnir upp og orðnir bláir og þrútnir. Greyið dómararnir, tvítugir strákar fengu það óþvegið hvað eftir annað, sjáflsögðu ekki að ástæðulausu! Leikurinn gekk vel og komumst stelpurnar meira að segja í 22 - 14. En í síðasta leikhluta settu mótherjarnir alla risana inn á og náðu að kreista fram eins stigs sigur 26 - 25. En eins og í öllum hinum leikjunum voru stelpurnar okkar að keppa við eldri stelpur. Glæsilegur árangur.!

Eftir leikin ákváðum ég og Karen að hjóla lestarstöðina í Ballerup og taka þaðan lestina, fá okkur smá hjólreiðartúr í blíðunni. Veðrið var með eindæmum gott og við höfðum margt að ræða. Við keyptum eitt súkkulaðistykki til að maula og hjóluðum svo að stað. Þegar við náðum til Ballerup vildi Karen hjóla á næstu lestarstöð, henni fannst svo gaman að hjóla í góða veðrinu og spjalla. Á leiðinni þangað datt henni svo í hug hvort ekki væri hægt að hjóla alla leiðina heim, eða um 30 km. Ég sagði að við gætum hjólað eins langt og okkur lysti og eftir um tveggja og hálfstíma ferð náðum við heim í Lombardigötuna. Við komum með nýbakað brauð úr bakaríi á Nörrebro, svo Sonja setti saman mimi-veislu handa okkur, þreyttum ferðalöngunum. Á leiðinni í gegnum Nörrebro virtum við fyrir okkur alla eyðilegginguna eftir óeirðirnar og komum einning við hjá grunni hins fræga ungdomshúss.

Karen var að sjálfsögðu ánægð með afrekið en þegar ég sagði henni að þetta væri jafn langt eins og að fara fram og til baka milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, hváði hún "ekki meira!"

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman ad heyra adeins af ykkar lífi :) Kvedjur, Erla

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að líta á síðuna. Hvernig gengur heima á íslandi.? ekkert farin að langa aftur til Dk.? Við komum örugglega heim með haustinu.
kveðja. gummi og familí