þriðjudagur, mars 20, 2007

Skellinöðru prófið

Ég vissi ekki að ég hafði á sínum tíma lokið prófi á skellinöðru fyrr en ég rakst á þetta skírteini í skúffunum á dögunum. Ég átti að sjálfsögðu aldrei mótorhjól, en lánaði oft hjólin hjá Ella Kristjáns og Bjarka.

Ég var og hef aldrei verið sá vélagúru sem maður þurfti að vera til að geta átt svoleiðis grip. Ég horfði yfirleitt með lotningu á hina strákana sem með olíusmurðum fingrum rifu hjólin sín í sundur, tjúnuðu, boruðu út og tengdu framhjá og um loftið þutu hugtök eins og stimplar, tímareim, hedd og heddpakning. Fyrir mér var þetta tóm hebreska en nógu karlalegt til að maður þráaðist við.
Ég átti samt snjósleða, (eða ætlaði að kaupa hann) í einn vetur, Kawasaki 440 drifter. Ég ætlaði að kaupa sleðann af Jóa á Hanhóli og var með hann á "kaupleigu" veturinn 1988 -9 að mig minnir, þegar ég var að vinna í bræðslunni. En eftir að ég velti honum á ísnum inni í syðridal þá var gripnum skilað.
Ævintýrin á þessum vetvangi urðu ekki stór.!

Engin ummæli: