miðvikudagur, mars 21, 2007

Silfraðir lokkar

Í gær þar sem ég sat stjarfur yfir tölvunni og hamaðist við að teikna gerði heimilsfrúin skelfilega uppgötvun, að henni fannst. Þar sem hún stóð fyrir aftan mig og dáðist að listrænum hæfileikum bóndans varð henni litið ofan í lítið eitt útþynntan hvirfilinn. Með skelfingu kom hún með þessi hræðilegu tíðindi, "Gummi, þú ert orðin gráhærður!"

Jæja þá kom að því.! Ég var nýbúin að eygja þá von að hárlosið væri hætt þegar frúin gerðist boðberi vátíðinda og slengdi þessu framan í mig. Hún heimtaði að á klippa hárin úr til að sýna mér, og eftir sem hún rýndi ofan í sviðnan svörðin sá hún fleiri og fleiri silfraða lokka.

Ekki að ég hræðist það að verða grár í vöngum, það eru margir af mínum félögum sem hafa verið gráir í talsverðan tíma og ekkert verri menn fyrir það. Eitt er þó víst að ég mun ekki reyna að berjast á móti gangi tímans og náttúrunnar í þessu tilviki. En það eru víst til meðul við þessu en flestu sem hrjáir miðaldra karlmenn, ekkert er víst verra en að tapa kynþokkanum og getunni til að nýta sér hann.

Mér finnst alltaf hálfaumkunarvert að sjá fullorðna karlmenn með skol í hárinu, svona eins og Árni Johnsen sem reglulega líkist kastaníubrúnum stóðhesti en þess á milli, gráum og grútugum veiðihundi.

Komi þau semkoma vilja, veri þau sem vera vilja.!

Engin ummæli: