þriðjudagur, mars 20, 2007

Líka minn líkami

á að verða stæltur og glæstur, ef úr öllum plönum rætist.

Ég vaknaði við slæman draum fyrir stuttu er ég var með yngstu dóttur minni hjá lækninum og eins og gengur og gerist þá þurfti að vigta krílið. Læknirinn bað mig um að stíga á vigtina svo hægt væri að núllstilla hana og taka svo stelpuna í fangið. Ég þráaðist við, ég vissi að niðurstaðan yrði óþægileg þ.e.a.s. fyrir mig. Ég hef ekki vigtað mig síðan um eða eftir jól og síðan þá sporðrennt meiri mat og óhollari en manni í minni stöðu er hollt að gera.


Í fyrsta skipti á mínum tæpum 34 árum rauf ég hinn skelfilega 100 kílóa múr. Ég hef hingað til með áræðni heimskautafarans náð að halda mér undir þessu 3ja stafa skrímsli, en nú svaf ég á verðinum.

Brjóstvöðvarnir sem áður voru eins þrýstnir eins og nýbökuð hamborgarabrauð líkjast nú deigklessum sem hafa lekið undir handarkrikann, maginn framstæður og lætur baráttulaust undan þyngdaraflinu. Naflinn er orðin aflagaður með óljósa geometríu og það er líka tákn um óþægilegan vöxt líkamans þegar maður týnir heilu sokkunum þar inni og er tímunum saman tilfinningalaus í fótunum eftir þröngan buxnastrenginn.

Það var þess vegna fyrsta verk mitt eftir áðurnefnda heimsókn til læknisins að tryggja mér kort í líkamsræktinni og að sverja mig við Atkinsons mataræðið. Einhverntímann var ég ekki nema 77 kíló, minnir að það hafi verið þegar ég var 17 - 18 ára og æfði sund með ÍA. Síðan hef ég ekkert stækkað, nema til hliðar og niður.

Samkvæmt einhverjum fitustuðli á ég við offituvandamál að stríða, örugglega lotugræðgi nema að átlotan er samfelld í mínu tilviki.

Nú skal sverft til stáls og sjálfsaginn endurheimtur, stefnan er sett á 88 kíló fyrir sumarið.

2 ummæli:

Kalli sagði...

Velkominn í þriggjastafatöluklúbbinn.

G.H.A. sagði...

Ég veit ekki hvort maður á þakka fyrir það, en ekki er ætlunin að dvelja þar lengi með ykkur heiðursmönnum sem þar sitja. En þar sem aldurinn færist yfir þá er á brattan að sækja.

gummi